Ísland virðist vel á vegi statt Nýlega fóru fjórar íslenskar konur á vegum Stígamóta á ráðstefnu í Grikklandi þar sem fjallað var um ofbeldi á ungum konum sem búsettar eru á eyjum og í Grikklandi.

Ísland virðist vel á vegi statt Nýlega fóru fjórar íslenskar konur á vegum Stígamóta á ráðstefnu í Grikklandi þar sem fjallað var um ofbeldi á ungum konum sem búsettar eru á eyjum og í Grikklandi. Þær Anna Einarsdóttir og Jóhanna Ólafsdóttir sögðu í viðtali við Guðrúnu Guðlaugsdóttur að ofbeldi á ungum konum virðist eiga sér stað alls staðar, óháð búsetu, stéttaskiptingu og trúarbrögðum en umræður og meðhöndlun á þessum málum sýndust afar mismunandi milli landa.

EIM Önnu og Jóhönnu ber saman um að þátttakendurnir fjórir frá Íslandi, sem voru auk þeirra fyrrnefndu þær Alva Ævarsdóttir og Þórunn María Örnólfsdóttir, hefðu verið mun betur undir umræðurnar búnar en aðrir þátttakendur og svo virðist sem þessi mál séu miklu meira rædd hér á landi og úrræði séu hér fleiri en í öðrum löndum sem tóku þátt í þessari ráðstefnu. Einn karlmaður sótti ráðstefnuna og það var mjög ánægjulegt að hafa hann í hópnum. Á þessa ráðstefnu áttu karlmenn alveg eins erindi og konur," segja þær Anna og Jóhanna. Alls voru ráðstefnugestir sautján. Það voru samtökin Association European Expression sem stóðu fyrir ráðstefnunni en Evrópusambandið kostaði hana.Þátttakendur frá fimm löndum tóku þátt í þessari ráðstefnu auk okkar frá Íslandi. Hinir komu frá Grikklandi, Möltu, Kýpur og Írlandi," segir Anna. Hugmyndin á bak við þessa ráðstefnu var sú að ungt fólk gæti rætt saman um ofbeldi sem viðgengst í samfélögum þeirra. Rætt var um heimilisofbeldi, nauðgun, kynferðislega áreitni, vændi og klám og hvernig yfirvöld taka á þessum málum," segir Jóhanna. Einnig um umfjöllun fjölmiðla um þessi mál og um stöðu kvenna í fjölmiðlaheiminum í hverju og einu þessara fimm landa. Umræðurnar spönnuðu afskaplega vítt svið og mótuðust af því. Við komumst að því í þessum umræðum að ofbeldi af ýmsu tagi er sameiginlegt öllum þessum fimm samfélögum sem þátttakendurnir komu frá en umfjöllunin um það er mismunandi og einnig meðhöndlun. Munurinn er einkum sá að meira er um þessi mál rætt á Íslandi og hér eru úrræðin fleiri.

Trúin hindrar umræður

Í Grikklandi og raunar hinum löndunum þremur er það fyrst og fremst kirkjan og trúarlífið sem hindrar umræður um ofbeldismál. Við heimsóttum t.d. litlu eyjuna Tinos og sáum þar hvernig lögreglan meðhöndlar ofbeldismál. Lögregluþjónninn sem við töluðum við lýsti einu nauðgunarmáli í smáatriðum. Þannig braut hann allan trúnað sem hann ætti að sýna málsaðilum. Viðstatt málfutning hans voru auk ráðstefnugesta fólk frá viðkomandi eyju. Svona lagað teljum við óhugsandi að gæti gerst hér á landi. Ekki aðeins braut hann trúnað heldur lýsti hann þeirri skoðun sinni að konu gæti ekki verið nauðgað af manni sem hún þekkti, hann taldi þvert á móti að um samfarir með vilja konunnar hafi verið að ræða í þessu tilviki. Hann sagði að frá því hann tók við starfi sem lögregluþjónn á eyjunni hafi ekki verið kærð nema ein nauðgun. Fyrst lýsti hann þessi atviki sem nauðgun en síðan fór hann að lýsa eigin skoðunum og þá var þetta allt í einu hætt að vera nauðgun.

