Réttarstaða lögmanna MÁLFLUTNINGSMANNAFÉLAG Íslands var stofnað 11. desember 1911. Árið 1944 var nafni þess breytt í Lögmannafélag Íslands og varð félagið 85 ára síðastliðinn miðvikudag.

Réttarstaða lögmanna

MÁLFLUTNINGSMANNAFÉLAG Íslands var stofnað 11. desember 1911. Árið 1944 var nafni þess breytt í Lögmannafélag Íslands og varð félagið 85 ára síðastliðinn miðvikudag. Í tilefni afmælisins var efnt til ritgerðarsamkeppni sem er öllum opin til þátttöku. Ritgerðarefnin eru: Trúnaðarskyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum; Lögmaður skal vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar og Hlutverk og staða lögmanna í þjóðfélaginu nú á dögum. Skilafrestur er til 1. mars 1997.

Í afmælishófinu voru félaginu færðar nokkrar gjafir. Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra færði félaginu innrammaðan teppisbút sem skorinn var úr gólfteppi framan við ræðupúlt lögmanna í gamla dómhúsi Hæstaréttar Íslands. Á teppisbútnum má glöggt greina fótspor nokkurra kynslóða lögmanna sem staðið hafa þar við málflutning fyrir réttinum. Hefur verkið hlotið heitið "Réttarstaða lögmanna". Hæstiréttur Íslands gaf félaginu ræðupúltið úr gamla dómhúsinu og verður því komið fyrir í húsakynnum félagsins.

Í afmælishófinu voru tveir félagsmenn, Guðmundur Pétursson hrl. og Sveinn Snorrason hrl., útnefndir heiðursfélagar LMFÍ. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Eggert Claessen, formaður, Sveinn Björnsson, ritari, og Oddur Gíslason gjaldkeri. Félagsmenn eru nú 460, þar af eru sjálfstætt starfandi lögmenn um 330. Núverandi formaður félagsins er Þórunn Guðmundsdóttir hrl. en aðrir í stjórn eru Sigurmar K. Albertsson hrl., Jakob Möller hrl., Kristín Briem hrl. og Hreinn Loftsson hrl.

"RÉTTARSTAÐA lög manna".