Alþjóðlegu kvenréttindasamtökin IAW Mikil áhersla lögð á að útrýma ólæsinu nga Jóna Þórðardóttir sat 30. þing alþjóðlegu kvenréttindasamtakanna International Alliance of Women (IAW)í Kalkútta á Indlandi dagana 1.­8. desember.

Alþjóðlegu kvenréttindasamtökin IAW Mikil áhersla lögð á að útrýma ólæsinu nga Jóna Þórðardóttir sat 30. þing alþjóðlegu kvenréttindasamtakanna International Alliance of Women (IAW)í Kalkútta á Indlandi dagana 1.­8. desember. Kvenréttindafélag Íslands hefur verið aðili að samtökunum allt frá því það var stofnað á fyrsta áratug aldarinnar. Kvenréttindafélög í öllum álfum heimsins eiga aðild að samtökunum og þau eiga fulltrúa hjá öllum helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

­ Hvað var einkum rætt á þinginu?

"Fyrst og fremst var fjallað um hver áhersluatriðin ættu að vera í störfum aðildarfélaganna á næstu fimm árum, í framhaldi af þeim árangri sem náðist á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking fyrir ári. Þar var gengið frá samþykktum fyrir ríkisstjórnir heimsins um ákveðna aðgerðaáætlun í málefnum kvenna fram á næstu öld og IAW er hluti af þeim grasrótarhreyfingum sem munu fylgjast með því hvernig ríkisstjórnirnar koma þessari áætlun í framkvæmd.

Segja má að samþykktir Sameinuðu þjóðanna séu ekkert annað en skjal nema að það takist að fá ríkisstjórnirnar til að standa við þær og grasrótarhreyfingarnar eru besta tækið til þess að veita aðhald og stuðning og fylgja samningunum eftir.

Fyrir utan þessa framkvæmdaáætlun fyrir næstu ár voru réttindi stúlkubarna meginþema sérstaks málþings, sem var hluti af þingi IAW í Kalkútta. Indversku kvenréttindasamtökin skipulögðu málþingið og þau leggja mesta áherslu á að beina sjónum að stúlkubörnum, réttindum þeirra og réttleysi.

Það sem mest brann á fólki var réttur stúlkubarnanna til menntunar. Litið er á ólæsi í veröldinni sem eina helstu hindrunina fyrir frekari framförum í málefnum barna út um allan heim.

Ennfremur var mikið rætt um mannréttindi og mannréttindafræðslu. Í lokaskjali ráðstefnunnar er fjallað um stjórnmálaleg réttindi og nauðsyn þess að fólk sé "læst" á réttindi sín. Þ.e.a.s. að fólk fái í gegnum menntakerfið og ýmislegt í þjóðfélaginu vitneskju um þau réttindi sem það á að njóta.

Síðan var mikið rætt um fátækt í ýmsum löndum, til dæmis í Austur-Evrópu. Ofbeldi hefur einnig verið viðvarandi áhyggjuefni samtakanna. Fyrir fimmtán árum hófu samtökin mjög víðtæka baráttu gegn ofbeldi á heimilunum sem þótti á þeim tíma vera innrás í einkalíf fólks þótt það hafi nú breyst.

Fulltrúar á ráðstefnunni höfðu miklar áhyggjur því hvað það viðgengst í ríkum mæli að konur og stúlkur séu seldar milli landa til að stunda vændi fyrir ákveðna aðila. Þetta er hálfgert þrælahald. Við höfum séð ákveðna anga af þessu vandamáli birtast í hörmulegum atburðum sem tengjast börnum í Evrópu.

Ennfremur var fjallað um heilbrigðismálin, m.a. grundvallarréttindi eins og rétt stúlkna til næringar. Slík umræða er okkur mjög framandi en ekki í þriðja heiminum, því miður. Þetta lýsir sér í því að stúlkubörn mæta afgangi þegar fjölskyldan nærist, bræðurnir fá mest og stúlkurnar afganginn. Þetta hefur jafnvel verið flokkað undir siðvenjur, stúlkurnar hafa ekki sama rétt til matar og bræðurnir. Þetta hefur birst í ýmsum átakanlegum myndum í mörgum löndum veraldar.

Þetta eru frumatriði sem eru alltaf til umræðu og valda áhyggjum. Síðan var mikið talað um sjálfsákvörðunarrétt kvenna til barneigna, sem er stórmál í mörgum löndum. Innan þessara samtaka eru þessi grundvallarréttindi eitt af helstu málunum."

­ Var rætt um þátt kvenna í matvælaframleiðslunni og hlutdeild þeirra í þróunaraðstoð við ríki í þriðja heiminum?

"Það var mikil áhersla lögð á það mál. Í þriðja heiminum gegna konur mjög veigamiklu hlutverki í öllu samfélaginu, þær ala börnin og kenna þeim, annast heilbrigðismálin og margt fleira, þannig að lykillinn að úrbótum er að kenna þeim réttar aðferðir. Það er hins vegar mjög erfitt að koma því áleiðis meðan ólæsið er jafn mikið meðal kvenna og raun ber vitni. Menn líta svo á að lykilatriði fyrir frekari framþróun sé að byrja á því að kenna konunum að lesa, því upplýsingarnar grundvallast að miklu leyti á því að fólk sé læst. Möguleikar kvenna til sjálfstæðra aðgerða eru auðvitað mjög takmarkaðir þegar menntunarskorturinn er algjör. Þannig að í starfi samtakanna er lögð rík áhersla á að þróunarhjálpinni verði beint til kvenna."

Inga Jóna Þórðardóttir hefur átt sæti í alþjóðlegu kvenréttindasamtökunum IAW frá árinu 1992 og var formaður Kvenréttindafélags Íslands á árunum 1992­95. Hún átti ennfremur sæti í sendinefnd Íslands á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna í Peking fyrir ári. Inga Jóna fæddist á Akranesi 24.9. 1951, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1971 og námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands 1977. Hún starfaði sem innkaupastjóri hjá Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts hf. 1976­78 og kennari við Fjölbrautaskólann á Akranesi 1978­81. Hún var framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins 1981­84, aðstoðarmaður menntamálaráðherra 1984­85 og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1985­87. Hún var í útvarpsráði 1983­91, formaður þess 1985­91, og er nú borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Fjallað um réttindi stúlkna og réttleysi

Inga Jóna Þórðardóttir