Nýjar bækur LEITIN að tilgangi lífsins er eftir austurríska geðlækninn Viktor E. Frankl, sem er upphafsmaður þeirrar kenningar í sálarfræði sem nefnd er lógóþerapía.

Nýjar bækur

LEITIN að tilgangi lífsins er eftir austurríska geðlækninn Viktor E. Frankl, sem er upphafsmaður þeirrar kenningar í sálarfræði sem nefnd er lógóþerapía. Þar er lögð áhersla á að í lífi sérhvers manns sé einstakur tilgangur sem hver og einn verði að finna fyrir sjálfan sig. Þessi tilgangur gefi lífinu gildi.

Frankl sat á unga aldri árum saman í fangabúðum nasista og notar reynslu sína þaðan sem undirstöðu kenninga sinna. Frásögnin úr fangabúðunum hefur fyrst og fremst þann tilgang að færa sönnur á kenningarnar en ekki að rekja hörmungar fangabúðarlífsins.

Gordon W. Allport prófessor í sálarfræði skrifar formála að bókinni og segir m.a.: "Ég mæli af heilum hug með þessari bók því að hún er dramatísk frásagnarperla sem fjallar um mesta vanda mannsins. Hún hefur bókmenntalegt og heimspekilegt gildi og er nauðsynlegur inngangur að merkustu sálfræðistefnu nútímans."

Páll Skúlason prófessor í heimspeki skrifar formála að íslensku útgáfunni.

Útgefandi eru Háskólaútgáfan og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Hólmfríður K. Gunnarsdóttir íslenskaði. Leitin að tilangi lífsins er 138 blaðsíður að stærð og kostar kr. 1.990 og fæst í öllum helstu bókaverslunum.