Atvinnulíf Þeir sem ákveða axli ábyrgðina Páll Kr. Pálsson, forstjóri Iðntæknistofnunar, lætur móðan mása um ógöngur íslensks atvinnulífs.

Atvinnulíf Þeir sem ákveða axli ábyrgðina Páll Kr. Pálsson, forstjóri Iðntæknistofnunar, lætur móðan mása um ógöngur íslensks atvinnulífs. Hann vill sameina allar rannsóknarstofnanir atvinnuveganna í sjálfstæðu fyrirtæki og að bankar og sjóðir breyti skuldum í hlutafé

Viðtal: Ágúst Pétursson

Páll Kr. Pálsson, forstjóri Iðntæknistofnunar, er í hópi þeirra manna sem hvað gerst þekkja innviði íslensks atvinnulífs. Allt frá því hann lauk námi í hagverkfræði í Vestur-Berlín árið 1980, hefur hann starfað hjá aðilum, sem á einn eða annan hátt fást við að þjóna íslensku atvinnulífi. Fyrstu árin starfaði Páll sem deildarstjóri hjá tæknideild Sambands málmog skipasmiðja, en á vordögum árið 1983 tók hann við starfi deildarstjóra tæknideildar Félags íslenskra iðnrekenda. Það var síðan í júní árið 1986 að Páll var ráðinn forstjóri Iðntæknistofnunar Íslands. Það er ekki einungis vegna þekkingar á íslensku atvinnulífi sem ákveðið var að eiga viðtal við Pál, heldur einnig vegna þess að hann er vanur að segja meiningu sína umbúðalaust og er ekki alltaf að skafa utan af hlutunum.

Ný tækni

- Fyrirtæki eru í vaxandi mæli að taka nýja tækni í sína þjónustu. Í hverju er þessi tækni fólgin?

"Hin nýja tækni sem fyrirtækin eru að taka í notkun felst fyrst og fremst í notkun tölva við hönnun og stýringu á vélum. Í stuttu máli má segja að notast sé við tölvur á sviðum, þar sem menn hafa hingað til notað "mekanískar" aðferðir eða heilann. Þegar allt kemur til alls er þessi svokallaða nýja tækni alls ekki ný, heldur er það fyrst og fremst beiting hennar sem er nýstárleg og í raun byltingarkennd. Í fyrsta skipti má segja að tölvur hafi samskipti sín á milli undir stjórn manna. Eins og gefur að skilja gerir þetta mjög breyttar kröfur til starfsmanna, bæði hvað varðar menntun og vinnubrögð. Þessi tækni gerir ekki aðeins miklar kröfur til sérhæfðrar þekkingar, heldur verður starfsmaðurinn einnig að geta átt mikið og náið samstarf við annað fólk. Ég er þeirrar skoðunar að þessi þróun eigi eftir að hafa mjög mikil áhrif bæði á atvinnulíf okkar og þjóðfélagið yfirleitt. Ég legg áherslu á, að það er ekki tæknin sjálf sem er ný, heldur þær kröfur sem hún gerir til fólksins, sem á að beita henni."

- Þú hefur haldið því fram, að þær þjóðfélagsbreytingar sem við komum til með að upplifa á næstu 15-20 árum muni verða meiri en allar breytingar sem orðið hafa á samfélaginu síðastliðin tvö þúsund ár. Geturðu lýst því nánar hvað þú átt við með þessari fullyrðingu?

