Arðgreiðsla Rafmagnsveitunnar í borgarsjóð hækkar SAMKVÆMT fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 1997, er gert ráð fyrir að rekstrartekjur Rafmagnsveitu Reykjavíkur verði 3.986 milljónir og rekstrargjöd verði 3.763 milljónir.

Arðgreiðsla Rafmagnsveitunnar í borgarsjóð hækkar

SAMKVÆMT fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 1997, er gert ráð fyrir að rekstrartekjur Rafmagnsveitu Reykjavíkur verði 3.986 milljónir og rekstrargjöd verði 3.763 milljónir. Gert er ráð fyrir að arðgreiðsla til borgarsjóðs verði 512 milljónir en árið 1996 var greiðslan 483 milljónir.

Í ræðu borgarstjóra við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 1997, kom fram að áformað er að leggja 132 kV línu frá Nesjavöllum í Grafningi að Aðveitustöð 8 við Korpu. Verður þessari framkvæmd lokið á árinu 1998 og er áætlaður heildarkostnaður 483 millj.

Áætlanir Rafmagnsveitunnar miða við óbreytta verðskrá fyrir orkusölu frá 1. apríl 1996 en þá hækkaði hún um 3% í kjölfar hækkunar hjá Landsvirkjun. Sagði borgarstjóri að þó væri gert ráð fyrir lækkun fastagjalda á árinu með tilkomu nýrra greiðsluseðla í bankakerfinu. Væntanlega kæmi til endurskoðunar á orkuverði á næstu árum, einkum vegna breytinga á heildsöluverði, sem mun hafa áhrif á orkuverð til notenda Rafmagnsveitunnar, að sögn borgarstjóra. Er þar átt við verð frá Landsvirkjun og væntanlegri raforkuvirkjun á Nesjavöllum.