Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra: Til greina kemur að skipta Aðalverktökum í tvö félög Undaþága frá reglum Mannvirkjasjóðs til umræðu, segir Þorsteinn Pálsson JÓN Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra segir eðlilegt að ríkið eignist meirihluta...

Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra: Til greina kemur að skipta Aðalverktökum í tvö félög Undaþága frá reglum Mannvirkjasjóðs til umræðu, segir Þorsteinn Pálsson

JÓN Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra segir eðlilegt að ríkið eignist meirihluta í Íslenskum aðalverktökum. Núverandi ástand sé með öllu óverjandi.

Ráðherra segir að til greina komi að Íslenskum aðalverktökum verði skipt í tvö félög: eiginlegt verktakafyrirtæki og eignarhaldsfélag, "sem er ekkert annað en samkomulag um það hvernig uppsöfnuðum auði verði skilað til eigenda," segir Jón Baldvin.

"Á liðnum áratugum hefur þetta fyrirtæki vaxið upp í að verða eitt hið öflugasta í landinu. Eignir þess, umfram og óviðkomandi hinni eiginlegu verktakastarfsemi, nema milljörðum," segir Jón Baldvin.

Ráðherra leggst gegn hugmyndinni um opin útboð, þar sem hann segir að taka verði með í reikninginn reglur Mannvirkjasjóðs NATO þess efnis að opin útboð fari framí öllum aðildarlöndum Atlantshafsbandalagsins. Slík tilhögun segir hann að mundi skaða íslenska hagsmuni.

Jón Baldvin útilokar ekki að Íslenskum aðalverktökum verði breytt í almenningshlutafélag, en þá þurfi að byggja hér upp raunverulegan hlutafjármarkað. Mótun framtíðarfyrirkomulags félagsins verði verkefni nýrrar stjórnar Aðalverktaka.

Þorsteinn Pálsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir það vera mikinn misskilning að halda því fram að einokun á framkvæmdum á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, í höndum Íslenskra aðalverktaka, sé nær meginstefnu Mannvirkjasjóðs NATO, en það að fá undanþágu frá reglunni um útboð í öllum löndum NATO-ríkjanna í þá veru að opin útboð um framkvæmdirnar fari fram hér á Íslandi. Hann segir jafnframt að sjálfstæðismenn hafi aldrei litið á veru varnarliðsins á Íslandi, sem auðlind, eða útveg.

Sjá ennfremur viðtöl á bls. 20.