LEIKFÉLAG Menntaskólans við Hamrahlíð frumsýnir Poppleikinn Óla 2. næstkomandi laugardag 18. janúar kl. 20.30. í Tjarnarbíói. Poppleikurinn Óli var upphaflega saminn og frumfluttur árið 1970 af Litla Leikfélaginu og tónlistin sem samin var af Óðmönnum

Leikfélag MH sýnir Poppleikinn Óla

LEIKFÉLAG Menntaskólans við Hamrahlíð frumsýnir Poppleikinn Óla 2. næstkomandi laugardag 18. janúar kl. 20.30. í Tjarnarbíói.

Poppleikurinn Óli var upphaflega saminn og frumfluttur árið 1970 af Litla Leikfélaginu og tónlistin sem samin var af Óðmönnum var valin plata ársins 1970.

Nú hafa meðlimir Leikfélags MH tekið gamla Poppleikinn til endurskoðunar og með hjálp leikara, leikstjóra og sérstakrar ritnefndar hefur hópurinn unnið í spunavinnu senur upp úr gamla leiknum, skapað nýjar og haldið gömlum eftir og þar með mótað poppleikinn Óla 2.

Í kynningu segir: "Þar er tekist á við efni eins og viðtekin gildi í samfélaginu, eiturlyfjavandann, neytendasamfélagsáreiti, auglýsingafargan o.s. frv. Leikfélag MH hefur ennfremur stofnað hljómsveit í "Óðmannastíl" sem sér um tónlistarflutning í verkinu og mun hún flytja bæði lög úr gamla Poppleiknum og frumsamin lög undir stjórn Jóns Ólafssonar.

Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir.

FRÁ æfingu á Poppleiknum Óla.