Eþíópía: Stjórnarhermenn í Erítreu styðja uppreisnarmennina Khartoum, Nairobi. Reuter. Daily Telegraph. ERÍTRESKIR aðskilnaðarsinnar sögðu í gær að stjórnarhermenn í héraðinu Eritreu, í norðurhluta Eþíópíu, hefðu stutt uppreisnar tilraunina á þriðjudag.

Eþíópía: Stjórnarhermenn í Erítreu styðja uppreisnarmennina Khartoum, Nairobi. Reuter. Daily Telegraph.

ERÍTRESKIR aðskilnaðarsinnar sögðu í gær að stjórnarhermenn í héraðinu Eritreu, í norðurhluta Eþíópíu, hefðu stutt uppreisnar tilraunina á þriðjudag. Þeir hefðu óskað eftir vopnahléi og friðarviðræðum við skæruliða aðskilnaðarsinna í héraðinu. Að sögn stjórnarerindreka í nágrannaríkinu Súdan virðist Asmara, höfuðborg Erítreu, vera algjörlega á valdi stuðningsmanna uppreisnarmannanna.

Varnarmálaráðherra Eþíópíu féll fyrir uppreisnarmönnum á þriðjudag og erlendir stjórnarerindrekar í höfuðborginni Addis Ababa heyrðu aftur skothríð um hádegisbilið í gær.

Talsmenn Þjóðfrelsisfylkingar Eritreu, EPFL, í Súdan sögðu að hermenn, sem styddu uppreisnarmennina, hefðu náð útvarpsstöðinni í Asmara á sitt vald stuttu eftir að Mengistu Haile Mariam, forseti Eþíópíu, fór í heimsókn til AusturÞýskalands á þriðjudag. Uppreisnarmönnum hefði hins vegar ekki tekist að ná undirtökunum í Addis Ababa. Talsmenn EPFL höfðu eftir útvarpinu í Asmara að allar sveitir stjórnarhersins í Eritreu, samtals um 150.000 manns, hefðu stutt uppreisnartilraunina. Þeir sögðu að leiðtogar uppreisnarmanna hefðu hvatt til þess að samið yrði þegar í stað um vopnahlé í stríðinu milli stjórnarhersins og sveita aðskilnaðarsinna í Erítreu og Tigray-héraði, mynduð yrði bráðabirgðastjórn og komið á lýðræði í landinu.

Mengistu Eþíópíuforseti kom í gær til Addis Ababa frá AusturÞýskalandi, þar sem hann var í opinberri heimsókn er varð styttri en vænst hafði verið.

Reuter