Frumleg íslensk rokksveit TÓNLIST Geisladiskur FÓLK ER FÍFL Fólk er fífl, breiðskífa hafnfirsku hljómsveitarinnar Botnleðju.

Frumleg íslensk rokksveit TÓNLIST Geisladiskur FÓLK ER FÍFL Fólk er fífl, breiðskífa hafnfirsku hljómsveitarinnar Botnleðju. Sveitina skipa Heiðar Örn Kristjánsson gítarleikari og söngvari, Ragnar Páll Steinsson bassaleikari og Haraldur Freyr Gíslason trommuleikari. Aðstoðarmenn eru Hrafn Thoroddsen hljómborðsleikari, Veigar Margeirsson trompetleikari og Jóel Pálsson saxófónleikari. Upptökumenn voru Ken Thomas og Páll Borg, en umsjón með upptökum hafði Rafn Jónsson. Lög og textar eftir þá félaga. R&R músík gefur út. 35,08 mín., 1.999 kr.

BOTNLEÐJA vakti svo sannarlega athygli með fyrstu breiðskífu sinni, Drullumalli, sem kom eins og stýriflaug inn í lognmollu íslenskrar rokkútgáfu, uppfull með ungæðislegan sprengikraft og kæruleysislega spilagleði. Þó á plötunni væri margt gert meira af vilja en getu kom það ekki að sök; augnablikið skipti mestu máli og þegar best lét tók Botnleðja allar enskuvælandi rokksveitir íslenskar í nefið. Á nýrri plötu sveitarinnar, sem heitir því hlýlega nafni Fólk er fífl, hefur hljómsveitin tekið gríðarlegt stökk fram á við og sent frá sér framúrskarandi vel heppnaða plötu, vandaða og fjölbreytta rokkskífu, þar sem allt helst í hendur, spilagleði, hljómur og frumleg hugsun.

Upphaf plötunnar er bráðskemmtilegt og reyndar má líta á það sem einskonar tilvísun í Drullumall, unglingasveitin hefur leikinn með bilaða magnara og lélegan mixer, en síðan koma sérfræðingarnir og valta yfir unglingana með framúrskarandi keyrslu, rétt eins og til að undirstrika Drullumallið frá því í fyrra. Reyndar háði kraftleysi sveitinni ekki þá og gerir líklega ekki í nánustu framtíð ef marka má lög eins og Botnleysu (misnefnt Botnleðja á umslagi), sem er argandi pönk, Ég vil allt og Hausverk. Í Hausverk kveður reyndar við annan tón hjá sveitinni og eflaust reka margir upp stór augu þegar þeir heyra blásarasveitarkeyrslu í millikafla lagsins. Það er þó bara forsmekkur að því sem koma skal, því víðar á plötunni hleypa þeir félagar fram af sér beislinu í tilraunamennsku, nefni Svuntuþeysi, Pöddur og Gervimanninn bílífa, allt bráðskemmtileg lög og Svuntuþeysir með betri sýrulögum sem gefin hafa verið út hér á landi.

Drullumall var góð plata frá efnilegri hljómsveit, en Fólk er fífl er sönnun þess að Botnleðja er ekki lengur efnileg, hún er einfaldlega fremsta rokksveit landsins nú um stundir, frumleg íslensk rokksveit, og veruleg tilhlökkun eftir næstu breiðskífu.

Árni Matthíasson

Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir

BOTNLEÐJA á sviðinu í Íslensku óperunni.