"Þetta er í sjálfu sér ekkert ný fullyrðing og ekki frá mér komin. Fyrir stuttu hlustaði ég á bandarískan sérfræðing í hátækni halda því framað þær breytingar sem við myndum sjá á næstu 20 árum á sviði tækniog tækniþróunar yrðu meiri en orðið hafa frá örófi alda. Það sem í raun er átt við er að sú þekking sem menn byggja á við rannsóknir og þróun er að verða sífellt flóknari. Í kjölfar aukinnar menntunar og betri aðstæðna til rannsókna og þróunarstarfsemi verður hraðinn í þekkingar öfluninni meiri. Tíminn sem tekur að tvöfalda einhverja þekkingu verður sífellt styttri. Ef við höfum svo dæmi sé tekið byrjað á þekkingarstiginu 1, og það tók þúsund ár að komast upp í þekkinguna tvo, fimmhundruð ár að tvöfalda það og komast upp í þekkinguna fjóra og tvöhundruð og fimmtíu ár að komast upp í þekkinguna átta o.s.frv., má gera því skóna, að það taki mjög stuttan tíma að komast úr þekkingunni hundrað uppí tvö hundruð. Hér er auðvitað um tilbúið dæmi að ræða, en flestir fræðimenn virðast sammála um að þetta sé í grófum dráttum gangurinn á þróun tækninnar.

Þessi þróun á að mínu mati eftir að verða á öllum sviðum tækninnar, og því er óhætt að fullyrða að hið svokallaða upplýsingaþjóðfélag sem byggir fyrst og fremst á tölvutækninni, sé nú að renna sitt skeið á enda. Ég á þá auðvitað ekki við að tölvurnar muni hverfa, heldur að þær byltingarkenndu breytingar sem þær höfðu í för með sér séu nú orðinn hversdagslegur raunveruleiki. Líktog bíllinn sem var á sínum tíma byltingarkennd nýjung, sem síðan hefur ekki breyst í grundvallaratriðum eiga tölvur eftir að þróast, en ekki breytast verulega. Það þjóðfélag sem ég held að muni leysa upplýsingaþjóðfélagið af hólmi verður e.k. vísinda þjóðfélag og í því samfélagi verður þekkingin í raun mun meiri en við yfirleitt ráðum við að nýta. Þetta er raunar staðreynd, sem við stöndum nú þegar frammi fyrir. Fjölmörg vandamál eru tæknilega auðleysan leg, en eru hins vegar ekki leyst vegna þess að það þykir ekki fjárhagslega hagkvæmt. Þannig er t.d. sú tækni sem þarf til að breyta eyðimörkum í akurlendi vel þekkt - en af efnahagslegum og pólitískum ástæðum er henni ekki beitt. Það sem mestu máli skiptir í náinni framtíð er að við eigum fólk sem ræður yfir mikilli þekkingu á tækni og stjórnun og er reiðubúið að stuðla að því að tækninni verði beitt til að bæta lífskjör og ekki síður lífsgæði þegnanna."

- Hefur íslenskt atvinnulíf nægjanlegt bolmagn til að tileinka sér hina nýju tækni?

"Það verður að segjast alveg einsog er, að íslenskt atvinnulíf hefur verið nánast í helgreipum pólitískrar vanþekkingar og áhugaleysis síðastliðin tuttugu ár. Íslenskir stjórnmálamenn hafa vanrækt að fylgjast með þeirri þróun sem er að verða á tæknisviðinu erlendis, og eru þar af leiðandi ófærir um að setja þessa þróun í eitthvað, sem kalla mætti þjóðfélagslegt eða pólitískt samhengi. Þar að auki hafa áhrifamenn sýnt því allt of lítinn áhuga að skapa atvinnulífinu góð starfsskilyrði þótt allir viti innst inni að slíkt er forsenda þess að hér verði haldið uppi velferðarþjóðfélagi."

Engin stefnumótun

- Ertu að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi vanrækt að móta langtímastefnu varðandi þróun íslensks atvinnulífs?