Í hinum löndunum fengust litlar upplýsingar

Við vorum einu þátttakendurnir sem voru lúterstrúar, hinir voru grísk-kaþólskrar trúar eða kaþólskrar. Okkur fannst stundum bera á því hjá hinum þátttakendunum að þeir tryðu því ekki að ofbeldi ætti sér stað í efri stéttum samfélagsins, ekki síst kom þetta viðhorf skýrt fram hjá írsku þátttakendunum, þær voru þess fullvissar að ofbeldi ætti sér einungis stað í lágstéttum.

Því miður fengu sumir þátttakendur engar tölfræðilegar upplýsingar um ofbeldi gegn ungum konum í þeirra samfélagi, annað hvort eru þessar tölur ekki til eða þær eru ekki veittar. Þetta mótaði umræðurnar mjög mikið. Við vorum með nákvæmar upplýsingar um ofbeldisverknaði á Íslandi en gátum ekki komið þeim á framfæri af því að þátttakendur frá hinum löndunum höfðu ekki sambærilegar upplýsingar. Sumir þátttakendur höfðu ekki fengið upplýsingar af neinu tagi. Þetta segir athyglisverða sögu og sýnir hve mjög umræðurnar hér á landi eru af öðrum toga en í þessum samfélögum. Við fengum alls staðar greið svör og það sýnir að þessi mál eru opinber hér á landi og það er viðurkennt að þau eigi sér stað þótt vissulega finnist okkur að margt megi enn betur fara í umfjöllun og meðhöndlun þessara mála.

Blaðamennirnir yfirgáfu fundinn

Í lok ráðstefnunnar, sem stóð í átján daga, var haldinn blaðamannafundur. Þar kynntu þáttakendur niðurstöður umræðnanna sem staðið höfðu daglega milli fimm hópa, en þessar niðurstöður verða birtar í bók sem kemur væntanlega út í mars á þessu ári. Blaðamenn frá helstu fjölmiðlum Grikklands komu á fundinn. Aðeins einn af fimm hópunum fékk tækifæri til að kynna hluta af niðurstöðum sínum, hinir fjórir hóparnir gátu aðeins lesið upp efnisyfirlit skýrslu sinnar. Blaðamennirnir fóru fljótt að ókyrrast og stukku flestir á braut löngu áður en fundinum lauk. Aðeins ein blaðakona vildi fá tölulegar upplýsingar en vegna fyrrnefndrar tregðu hjá hinum þátttakendunum á að fá upplýsingar af þessu tagi komust okkar tölur ekki á blað. Eftir á erum við fegnar að svo varð ekki vegna þess að það hefði ekki litið vel út fyrir okkar þjóð að vera einni stillt upp á þennan hátt með öllum tölulegum upplýsingum en hinir hefðu komið út sem nánast obeldislaus samfélög af því að hinar tölulegu upplýsingar skorti.

Þessi ráðstefna var okkur mjög eftirminnileg og sérkennileg reynsla. Við vitum nú hve mikilvægt er að þátttakendur hafi á takteinum sem gleggstar upplýsingar og að málefnin sem ræða á um séu vel skilgreind og afmörkuð. Á þetta skorti mikið á þessari ráðstefnu. Einnig er okkur betur ljóst en áður hve vel Íslendingar standa að umfjöllun og meðhöndlun ofbeldismála miðað við þessar þjóðir fjórar sem tóku þátt í ráðstefnunni með okkur. Að vissu leyti lítum við jákvæðari augum á íslenska samfélagið en við gerðum áður en við fórum á þessa ráðstefnu í Grikklandi."

ÞÁTTTAKENDUR á ráðstefnu um ofbeldi sem haldin var á Grikklandi fyrir skömmu.

Morgunblaðið/Þorkell

ALVA Ævarsdóttir, Anna Einarsdóttir, Jóhanna Ólafsdóttir og Þórunn María Örnólfsdóttir.