Góð þátttaka í hlutafjárútboðum Tanga hf. og Jökuls hf. Hluthafar Tanga vildu meira en var í boði HLUTHAFAR í Tanga hf. á Vopnafirði skráðu sig fyrir alls um 160 milljónum króna að nafnvirði í hlutafjárútboði félagsins sem lauk í vikunni.

Góð þátttaka í hlutafjárútboðum Tanga hf. og Jökuls hf. Hluthafar Tanga vildu meira en var í boði

HLUTHAFAR í Tanga hf. á Vopnafirði skráðu sig fyrir alls um 160 milljónum króna að nafnvirði í hlutafjárútboði félagsins sem lauk í vikunni. Boðin voru út bréf að nafnvirði 150 milljónir og var því ekki hægt að verða við ýtrustu óskum hluthafanna. Söluandvirði bréfanna nam alls um 262,5 milljónum.

Nokkrir hluthafar framseldu forkaupsrétt sinn til einstaklinga sem ekki voru hluthafar fyrir. Hluthöfum í félaginu fjölgaði því nokkuð eða alls um rúmlega 50. Þeir eru nú orðnir rúmlega 200 talsins og uppfyllir Tangi þar með öll skilyrði til að sækja um skráningu á Verðbréfaþingi. Stefnt er að því að sækja um slíka skráningu innan tveggja ára. Kaupþing Norðurlands hafði umsjón með útboðinu.

Hreppurinn afsalaði sér forkaupsrétti

Hlutafjárútboð Jökuls hf. á Raufarhöfn, sem hófst 15. nóvember, er langt komið og hafa um 90% hlutafjárins selst. Alls var boðið út hlutafé að nafnvirði 20 milljónir á genginu 5,0.

Stærsti eigandi Jökuls hf., Raufarhafnarhreppur, afsalaði sér forkaupsrétti að nýju hlutafé í útboðinu og óskaði eftir að það hlutafé yrði selt til einstaklinga á almennum markaði. Því hefur verið ákveðið að selja þau bréf sem eftir eru í 150 þúsund króna einingum að söluvirði, en sú fjárhæð nægir einstaklingi til að njóta fulls skattaafsláttar. Hlutur hreppsins í fyrirtækinu minnkar af þessari ástæðu úr 83% í 63%. Hefur hluthöfum fjölgað úr 102 í 160 eða um 58, en sótt verður um skráningu á Verðbréfaþingi Íslands þegar hluthafar eru orðnir 200 talsins.

Jökull gerir út ísfisktogarann Rauðanúp, fjölveiðiskipið Arnarnúp og rækjubátinn Öxarnúp. Þá á Jökull rækjuvinnsluna Geflu á Kópaskeri og meirihluta í Fiskiðju Raufarhafnar á Raufarhöfn. Á liðnu ári störfuðu samtals um 120 manns hjá Jökli hf. og dótturfyrirtækjum.