ALFA ROMEO kominn eftir langa fjarveru ÍSTRAKTOR hf., umboðsaðili Fiat, heur fengið fyrsta bílinn af Alfa Romeo gerð. Sá kallast Alfa 146 og er sportlegur fimm manna fjölskyldubíll. Hann er með fjögurra strokka, sextán ventla vél sem er 150 hestöfl.

ALFA ROMEO kominn eftir langa fjarveru

ÍSTRAKTOR hf., umboðsaðili Fiat, heur fengið fyrsta bílinn af Alfa Romeo gerð. Sá kallast Alfa 146 og er sportlegur fimm manna fjölskyldubíll. Hann er með fjögurra strokka, sextán ventla vél sem er 150 hestöfl.

Þetta er fremur viðbragðsfljótur bíll eins og sést á hröðuninni úr kyrrstöðu í 100 km hraða sem tekur 8,5 sekúndur. Bíllinn er vel búinn, þ.á.m. með ABS-hemlalæsivörn, tveimur líknarbelgjum, bílbeltastrekkjurum og sérstaklega formuðum sætum. Geislaspilari og sex hátalarar fylgja bílnum. Hingað kemur hann á álfelgum og með diskahemlum á öllum hjólum, þokuljósum í stuðara, vindskeið að aftan og kostar 1.970.000 krónur þannig búinn.

Alfa 146 er með fjórum hurðum og afturhlera og er í svipaðri stærð og Toyota Carina, eða 4,26 m á lengd og 1,71 á breidd.

Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Ístraktors, segir að mikill áhugi sé á bílnum og mikið hafi verið spurt um hann. "Þetta er fjölskyldusportbíll. Ef þér leiðist aksturinn færðu þér svona bíl. Alfa hefur ekki verið fluttur inn hingað til lands síðustu ár. Síðast kom hann hingað 1987-1988 á vegum Jöfurs," sagði Páll.

Morgunblaðið/Golli

ALFA Romeo 146 er kominn til Íslands eftir langa fjarveru.

BÍLLINN er með ABS-hemlum, tveimur líknarbelgjum og fleiru.