GMC Denali ­ toppurinn í jeppum? GENARAL Motors sýndi nýjasta tromp sitt á jeppamarkaðnum nýlega, GMC Denali, sem ætlað er að veita Ford Expedition harða keppni. Denali er í raun betur búin útfærsla af Yukon.

GMC Denali ­ toppurinn í jeppum?

GENARAL Motors sýndi nýjasta tromp sitt á jeppamarkaðnum nýlega, GMC Denali, sem ætlað er að veita Ford Expedition harða keppni. Denali er í raun betur búin útfærsla af Yukon. Bíllinn fer þó ekki í framleiðslu fyrr en á næsta ári og verður aðeins framleiddur undir merki GMC.

Roy Roberts, aðalframkvæmdastjóri Pontiac-GMC, segir að fyrirtækið muni kynna enn einn nýjan bíl á bílasýningunni í Chicago í febrúar og árið 1999 komi margir bílar fram sem verði eingöngu framleiddir undir merki GMC og verði mjög ólíkir Chevrolet bílum.

Mikið verður lagt í innanrými bílsins og segir Roberts að markhópurinn verði eigendur lúxusfólksbíla. Denali verði ekki ódýr bíll sem ætlað er að etja kappi við aðra sams konar jeppa heldur sé litið til sérstaks hóps bílkaupenda og reynt að uppfylla óskir þeirra.

Sjónvarp og myndbandstæki

Deanli þýðir "hinn hái" á máli frumbyggja Ameríku sem er nafn þeirra yfir McKinley fjall í Alaska, sem er hæsta fjall í Norður-Ameríku.

Deanli verður með 5,7 lítra V-8 vél, 255 hestafla. Meðal búnaðar í bílnum má nefna upphitanleg leðursæti með sex stillingum, skreytilistar úr ekta viði, tveir farsímar, sjónvarpstæki og myndbandstæki fyrir aftursætisfarþega og geislaspilari með sex diska hólfi.

GMS Denali fer í framleiðslu á næsta ári.