Á eftirlaunum um Ástralíu Gamalreyndur sundkappi og fyrrverandi lögregluvarðstjóri í Reykjavík, Eyjólfur Jónsson, lét gamlan draum rætast og er nú á ferðalagi um þvera og endilanga Ástralíu.

Á eftirlaunum um Ástralíu Gamalreyndur sundkappi og fyrrverandi lögregluvarðstjóri í Reykjavík, Eyjólfur Jónsson, lét gamlan draum rætast og er nú á ferðalagi um þvera og endilanga Ástralíu. Í þessum fyrsta pistli sínum um Ástalíuferðina fjallar hann um kynni sín af Brisbane í Queensland.

AÐ VAR á stríðsárunum að ég kynntist breskum hermanni hér á landi, Joe Walsh að nafni. Með okkur tókust góð kynni, þrátt fyrir talsverðan aldursmun, og ákváðum við að halda sambandinu þegar Joe fór aftur til síns heima. En hann fór töluvert lengra en til Englands, því hann gerðist innflytjandi í Ástralíu í stríðslok. Við héldum þó alltaf sambandi, bæði með bréfaskriftum og einnig kom hann oft til Íslands að heimsækja mig. Mig langaði alltaf að heimsækja hann á móti en lögregluþjónslaunin buðu ekki upp á heimsreisur, sérstaklega ekki fyrir fjölskyldumenn í húsbyggingum.

Heimboðið

En aðstæður breytast. Árið 1995 fór ég á eftirlaun og ári síðar missti ég konu mína. Ég var allt í einu orðinn einn og var hálfráðvilltur. Þá barst mér bréf frá mínum gamla vini sem bauð mér að koma og dvelja hjá sér eins lengi og ég vildi. Joe á börn sem búsett eru víðs vegar um Ástralíu og innifaldar í boðinu voru heimsóknir til þeirra allra með tilheyrandi gistingu. Þarna sá ég möguleika á að láta gamla drauminn rætast. Ég var þó hálfhikandi í fyrstu, enda ekki um neinn smáspöl að ræða. Eftir smáumhugsun ákvað ég þó að drífa mig, því þótt ég sé heilsuhraustur hef ég lúmskan grun um að ég verði ekki eilífur og þegar maður er farinn að potast á áttræðisaldurinn er ekki öruggt að maður geti frestað hlutunum um eitt ár eða fleiri.

Það var þann 14. desember sem ég lagði í hann. Fyrst var flogið til London þar sem gist var eina nótt. Kvöldið eftir var flogið til Kuala Lumpur í Malasíu. Þaðan var haldið áfram til Darwin í Northern Territory þar sem var millilent og síðan þvert yfir Ástralíu til Adelaide.

Á flugvellinum tóku þau á móti mér Joe og hjúkrunarkonan sem annast hann, því hann er töluvert eldri en ég og heilsan farin að bila, þótt andinn sé ungur og enn þá glittir í gamla eldhugann sem ég kynntist fyrir rúmlega hálfri öld. Joe býr í mjög stóru og glæsilegu húsi, enda maðurinn auðugur vel, og í næsta húsi býr sonur hans ásamt fjölskyldu sinni sem ávallt eru gamla manninum innan handar.

Tveimur dögum síðar héldum við Joe af stað í langt ferðalag, nánar tiltekið til Brisbane að heimsækja dóttur Joe og dvelja hjá henni og fjölskyldu hennar um jólin.

Á sakamannaslóðum

Upphaf Brisbane má rekja til þess að árið 1817 ollu auknir glæpir í Bretlandi því að þarlend yfirvöld töldu að útlegð til New South Wales væri ekki nægileg ógnun og ákváðu að stofna nýja sakamannanýlendu langt norður af Sydney þar sem taka mætti upp strangari refsingar.

Landstjóri New South Wales, Sir Thomas Brisbane, sendi menn undir stjórn John Oxleys yfirlandmælingamanns, til að leggja eignarhald á Moreton-flóa, stórt strandsvæði sem Cook kapteinn hafði skráð árið 1770. Við komuna þangað hitti Oxley þrjá skipbrotsmenn sem höfðu búið á svæðinu í nokkur ár meðal frumbyggja. Þeir sýndu honum leiðina að ósum Brisbane-fljóts. Oxley leist vel á svæðið og sneri aftur ári síðar á skipinu "Amity" en þar um borð voru 29 sakamenn og 20 aðrir, þar á meðal grasafræðingur konungs Allan Cunningham og landmælingamaðurinn Robert Hoddle.

