Breska stjórnin ætlar að sitja meðan sætt er Treystir á sambandssinna á N-Írlandi London. Reuter. BRESKA stjórnin ætlar að sitja svo lengi sem hún fær til þess styrk á þingi.

Breska stjórnin ætlar að sitja meðan sætt er Treystir á sambandssinna á N-Írlandi London. Reuter.

BRESKA stjórnin ætlar að sitja svo lengi sem hún fær til þess styrk á þingi. Brian Mawhinney, formaður Íhaldsflokksins, lýsti því yfir í gær en eftir sigur Verkamannaflokksins í aukakosningum í einu kjördæmi hafa stjórnin og stjórnarandstaðan jafn marga þingmenn að baki. John Major forsætisráðherra sagði í Dyflinni í gær, að þessi staða breytti í sjálfri sér engu.

"Svo lengi sem við höfum meirihluta á þinginu munum við halda áfram um stjórnvölinn," sagði Mawhinney en stjórnin treystir á stuðning níu þingmanna sambandssinna á Norður-Írlandi.

Aðeins 33% kjörsókn

Búist hafði verið við, að Jeff Ennis, frambjóðandi Verkamannaflokksins, ynni sigur í aukakosningunum í Barnsley East í Norðaustur-Englandi og fékk hann 14.683 atkvæði og 12.181 umfram frambjóðanda frjálslyndra demókrata, sem varð í öðru sæti með aðeins 1.502. Frambjóðandi Íhaldsflokksins fékk 1.299 atkvæði. 53.000 manns voru á kjörskrá og kjörsóknin því aðeins 33%

Donald Dewar, framkvæmdastjóri þingflokks Verkamannaflokksins, sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, í gær, að stjórn John Majors forsætisráðherra myndi reynast þinghaldið erfitt á næstunni. Mun reyna á það strax á mánudag þegar greidd verða atkvæði um fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, ESB, en stjórnin tapaði slíkri atkvæðagreiðslu í fyrra með tveimur atkvæðum.

Aukakosningar standa líka fyrir dyrum í Wirral South í Norðvestur-Englandi en Barry Porter, þingmaður Íhaldsflokksins fyrir kjördæmið, lést nýlega. Í kosningunum 1992 vann hann það með 8.182 atkvæða meirihluta og því yrði það mikið áfall fyrir flokkinn ef það tapaðist nú. Myndi ekki aðeins þingmönnum Íhaldsflokksins þá fækka um einn, heldur myndi flokkurinn tapa meirihluta í ýmsum þingnefndum.

Scargill hunsaður

Kosningarnar í Barnsley voru líka mikill ósigur fyrir Sósíalíska verkamannaflokkinn, sem námamannaleiðtoginn Arthur Scargill stofnaði til að mótmæla fráhvarfi Tony Blairs, leiðtoga Verkamannaflokksins, frá gömlum vinstrigildum. Fékk flokkurinn aðeins 949 atkvæði.

Reuter

JEFF Ennis fagnar sigrinum í Barnsley East ásamt konu sinni, Margaret. Sigraði Verkamannaflokkurinn með yfirburðum en kjörsóknin var ekki nema 33%.