Yngvi Þór Einarsson Yngvi var alinn upp í Reykjavík og dvaldi þá ekki alltaf hjá foreldrum sínum, en þau slitu samvistir þegar hann var ungur drengur. Hann fór því til vandalausra, ýmist hér í Reykjavík eða hann var sendur í sveit, þar sem hann dvaldi lengur eða skemur, oft við misjafnt atlæti. Bernska hans og æska var því oft erfið. Menntunarskilyrði ungmenna á þessum tíma voru með öðrum hætti en nú gerist. Þeir, sem máttu sín einhvers gátu sent börn sín í skóla, en allur almenningur átti ekki kost mikillar menntunar, hvað þá þeir, sem urðu að sjá fyrir sér sjálfir allt frá barnsaldri. Hann varð því að láta sér nægja barnaskólann sem menntun fyrir lífsstarf sitt. Yngvi byrjaði að vinna fyrir sér strax á unglingsaldri. Hann vann sveitastörf að sumrinu, en fór annars til sjós á togurum og stundaði þess í milli almenna verkamannavinnu. Hann lærði snemma að aka bíl og varð það síðan hans ævistarf. Hann keypti sinn fyrsta vörubíl 1943 og stundaði akstur frá vörubílastöðinni Þrótti í 27 ár.

Valgerður og Yngvi bjuggu mest af sínum búskap í Reykjavík og þá á ýmsum stöðum, en árið 1970 tóku þau sig upp og fluttu til Svíþjóðar með yngstu börn sín tvö, sem þá voru á fermingaraldri. Þar vann Yngvi hjá skipasmíðastöðinni Kocums í Malmö, eins og fjöldi Íslendinga gerði á þessum árum. Þá var lítið að gera hér heima og vörubílaakstur í lágmarki eins og margt annað. Margir ílentust þar, en þau festu þar ekki rætur og fluttu því aftur heim eftir þriggja ára veru. Yngvi tók aftur til við vörubílaakstur og undi því næstu þrjú árin.

Aftur tóku þau sig upp og fóru nú á nýjar slóðir í Svíþjóð. Nú bjuggu þau í Arlöv og Yngvi starfaði hjá Skoogs Electriska við afgreiðslu og akstur næstu þrjú árin. Yngvi ræddi oft um þessa veru þeirra í Svíþjóð og hafði frá mörgu að segja, hvernig þar hagaði til. Hann hafði næmt auga fyrir því, sem gerðist í kring um hann og hver væri munur á lífsháttum þeirra og okkar. Hann var maður rökræðnanna og vildi gjarnan reyna að brjóta til mergjar orsakir og afleiðingar hinna ýmsu kringumstæðna, sem sköpuðu fólki mismunandi viðhorf til lífsins og umhverfisins. Hann naut því á margan hátt verunnar erlendis en komst að því, eins og margir á undan honum, að hollt er heima hvað. Þau fluttu því endanlega heim til Íslands árið 1976 og undu hér eftir það. Þau byggðu sér hús ásamt Einari syni sínum í Birkihlíð 42 og hafa átt þar sitt fallega heimili allt til þessa dags. Eftir seinni heimkomuna færði Yngvi sig aðeins um set í starfi og fór nú að aka sendibíl frá Nýju sendibílastöðinni og stundaði það starf eins lengi og heilsa hans leyfði.

Yngvi var alla tíð mjög fróðleiksfús og naut þess í ríkum mæli að lesa góðar bækur. Ljóð voru í miklu uppáhaldi hjá honum og kunni hann ógrynni af slíku. Hann þekkti líka sum skáldin, eins og Vilhjálm frá Skáholti, en hann var í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Enda er mér nær að halda að hann hafi kunnað öll hans ljóð og fór með þau af sérstakri tilfinningu þegar svo bar undir. Yngvi hefði notið þess að fá meiri skólagöngu á yngri árum, en hann var barn síns tíma og þurfti því að bæta sér það upp með lestri og viðtölum við fólk. Kannski höfum við, sem eftir lifum, ekki alltaf ætlað honum nógan tíma til þess.

Yngvi hafði ekki gengið heill til skógar undanfarið. Hann var skorinn upp vegna hjartasjúkdóms fyrir nokkrum árum, en fékk ekki við það fullan bata. Það skerti því starfsorku hans til muna þó það henti hann, eins og marga sem una sér best í sinni vinnu, að ætla sér ekki af.

Hann virtist gera sér fulla grein fyrir, að hverju dró. Hann nefndi það við mig, þegar ég ræddi við hann fyrir stuttu síðan, að endalokin væru skammt undan og hann væri mjög sáttur við það.

Ég er þess fullviss að svo hefur orðið.

Að lokum viljum við Erla senda Valgerði systur minni og öllum hennar börnum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum þann, sem öllu ræður að vera með henni nú og um alla framtíð.

Gísli S. Sigurðsson.