KÖRFUKNATTLEIKUR / NBA-DEILDIN Ekkert slær Houston Rockets út af laginu eikmenn Houston Rockets halda sigurgöngu sinni áfram í körfuknattleiknum vestanhafs og í fyrrakvöld unnu þeir í níunda heimaleiknum í röð er lið Denver kom í heimsókn, lokatölur...

KÖRFUKNATTLEIKUR / NBA-DEILDIN Ekkert slær Houston Rockets út af laginu eikmenn Houston Rockets halda sigurgöngu sinni áfram í körfuknattleiknum vestanhafs og í fyrrakvöld unnu þeir í níunda heimaleiknum í röð er lið Denver kom í heimsókn, lokatölur 115:96. Charles Barkely gaf félögum sínum tóninn á fyrstu sex mínútunum með því að gera 11 af 26 stigum sínum í leiknum á þeim kafla. Annars var Clyde Drexler stigahæstur í sigurliðinu með 27 og Hakeem Olajuwon kom þar rétt á eftir með 21 stig. Barkley tók átta fráköst og Drexler átti átta stoðsendingar. Houston hefur nú sigrað í 19 leikjum af 21 það sem af er leiktíðinni og stendur best að vígi allra liða í NBA.

Það urðu svo sannarlega óvænt úrslit í Utah er Phoenix sótti þangað sigur, 95:87 og batt þar með enda á sigurgöngu heimamanna sem höfðu lagt 15 lið að velli í röð. Að sama skapi virðist lukkan vera að snúast á sveif með Phoenix sem hefur sigraði í fimm leikjum í röð eftir afleita byrjun. Kevin Johnson gerði flest stig Phoenix, 17 talsins, og Rex Chapman kom næstur með 16.

Það ætlar að ganga illa hjá San Antonio Spurs að komast á sigurbrautina þrátt fyrir að vera komið með nýjan þjálfara. Að þessu sinni varð liðið að bíta í það súra epli að lúta í lægra haldi fyrir Los Angeles Clippers, 97:94. Loy Vaught innsiglaði sigurinn fyrir Clippers með körfu þegar 27 sekúndur voru eftir. Hann gerði alls 16 stig í leiknum, jafnmörg og Rodney Rogers. Malik Sealy var með 14 stig, en þetta var aðeins annar sigurleikur Clippers í síðustu 12 viðureignum.

Glenn Robinson hefur verið meiddur um tíma en kom sterkur til leiks og gerði 32 stig, tók 9 fráköst og var með 7 stoðsendingar er Milwaukee Bucks lagði Seattle 100:97. Ray Allen gerði 17 stig og Vin Baker var með 16. Gary Payton var fremstur í flokki Seattle með 31 stig.

Patrick Ewing fór mikinn er New York sigraði Golden State 90:79 í Madison garðinum. Hann skoraði 13 stig, tók 20 fráköst auk þess að verja fjögur skot. Allan Houston var stigahæstur heimamanna með 18, Larry Johnson var með 14 stig og John Starks gerði 13. Leikmenn New York voru grimmir í leiknum og tóku alls 61 frákast, þar af 23 í sókninni. Latrell Sprewell var stigahæstur hjá gestunum með 17.

Vancouver Grizzlies tapaði áttundu viðureign sinni í síðustu níu leikjum er liðið heimsótti Potland, lokatölur 99:78. Kenny Anderson skoraði 22 stig fyrir Portland og Clifford Robinson var með 17. Þá tók Rasheed Wallace 13 fráköst auk þess að gera 14 stig.

Mitch Richmond og Mahmoud Abdul-Rauf sýndu sínar bestu hliðar er Sacramento bar sigurorð af Dallas. Richmond gerði 24 stig og Abdul-Rauf var með 22. Olden Polynice fann sig einnig prýðisvel og gerði 12 stig auk þess að taka 11 fráköst. Hjá Dallas kvað mest að Chris Gatling, hann skoraði 21 stig.