Búseta hófst í Redcliffe, en 1825 var byggðin flutt að bökkum Brisbane-fljóts. Liðsforingi að nafni Logan var settur yfir nýlenduna árið 1826 og sakamenn voru hafðir undir ströngum aga. Árið 1831 voru 1.019 karlkyns og 58 kvenkyns sakamenn í nýlendunni. Frjálsum landnemum var ekki heimilt að setjast að nær Brisbaneborg en 80 kílómetra fyrr en árið 1842. Það var þremur árum eftir að síðustu sakamennirnir voru fluttir til Moretown-flóa. Land var selt í Norður- og Suður-Brisbane og á fimmta áratug 19. aldar fóru Suður-Brisbane, Kangaroo Point og Fortitude Valley að byggjast upp. Tollstöð var reist í Norður-Brisbane á árunum 1848-1849 og á sjötta áratugnum var Norður-Brisbane orðin verslunarmiðstöð borgarinnar. Árið 1859 var Queensland lýst sjálfstæð nýlenda og Brisbane höfuðborg hennar.

Árum saman var timburvinnsla stunduð frekar en landbúnaður á svæðinu, einkum eftir 1842 þegar sakamenn voru ekki lengur fyrir hendi sem vinnukraftur. Nýlendan var þó mjög gott landbúnaðarsvæði og Brisbane varð fljótlega helsta flutningshöfn fyrir ull og uppskeru bændanna í frjósömum dölum og hálendinu umhverfis þá. Upp úr 1870 komu járnbrautirnar til sögunnar og tóku við af fljótinu sem flutningsleið.

Brisbane stækkaði hægt næstu öldina en upp úr 1960 hófst þar mikil námuvinnsla og þar með hófst breytingin úr bæ í nútíma stórborg. Samveldisleikarnir voru haldnir í Brisbane árið 1982 og árið 1988 hýsti borgin heimssýningu sem yfir 14 milljónir manna heimsóttu alls staðar að úr heiminum. Íbúar í Brisbane eru nú orðnir 1.250.000 talsins.

Sérkennilegur jólaundirbúningur

Það var mjög vel tekið á móti okkur á áfangastað en fjölskyldan býr rétt fyrir utan Brisbane. Þau búa ekki síður vel en ættfaðirinn. Húsið stórt og fallegt með stórum garði með miklum trjágróðri. Fuglalífið í garðinum er ótrúlega fjölbreytt og er þar mest áberandi hláturfuglinn, kookaburra. Hann ber nafn með rentu og fannst mér fyrst afar einkennilegt að vakna við hlátrasköll þessa glaðlynda fugls. Hlátur hans er svo smitandi að ég hef oftar en einu sinni staðið sjálfan mig að því að taka undir með honum, stend jafnvel skellihlæjandi, aleinn, við spegilinn þegar ég er að raka mig.

Hitinn var um 40 fyrstu dagana. En húsið er vel loftkælt og sundlaug í garðinum ef þörf er á að kæla sig frekar. Það var einkennileg tilfinning að undirbúa jólin við þessar aðstæður og sannast að segja fannst mér skreytt jólatréð eins og "skrattinn úr sauðarleggnum" þarna um hásumar. Á Þorláksmessu fórum við í skoðunarferð um Brisbane. Fyrst var farið upp á fjallið Coot-tha en þaðan er útsýnið stórkostlegt, borgin hreinlega liggur fyrir fótum manns. Fjallið er aðeins átta kílómetra frá Brisbane og á góðum degi má sjá eyjarnar Moretone og Stradbroke. Brisbane-fljót liðast djúpt og breitt um borgina niður til Moreton-flóa.

Við rætur fjallsins er stór og fallegur grasagarður sem opnaður var 1976. Þar má sjá ótrúlegan fjölda framandi jurta, m.a. er þar japanskur garður sem gerður var í tilefni heimssýningarinnar 1988. Í garðinum er einnig mikið dýralíf og á flötunum við veitingahús garðsins er mikið af vatnafuglum og jafnvel vatnadrekaeðlum sem vonast eftir molum af borðum gestanna.

