Ýtt undir landnám á Vesturbakkanum Leiðtogar öfgasamtaka boða hertar árásir á Ísraela Jerusalem, Damaskus. Reuter. ÍSRAELSKA ríkisstjórnin ákvað í gær að veita ísraelskum landnemum fjárhagsaðstoð, til að ýta undir landnám á Vesturbakkanum.

Ýtt undir landnám á Vesturbakkanum Leiðtogar öfgasamtaka boða hertar árásir á Ísraela Jerusalem, Damaskus. Reuter.

ÍSRAELSKA ríkisstjórnin ákvað í gær að veita ísraelskum landnemum fjárhagsaðstoð, til að ýta undir landnám á Vesturbakkanum. Ákvörðunin er tekin tveimur dögum eftir að palestínskir hermdarverkamenn skutu til bana ísraelska konu og son hennar. Leiðtogar Þjóðfrelsisfylkingar Palestínu, sem lýstu ábyrgð morðanna á hendur sér, og Hamas-samtökin, boðuðu í gær frekari árásir á gyðinga. Réðust palestínskar öryggissveitir gegn félögum í Þjóðfrelsisfylkingunni, handtöku fjölda manns og bönnuðu fyrirhugaða göngu samtakanna í gær.

Moshe Katzav, ferðamálaráðherra Ísraels, sagði í gær að taka ætti að nýju upp skattahlunnindi sem síðasta stjórn Verkamannaflokksins hætti við, auk húsnæðisstyrkja og óvenju hagstæðra lánskjara. Hins vegar væri ekki ekki ljóst hvernig ætti að útvega fé til aðstoðarinnar við landnemanna á sama tíma og ríkisstjórnin hygðist draga úr útgjöldum um sem svarar til 130 milljarða ísl. kr.

Yasser Arafat, leiðtogi sjálfsstjórnar Palestínumanna, lýsti því yfir daginn áður en ákvörðun ríkisstjórnarinnar var tekin, að jafnvel eitt hús landnema til viðbótar því sem nú væri, hlyti að teljast brot á friðarsamningi Palestínumanna og Ísraela.

Hóta auknum árásum

Leiðtogi Þjóðfrelsisfylkingar Palestínu, George Habash, hvatti í gær Palestínumenn til að berjast af auknum krafti gegn Ísraelsríki. Sagði hann að ný pólitísk fylking yrði stofnuð á næstunni á Vesturbakkanum og Gaza, sem hefði það að markmiði að gera að engu friðarsamningana við Ísraela.

Þá lýstu leiðtogar Hamas yfir því að samtökin myndu minnast árs ártíðar aðalsprengjusmiðs þeirra með öldu árása á Ísraela. Yahya Ayyash var drepinn 5. janúar á þessu ári á Gazasvæðinu þegar farsími hans, sem sprengju hafði verið komið fyrir í, sprakk. Er talið að ísraelska leyniþjónustan hafi staðið að baki morðinu.