Snorri Gunnlaugsson Mig langar að minnast hans tengdaföður míns með nokkrum orðum, sem nú hefur lagt upp í förina yfir móðuna miklu. Hann var búinn að vera veikur í um hálft ár þegar ekkert fékkst ráðið við þann hræðilega sjúkdóm sem hann bar og er nú látinn eftir stutta en þunga sjúkdómslegu.

Þann tíma sem hann barðist við veikindi sín var hann alltaf jákvæður og bjartsýnn en fannst kannski einum of mikið látið með sig af fjölskyldunni, því hann var jú vanur að láta með aðra og fannst ætíð sælla að gefa en þiggja.

Það fór ekki mikið fyrir honum tengdapabba en hann var samviskusamur, hugulsamur en umfram allt traustur og sannur fjölskylduvinur sem naut þess að vera með fjölskyldunni. Í gegnum árin hefur hann hlúð vel og dyggilega að fjölskyldunni með sinni einstöku fjölskyldurækni sem barnabörnin kunnu vel að meta og munu ætíð muna.

Það leyndi sér ekki hvar tengdapabba leið best en það var í ruggustólnum heima á Patró með lokuð augun að horfa á sjónvarpsfréttirnar og ekki skemmdi það ef barnabörnin voru á vappi í kring eða að veltast yfir hann með tilheyrandi bægslagangi.

Það eru ófáar stundirnar sem við tengdapabbi spjölluðum saman um fiskveiðar fyrr á árum og þær framfarir sem orðið hafa á því sviði. Hann hætti sjósókn ungur að árum en fylgdist samt grannt með framförum á því sviði og hafði gaman af að spjalla um þessa mikilvægu atvinnugrein. Ég mun ætíð minnast þeirra stunda sem við aðhöfðumst eitthvað saman því tengdapabbi naut þess að vera að sýsla eitthvað, hvort sem það var að fást við frímerkjasafnið sitt eða draga net í kyrrlátum Patreksfirðinum eða jafnvel ferðast í óbyggðum Íslands við rætur jökla, þá naut hann hverrar stundar af mikilli innlifun og skein gleði úr augum hans á þessum stundum.

Ég er þakklátur fyrir kynni mín af tengdapabba og fyrir þá fjölskyldu sem hann hefur fært mér og ég mun ætíð bera minningu hans í brjósti mér.

Ég kveð þig, tengdapabbi, með söknuði og þakka þér allar samverustundirnar og umhyggjusemina sem þú hefur sýnt mér og fjölskyldu minni.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Kæra tengdamóðir og aðrir ættingjar, megi góður Guð styrkja ykkur, varðveita og blessa í þessari sorg.

Þinn tengdasonur,

Ásbjörn Helgi.