Fjölskrúðugt dýralíf

Fyrir utan borgina er stór þjóðgarður og verndarsvæði fyrir villt dýr sem heitir Lone Pine Koala Sanctuary. Þar má sjá í sínu eðlilega umhverfi ýmis villt dýr, svo sem kengúrur, kóalabirni, emúa og ekki síst tasmaníudjöfla. Áströlum tókst með naumindum að bjarga tasmaníudjöflinum frá útrýmingu. Nafn hans er tilkomið af þeim ægilegu óhljóðum sem hann gefur frá sér á nóttunni þegar hann berst um fæðuna við sína líka. Tasmaníudjöfullinn er næturdýr sem sefur í holum trjábolum og hellum á daginn en fer á veiðar þegar dimma tekur. Hann er ekki vandlátur á bráð og étur allt sem hann nær í. Skepnan hefur ógurlega sterka kjálka og tennur og étur það upp til agna sem hann klófestir. Fer jafnvel létt með að bryðja bein fullorðinnar kengúru, þar með talda hauskúpuna. Þannig að einu ummerkin sem hann skilur eftir sig að máltíð lokinni eru blóðblettir.

Í garðinum er ennfremur fjölbreytt úrval páfagauka, leðurblökur, slöngur, krókódílar og svo mætti lengi telja. Ég lét barnabörn Joe hafa peninga í garðinum til að kaupa sér jólagjafir frá mér. Þau völdu sér stóran uppblásinn hval og enn stærri krókódíl til að leika sér að í sundlauginni. Og ekki áttu þau í vandræðum með að nefna þessa nýju fjölskyldumeðlimi. Hvalurinn var umsvifalaust skírður Eyjólfur og krókódíllinn Joe. Þó svo að ég vilji ekkert fullyrða er ég hræddur um að vaxtarlag mitt og myndarlegar gervitennur afans hafi átt þar einhvern hlut að máli.

Óburðug brimbrettareynsla

Á annan í jólum var farið í tveggja klukkustunda bátsferð um Brisbane-fljót sem Brisbane-búar kalla vinalega fljótið og rennur í gegnum endilanga borgina. Fjærst borginni er fljótið notað sem veiðisvæði og sundstaður. En þegar nær dregur þéttbýlinu er umferð ferja og smábáta mikil. Meðfram bökkum fljótsins er mikið um útivistarsvæði, skemmtigarða og hjólreiðastíga. Og við og undir hinni miklu Gateway-brú er höfn. Þetta var mjög skemmtileg ferð sem gaf góða mynd af borginni og umhverfi hennar.

Síðan var haldið til Tamborine-fjalls sem er 600 m hátt og góður útsýnisstaður. Ástralir virðast hafa einstaklega vel staðsett fjöll hvað útsýni varðar. Þaðan mátti sjá Surfers Paradise og Golden Coast sem eru helstu baðstrendur svæðisins. Eftir það fórum við að skoða hina illræmdu sakamannanýlendu Moreton Bay, en þaðan sést yfir til eyjanna St. Helena og Green Island þar sem hættulegustu sakamennirnir voru geymdir. Ekki gat ég hugsað mér að sleppa því að fara í sjóinn á þessum dásamlegu baðströndum. Það var dásamleg tilfinning að synda út í hlýjan sjóinn og láta öldurnar bera sig aftur til lands. Það var eitthvað annað en jökulkaldur sjórinn við Íslands strendur. Ég gat ekki heldur stillt mig um að prófa brimbretti en það gekk þó heldur brösuglega. Eflaust ágætis íþrótt en ég held að best sé að byrja að æfa hana fyrir sjötugt.

Framundan eru fleiri ferðalög og önnur ævintýri. En þar sem ekki er hægt að skýra frá atburðum áður en þeir gerast verða þær frásagnir að bíða betri tíma.

GREINARHÖFUNDUR var ekki lengi að komast í góð tengsl við innfædda.

"EYJÓLFUR" og "Joe" ásamt eigendum sínum.

TASMANÍUDJÖFULLINN var á síðasta snúningi þegar honum var bjargað frá útrýmingu.

HORFT yfir Brisbane af tindi Coot-tha.