JÓN GUNNAR ÓFEIGSSON Jón Gunnar Ófeigsson fæddist í Hafnarnesi í Hornafirði 11. nóvember 1918. Hann lést á Skjólgarði á Höfn 5. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Steinunn Guðbjörg Sigurðardóttir frá Stapa í Nesjum, f. 31. júlí 1889, og Ófeigur Jónsson bóndi í Hafnarnesi, f. 14. júlí 1883. Jón var eina barn þeirra hjóna.

Hinn 24. júní 1947 kvæntist Jón Friðrikku Margréti Aðalsteinsdóttur, f. 28. júlí 1917, og lifir hún mann sinn. Þau hófu búskap í Hafnarnesi árið 1942 og bjuggu þar fram til ársins 1995 en þá fluttist Jón á Skjólgarð á Höfn. Jón og Friðrikka Margrét eignuðust eina dóttur, Eddu, f. 6. október 1940. Edda giftist Jóhannesi Arnljóts Sigurðssyni, f. 10. desember 1931, d. 17. desember 1971. Bjuggu þau í Hafnarnesi uns Jóhannes lést, langt um aldur fram. Barnabörn Jóns og Friðrikku Margrétar eru fimm en barnabarnabörnin 14. Jón stundaði nám við Bændaskólann á Hvanneyri í tvo vetur, 1937-38 og 1938-39. Búskapur varð aðalævistarf Jóns. Um tíma var hann umboðsmaður Álafoss og sá um ullarkaup fyrir fyrirtækið í Austur-Skaftafellssýslu.

Útför Jóns fer fram frá Hafnarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Jarðsett verður í Hafnarkirkjugarði.