Leynilögreglan sögð njósna um þingnefnd Hlutverk nefndarinnar var að rannsaka leyniþjónustuna Osló. Morgunblaðið. NÝTT hneykslismál er komið upp í Noregi.

Leynilögreglan sögð njósna um þingnefnd Hlutverk nefndarinnar var að rannsaka leyniþjónustuna Osló. Morgunblaðið.

NÝTT hneykslismál er komið upp í Noregi. Svo virðist sem norska leynilögreglan hafi rannsakað sérstaklega feril Berges Furres, stjórnmálamanns úr Sósíalíska vinstriflokknum (SV), þegar hann sat í nefnd, sem hafði með höndum rannsókn á störfum leyniþjónustu norska hersins.

Í frétt norska ríkisútvarpsins,NRK, kemur fram að leynilögreglan hafi farið fram á að fá upplýsingar um Furre úr skjalasafni austur-þýsku öryggislögreglunnar Stasi. Töldu forráðamenn leynilögreglunnar að þar væri að finna gögn, sem hægt væri að nota gegn Furre, en tilgangurinn er sagður hafa verið að "sverta" og "gera út af við" hina svokölluðu Lund-nefnd, sem þingið skipaði einróma.

Leyniþjónustur Noregs eru tvær. Önnur er á vegum hersins og á að fara með mál, sem varða öryggi ríkisins. Hin er á vegum lögreglunnar og er henni ætlað að fylgjast með almennum borgurum þyki ástæða til. Eftirlitsnefnd þingsins, sem á að fylgjast með leynilögreglunni og leyniþjónustunni, hefur nú afhent leynilögreglunni og ríkissaksóknara skýrslu þar sem starfsemi leynilögreglunnar er gagnrýnd. Skýrsla þessi er ríkisleyndarmál og því fæst enginn til að staðfesta innihald hennar.

Leituðu til Þjóðverja

Að sögn NRK leitaði leynilögreglan í fyrra til Þjóðverja vegna starfa Lund-nefndarinnar. Lund-nefndin hafði verið í Þýskalandi til að fá úr því skorið hvort í skjölum Stasi væri að finna upplýsingar um það hvort Norðmenn hefðu átt samstarf við leyniþjónustur erlendis. Þegar heimsókn nefndarinnar var lokið fór norska leynilögreglan þess á leit að sú þýska segði að hverju nefndin hefði komist. Samkvæmt NRK bárust þau svör frá Þjóðverjunum að þeir stunduðu ekki slík vinnubrögð.

Í frétt Aftenposten sagði að fullyrðingar um að leynilögreglan hefði njósnað um þingnefndina hefðu haft "lamandi" áhrif á norskt stjórnmálalíf.