Leiðari SÝNUM FORDÆMI Í ÚTHAFSVEIÐUM INGMENN jafnaðarmanna og Kvennalista hafa lagzt gegn samþykkt frumvarps Þorsteins Pálssonar sjávarútvegsráðherra um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Rök þingmannanna eru m.a. þau að úthafsveiðisamningur Sameinuðu...

Leiðari SÝNUM FORDÆMI Í ÚTHAFSVEIÐUM

INGMENN jafnaðarmanna og Kvennalista hafa lagzt gegn samþykkt frumvarps Þorsteins Pálssonar sjávarútvegsráðherra um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Rök þingmannanna eru m.a. þau að úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna hafi enn ekki öðlazt gildi og að þess vegna liggi ekkert á að setja lög um veiðar íslenzkra skipa á úthafinu.

Þingmennirnir telja að verið sé að "leggja hömlur á úthafsveiðiflota Íslendinga langt umfram það sem úthafsveiðiflotar annarra ríkja munu þurfa að búa við" og þannig sé komið í veg fyrir "að Íslendingar geti aflað sér veiðireynslu og áhrifa til fiskveiðistjórnunar á úthafinu." Engin þörf sé á að "takmarka þannig afkomumöguleika þjóðarinnar í samtíð og til framtíðar," eins og segir í nefndaráliti jafnaðarmanna, sem Kvennalistinn styður.

Þingmennirnir taka hér skakkan pól í hæðina. Það er orðið tímabært að átta sig á að tími óheftra úthafsveiða er að baki. Um allan heim hafa menn orðið sér meðvitaðir um að óheft sókn í fiskstofnana, jafnt innan sem utan lögsögu, getur ekki leitt til annars en hruns í fiskveiðum, með skelfilegum afleiðingum fyrir forðabúr heimsbyggðarinnar að ekki sé talað um ríki, sem háð eru fiskveiðum í jafnríkum mæli og Ísland.

Úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna var gerður til að taka á þeim vanda, sem við blasir. Með honum tekst vonandi að koma skynsamlegri stjórn á fiskveiðar á úthafinu, þannig að byggja megi fiskstofnana upp til framtíðar. Á slíkri uppbyggingu byggjast m.a. afkomumöguleikar Íslendinga í framtíðinni. Stjórnvöld fiskveiðiríkja verða að styðjast við skýrar lagaheimildir, eigi þau að geta uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningum.

Það er engin ástæða fyrir Íslendinga að bíða eftir öðrum ríkjum og vona að þau leggi sem minnstar hömlur á veiðar eigin skipa á úthafinu. Íslendingar eiga þvert á móti að ganga á undan með góðu fordæmi og setja ýtarlegar reglur, sem gera íslenzkum stjórnvöldum kleift að hafa skynsamlega stjórn á úthafsveiðum íslenzkra skipa. Að sjálfsögðu hljóta menn um leið að gera þá kröfu til sjávarútvegsráðherra að hann beiti valdi sínu samkvæmt lögunum skynsamlega og í þágu fiskistofnanna.

Kvennalisti og jafnaðarmenn hafa hins vegar einnig bent á þá hættu að á úthafinu, líkt og innan lögsögu, verði tekið upp stjórnkerfi fiskveiða, sem færi fáum aðilum mikil verðmæti endurgjaldslaust. Undir þá gagnrýni skal tekið, enda hefur Morgunblaðið lagt til að útgerðarmenn greiði sanngjarnt gjald fyrir veiðiheimildir, sem íslenzka ríkið fær úthlutað á úthafinu samkvæmt alþjóðlegum samningum.

SAGA ÍSLANDS

LENDINGAR hófu snemma byggðar í landinu að skrifa sögu sína. Íslendingabók Ara fróða, rituð um 1120 til 1130, geymir ágrip af Íslands sögu frá því um 870 fram á ritunartíma. Hún er fyrsta ritið þar sem þjóðarsagan er skipulega rakin. Íslendingasaga Sturlu Þórðarsonar og önnur rit Sturlungu rekja síðan þjóðarsöguna frá seinni hluta tólftu aldar til loka þjóðveldisins. Eftir daga Sturlu var ekki skráð neitt yfirlitsrit um sögu þjóðarinnar fyrr en Arngrímur lærði ritaði Crymogæu (Ísland), sem út kom í Hamborg árið 1609. Kirkjusaga Finns biskups Jónssonar, sem út kom í fjórum bindum á árunum 1772 til 1778, er og í raun þjóðarsaga allt fram á daga höfundar. Hálfri öld síðar hóf Hið íslenzka bókmenntafélag að gefa út Árbækur Espólíns. Þá hafa verið skrifaðir annálar. Og allnokkur merk yfirlitsrit um þjóðarsöguna hafa verið gefin út á líðandi öld.

Í ljósi framansagðs þarf engum að koma á óvart þó meðal fyrstu ákvarðana, sem teknar voru um framkvæmdir í minningu ellefu alda búsetu í landinu, hafi verið sú, að ráðast í útgáfu Íslands sögu, er næði allt frá landnámi til okkar tíma. Fyrsta bindið kom raunar út þjóðhátíðarárið 1974. Síðan hafa komið út fjögur bindi ­ og fimm munu eftir. Þetta er rifjað upp nú í tilefni þess að meirihluti fjárlaganefndar flytur við aðra umræðu fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár tillögu um sex milljóna króna framlag til Hins íslenzka bókmenntafélags, en fyrirhugað er að ljúka útgáfu á Sögu Íslands á næstu árum.

Ákvörðun Þjóðhátíðarnefndar 1974 um útgáfu Sögu Íslands var flestum landsmönnum að skapi. Fjárveitingavaldið ræður hins vegar miklu um framgang mála af þessu tagi. Tillaga fjárlaganefndar nú bendir til þess að stjórnvöld hyggist taka sér tak um stuðning við útgáfuna, sem ákvörðun var tekin um fyrir nær aldarfjórðungi. Það er fagnaðarefni. Þetta mikla verkefni þarf góðan stuðning næstu árin. Það fer og vel á því að söguþjóðin rækti sagnaarfinn, sem rekja má allar götur til Ara fróða og Sturlu Þórðarsonar.