Forsætisráðherra segir skynsamlega samninga leiða til skatta- og vaxtalækkunar Hægt að auka kaupmátt um 8­10% á þremur árum "EF við höldum sæmilega á spilunum gætum við séð fyrir okkur átta til tíu prósenta kaupmáttaraukningu á næstu þremur árum og...

Forsætisráðherra segir skynsamlega samninga leiða til skatta- og vaxtalækkunar Hægt að auka kaupmátt um 8­10% á þremur árum "EF við höldum sæmilega á spilunum gætum við séð fyrir okkur átta til tíu prósenta kaupmáttaraukningu á næstu þremur árum og jafnvel meiri, ef skynsamlega er haldið á málum. Það myndi þýða að við værum að auka kaupmáttinn á árabilinu frá 1994 til aldamóta um 20%. Ég hygg að það sé ekkert skeið í Íslandssögunni sem sýni aðra eins kaupmáttaraukningu," segir Davíð Oddsson forsætisráðherra í viðtali við Morgunblaðið um stöðuna í kjaramálum.

Davíð segir mikið í húfi að gerðir verði skynsamlegir kjarasamningar, sem tryggi aukinn kaupmátt og leiði til lækkunar á vöxtum og sköttum. Hann kveðst hins vegar hafa áhyggjur af að aðilar á vinnumarkaði séu að tala sig inn í farveg verkfallsátaka, en fólkið í landinu muni ekki kunna þeim þakkir fyrir að eyðileggja það sem áunnist hefur.

1,5% meiri hagvöxtur á hverju ári en í viðmiðunarlöndunum

Davíð bendir á að þróun efnahagsmála frá 1994 og spár fyrir næstu ár sýni að Íslendingar standi sig betur en önnur viðmiðunarlönd. Samfelldur hagvöxtur hafi verið hér á landi undanfarin þrjú ár og ef spár fyrir þetta ár gangi eftir sé meðaltal hagvaxtar á Íslandi á tímabilinu 1994 til ársloka 1997 3,9%. "Á þessu fjögurra ára tímabili er meðalhagvöxtur í Evrópusambandinu 2,4%, í Bandaríkjunum 2,5% og í OECD-ríkjunum samtals 2,4%. Á hverju ári yfir þetta fjögurra ára tímabil höfum við búið við hagvöxt sem er 1,5% hærri en í öllum þessum viðmiðunarríkjum. Þetta er því afar merkilegt tímabil," segir Davíð.

Hann segir að ef spár gangi eftir muni kaupmáttur aukast um 3,2% á yfirstandandi ári en það þýði að kaupmáttur launafólks aukist um 12,4% á fjögurra ára tímabili frá 1994. Á sama tímabili sé kaupmáttaraukning innan ríkja ESB að meðaltali 2,6% og 0,7% í Bandaríkjunum.

Meiri hætta á að boðuð verkföll skelli á vegna nýrra laga

Í viðtalinu tekur Davíð undir þá skoðun forystumanna innan ASÍ að ákvæði nýju vinnulöggjafarinnar um afboðun vinnustöðvana séu mun ósveigjanlegri en eldri lagaákvæði. Mun meiri hætta sé á því að til verkfalla komi eftir að samþykkt hafi verið að boða til vinnustöðvunar en áður var.

Forsætisráðherra segir að grundvöllur að ákvörðunum um lækkun jaðarskatta hafi verið lagður en fylgst verði með hvernig kjaraviðræður þróast áður en ákvarðanir verða teknar. Aðspurður segir hann að komið geti til álita að gera grundvallarbreytingu á skattkerfinu.

Þá segir Davíð að nú sé ákjósanlegur tími fyrir ríkisvaldið að setja eignir á markað og draga fé út af markaðinum inn til ríkissjóðs til að slá á þenslu og lækka skuldir ríkissjóðs. Ríkisstjórnin muni kynna á næstunni ákvarðanir sem opni möguleika á töluverðri sölu á eignum ríkisins.

Óttast að/10­11