SNORRI GUNNLAUGSSON Snorri Gunnlaugsson, verslunarmaður, var fæddur á Brekkuvelli á Barðaströnd 23. september 1922. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Patreksfirði 3. desember síðastliðinn. Foreldrar Snorra voru Gunnlaugur Kristófersson, bóndi á Brekkuvelli, síðar verkamaður á Patreksfirði, f. 25.5. 1896, d. 3.6. 1979, og k.h. Þuríður Sigríður Ólafsdóttir, f. 24.9. 1896, d. 2.12. 1987. Systur Snorra eru Margrét, húsfreyja á Patreksfirði, f. 1.6. 1926, Jóhanna, húsfreyja í Hafnarfirði, f. 10.8. 1929, Kristín, húsfreyja í Reykjavík, f. 23.10. 1933. Hálfsystir hans er Anna Gunnlaugsdóttir, saumakona í Reykjavík, f. 9.11. 1918.

Snorri kvæntist 6.3. 1960 Láru Halldórsdóttur Kolbeins, kennara og bankaritara, f. 31.1. 1938. Börn þeirra eru: 1) Lára Ágústa, fulltrúi í Reykjavík, f. 9.9. 1960. Maki hennar er Hjörtur Sævar Steinason, bifreiðasmiður, f. 21.5. 1961. Þau eiga 2 börn: Þorstein Sævar, f. 20.8. 1983 og Láru Ágústu, f. 20.1. 1988. 2) Helga, ferðaráðgjafi í Reykjavík, f. 26.6. 1964. Maki Ásbjörn Helgi Árnason, skipatæknifræðingur, f. 24.8. 1965. Þau eiga 3 börn: Hafdísi Ernu, f. 21.6. 1986, Snorra, f. 22.8. 1988, og Árna, f. 4.1. 1993. 3) Halldór Kristján Kolbeins, húsasmiður á Patreksfirði, f. 27.11. 1965. Maki hans er Joanne Christine Malone, frá Írlandi, f. 21.12. 1969. Börn þeirra eru þrjú: Eyjólfur Kristopher Kolbeins, f. 29.7. 1992, Robin Þór Kolbeins, f. 16.11. 1993, og Tara Rós Kolbeins, f. 25.3. 1996.

Snorri tók minna mótorvélstjórapróf 1944 og var við vélgæslu á bátum til 1948, að hann tók við vélgæslu í frystihúsinu Kaldbak á Patreksfirði. Því starfi gegndi hann til 1957 og síðan aftur 1961 til 1963. Árin 1958 til 1960 var Snorri við lagerstörf hjá Vélsmiðjunni Loga á Patreksfirði, en hann var einn af stofnendum þess fyrirtækis. Árin 1963 til 1967 var hann við vélgæslu í Hraðfrystihúsi Patreksfjarðar, en gerðist þá verslunarmaður hjá Kaupfélagi Patreksfjarðar og var það til 1988 að Kaupfélagið hætti störfum. Seinustu árin var hann þar gjaldkeri. Eftir að Kaupfélagið hætti störfum var Snorri m.a. við skrifstofustörf hjá Sláturfélagi Vestur-Barðstrendinga og hjá Vöruafgreiðslunni h.f. á Patreksfirði, auk þess var hann umboðsmaður fyrir Morgunblaðið og DV.

Snorri verður jarðsunginn frá Patreksfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.