LeiðariKJARASAMNINGAR OG MÁLAFERLI ÞEIM kjaraviðræðum, sem nú standa yfir hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um, hvernig túlka beri kröfugerð sumra verkalýðsfélaga t.d. þeirra, sem eru innan Verkamannasambandsins.

LeiðariKJARASAMNINGAR OG MÁLAFERLI

ÞEIM kjaraviðræðum, sem nú standa yfir hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um, hvernig túlka beri kröfugerð sumra verkalýðsfélaga t.d. þeirra, sem eru innan Verkamannasambandsins. Sumir segja, að þessi félög krefjist 40% kauphækkunar yfir línuna, aðrir að slíkt sé mistúlkun á kröfugerðinni. Um sé að ræða kröfu um aðlögun kauptaxta að raunverulegum launum og ekki sé farið fram á launakostnaðarhækkun fyrirtækja, sem nálgist þessar tölur.

Ef miðað er við ummæli, sem Morgunblaðið hafði í gær eftir Halldóri Björnssyni, formanni Dagsbrúnar, er erfitt að festa hendur á því, sem um er að ræða. Í frásögn af samtali við formann Dagsbrúnar segir m.a.: "Aðspurður hvað felist í kröfum Dagsbrúnar um aðlögun taxta að greiddum launum, sagði Halldór Björnsson, formaður Dagsbrúnar að þar væru menn að tala um að skoða þá leið, að taka ýmsar sporslur inn í kaupið. "Það getur allt komið til greina í því sambandi nema vaktaálag eða vaktaskiptagjöld. Það er vonlaust að það gæti gengið," sagði hann. "Við höfum sagt sem svo, að við erum tilbúnir til að skoða þetta en það þýðir að við þurfum að eiga samstarf við okkar félagsmenn til þess að fá þá til að sætta sig við að hluti af þeirra launahækkun komi fram á þennan hátt." . . . Aðspurður hvað hann telji, að kröfur Dagsbrúnar hafi í för með sér mikla aukningu á launakostnaði fyrir fyrirtæki, sagði Halldór Björnsson ljóst að ef verið væri að ræða um beinar kauphækkanir væri talan um 40%. "Ef allt annað er þá óbreytt og engu má breyta í þjóðfélaginu, þá erum við í erfiðum málum, ég viðurkenni það." Halldór sagði að við samninga, sem gerðir voru við jarðgangnagerð nýlega hafi verið farin sú leið að bæta við taxta ýmsum sporslum. Bilið á almennum töxtum og töxtum við vinnu í jarðgöngum væri nú u.þ.b. 44% en kauphækkun sú, sem verkamenn hefðu fengið vegna samningsins hefði verið 4-6%."

Eins og af þessu má sjá er erfitt að festa hendur á því, skv. ummælum formanns Dagsbrúnar sjálfs, hvað um er að ræða. Til þess að hægt sé að krefjast þess af vinnuveitendum að þeir ræði þetta tiltekna mál af alvöru, þ.e. aðlögun kauptaxta að raunverulegum launum verður að liggja ljóst fyrir um hvað verkalýðshreyfingin er að tala. Hvaða þætti í núverandi launum er hún tilbúin til að fella inn í kauptaxta og hverja ekki? Á meðan þetta liggur ekki skýrt fyrir er varla við því að búast að raunhæfar samningaviðræður geti farið fram um þennan þátt málsins. En hér kemur fleira til sögunnar.

Í Morgunblaðinu í fyrradag var frá því skýrt, að Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður, hefði höfðað mál fyrir héraðsdómi fyrir hönd félagsmanns í verkalýðsfélaginu Sleipni til þess að koma í veg fyrir að svonefnd ráðningarsamningsbundin kjör væru skert með kjarasamningum. Í þessu virðist felast krafa um það, að hvort sem er formlegur eða óformlegur samningur sem starfsmaður fyrirtækis gerir við vinnuveitanda sinn verði ekki skertur með kjarasamningi, sem verkalýðsfélag viðkomandi starfsmanns geri. Ef dómur félli á þennan veg þýddi það, að verkalýðsfélag gæti ekki gert samning um að fella yfirborganir og ýmsar aukagreiðslur til starfsmanna inn í taxtakaup.

Nú getur auðvitað enginn bannað einstaklingi að höfða slíkt mál fyrir dómstól en jafnframt verður ekki séð, hvernig vinnuveitendur geta gert samninga við viðsemjendur sína um aðlögun kauptaxta að raunverulegum launum á meðan slíkt mál er fyrir dómstól. Þeir geta átt það yfir höfði sér að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu, að verkalýðsfélag geti ekki gert slíkan samning fyrir hönd félagsmanna sinna.

Það verður því ekki annað séð en krafan um aðlögun kauptaxta að raunverulegum launum sé í sjálfheldu af tveimur ástæðum; annars vegar vegna þess að ekki komi nægilega skýrt fram hvað í kröfunni felst skv. ummælum formanns Dagsbrúnar en hins vegar vegna umrædds dómsmáls. Í báðum tilvikum virðist frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar þurfa að koma til og engan veginn ljóst, að hún geti haft nokkur áhrif á hvort dómsmálinu verður haldið til streitu.