Malasískur skipakóngur kaupir Danyard Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. BJÖRGUN Danyard skipasmíðastöðvarinnar í Frederikshavn og Álaborg kemur úr austri, nánar tiltekið frá Malasíu.

Malasískur skipakóngur kaupir Danyard Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.

BJÖRGUN Danyard skipasmíðastöðvarinnar í Frederikshavn og Álaborg kemur úr austri, nánar tiltekið frá Malasíu. Skipasmíðastöðin, sem er í eigu Lauritzen-samsteypunnar, stefndi í átt að gjaldþroti, þar sem stöðin hefur verið rekin með tapi undanfarið, þó eftirspurn hafi verið eftir skipum hennar. Nú hefur Dato Amin Shah skipakóngur í Malasíu boðist til að greiða 600 milljónir danskra króna fyrir 48% hlutabréfa í stöðinni. Shah fullyrðir að hann hafi áhuga á að reka stöðvarnar áfram, en sé ekki aðeins á höttunum eftir þekkingu og reynslu stöðvarinnar. Því munu 1.700 starfsmenn stöðvarinnar að öllum líkindum halda vinnunni.

Á fyrri hluta ársins var tap Danyard 460,2 milljónir danskra króna, en var á sama tíma í fyrra 72,3 milljónir. Áætlað tap í ár er 560 milljónir. Stöðin er að byggja 7 tankskip og 2 ferjur, sem mikill áhugi er á. Við smíðarnar hefur verið þróuð ný tækni og þykja báðar skipsgerðirnar merkar nýjungar á sínu sviði, en áætlanir um smíðarnar hafa ekki staðist. Skipin hafa því orðið mun dýrari en ætlað var, auk þess sem markaðsaðstæður hafa verið óhagstæðar svo og gengi Bandaríkjadals. Í lok síðasta árs voru gerðar ráðstafanir til að leysa vandann við smíðarnar, en þær hafa ekki skilað tilætluðum árangri.

Dato Amin Shah er umsvifamikill skipakóngur í Asíu, en hefur hingað til ekki starfað í Evrópu. Í viðtali við danska sjónvarpið fullyrti hann að ekki væri ætlunin að hirða tækniþekkingu úr fyrirtækinu og láta það síðan kollsigla, heldur væru kaupin liður í áætlun hans um að koma undir sig fótunum í evrópskum skipasmíðum. Bæði starfsmenn og bæjarstjórn í Álaborg og Frederikshavn vonast því til að ekki þurfi að koma til uppsagna og að salan tryggi áframhaldandi starfsemi stöðvanna.

Lauritzen samsteypan hefur þegar þurft að leggja umtalsverðar upphæðir í skipasmíðastöðina og lagði á síðasta ári 400 milljónir í hana. Eftir sölu á 48% hlutabréfa til Shah ætlar samsteypan að halda eftir fjórðungi bréfa í Danyard, en leitar danskra aðila til að kaupa 27 prósent bréfanna til að halda meirihluta í höndum Dana. Leitað hefur verið til lífeyrissjóða, en hingað til hefur áhuginn verið takmarkaður.