Gott verð fyrir gámafisk í Belgíu Frá Kristófer M. Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. Í GÆR var á fiskmarkaðinum í Zeebrugge boðinn upp fiskur úr gámi frá Vestmannaeyjum. Hér var fyrst og fremst um steinbít og ufsa að ræða.

Gott verð fyrir gámafisk í Belgíu Frá Kristófer M. Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

Í GÆR var á fiskmarkaðinum í Zeebrugge boðinn upp fiskur úr gámi frá Vestmannaeyjum. Hér var fyrst og fremst um steinbít og ufsa að ræða. Meðalverð á steinbíti var rúmlega 60 kr. en tæplega 80 kr. fyrir ufsann. Kaupendur á markaðinum létu vel af fiskinum og sögðu þetta uppboð auka tiltrú þeirra á íslenskum fiski.

Fiskur frá Íslandi hefur ekki verið boðinn upp reglulega í Belgíu og samkvæmt heimildum fréttaritara mun fnykurinn úr karfagámum sem hingað bárust fyrir nokkrum misserum enn í vitum fiskkaupmanna en einungs fjórðungur þeirrar sendingar reyndist hæfur til manneldis!

Forráðamenn fiskmarkaðarins í Zeebrugge, sem er sá eini innan EB í einkaeign, hafa sýnt mikinn áhuga á að koma á föstum viðskiptum með íslenskan fisk og þessi sending frá Vestmannaeyjum er talin lofa góðu um framhaldið. Belgar eru vandlátir fiskneytendur og borða fiskinn helst ferskann, kunna vel að matreiða fisk og vita hvað góður fiskur er. Mest er neysla á ýmiss konar flatfiski og þorskfiski auk skelfisks og alls konar krabbategunda.

Mikill skortur er á fiski í Belgíu en fiskveiðiflotinn hefur dregist mikið saman á síðustu árum og er nú 205 skip. Reiknað er með þvíað markaðurinn í Zeebrugge geti tekið á móti 25-50 tonnum á viku án þess að verðfall verði, svo framarlega sem fiskurinn er góður.