"Já, og ég vil ganga enn lengra og fullyrða, að hér á landi sé ekki nein mótuð stefna varðandi þá spurningu, hvernig eigi að tryggja þegnunum góð lífsskilyrði þótt ekki væri nema næstu 15-25 árin. Menn eru sífellt að rífast um kökuna sem var borðuð í gær, í stað þess að hugsa alvarlega um þá staðreynd, að búið er að skuldsetja næstu kynslóð alveg hrikalega. Við skulum bara vona að sú kynslóð neiti ekki að borga eftirlaunin ofan í þá höfðingja sem hafa setið við stjórnvölinn síðustu 20 árin! Ef við höfum t.d. ekki efni á að byggja flugstöð öðruvísi en að tjóðra næstu kynslóð enn fastar á skuldaklafann, eigum við auðvitað að sleppa því að byggja flugstöð. Svo einfalt er það nú."

- Er íslenska menntakerfið reiðubúið til að aðlaga sig þeim breytingum sem verða á næstu árum og áratugum?

"Menntunarmálin eru í lamasessi hér á landi. Þá er ég ekki að meina samanborið við það sem er hjá öðrum þjóðum, heldur í samanburði við það sem þau gætu verið og þyrftu að vera ef við ætlum að halda þeim lífskjörum sem við búum við nú. Staðreyndin sem fólk neitar að horfast í augu við er að þær auðlindir sem við byggjum alla okkar afkomu á, munu óhjákvæmilega rýrna á næstu áratugum. Við erum hráefnisframleiðendur og hráefni eru ekki ótakmörkuð. Við verðum því að snúa okkur í auknum mæli að náttúruvernd og mengunarvörnum, auk þess sem við verðum að auka við fjölbreytnina, t.d. með stórkostlegri aukningu á fiskeldi. Þetta eru framkvæmdir sem við verðum að eyða alveg gífurlegum fjármunum í á næstu árum, í stað þess að sóa fjármunum í glæsihallir og annan hégóma. Fjárfestingar í t.d. mengunarvörnum, hafrannsóknum, og fiskeldi skila sér einmitt á tímum erfiðleika og samdráttar og má því líkja við það að leggja fjármagn í e.k. varasjóð. Ég fæ ekki séð hvernig við getum leyft okkur að gera það ekki!"

- Er líklegt að Íslendingar verði háðir sjávarútvegi í sama mæli og verið hefur?

"Sjávarútvegur og það sem honum tengist er og verður næstu 20-30 árin undirstaða íslensks efnahagslífs. Við verðum hins vegar að nýta hina nýju tækni til að tryggja undirstöðuna og skapa meiri breidd, t.d. með þróun tækni sem tengist veiðum og vinnslu, fiskeldi og fiskirækt, nýtingu á líftækni í sjávarútvegi o.s.frv. Það á við um sjávarútveg eins og aðrar greinar, að nauðsynlegt er að auka framleiðni, og það gerist aðeins ef við tökum tæknina í okkar þjónustuog leggjum áherslu á menntunarmál in. Kjarni málsins er nefnilega alls ekki að vera sífellt að rembast viðað koma fram með eitthvað nýtt einsog svo margir halda. Kjarni málsins er að nýta nýja tækni og þekkingu til að auka framleiðnina í því sem fyrir hendi er, því það kunnum við auðvitað best. Við kunnum að veiða og vinna fisk og búa til tæki sem því tengist, og á þeim grunni eigum viðað starfa og eflast. Hins vegar er auðvitað mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því, að það er æðimargt sem tengist sjávarútvegi, t.d. fataiðnaður. Það þarf að búa til fatnað fyrir fólk sem vinnur úti á sjó og í landi í matvælaiðnaði. Þarna gætum við þróað mjög háþróaðan fataiðnað. Annað lítið dæmi er álúrvinnsluiðnað ur, en þar eru stórkostlegir möguleikar ónýttir hvað varðar nýtingu áls í sjávarútvegi. Samhliða þessu eigum við svo auðvitað að halda áfram uppbyggingu í orkufrekum iðnaði."

- Hvað með landbúnaðinn?

"Ég held að landbúnaðurinn og samtök landbúnaðar séu helsti vandi landbúnaður á Íslandi, og séu raunar að ganga að landbúnaðinum dauðum! Raunar má að hluta segja það sama um sjávarútveginn, auk þess sem alltof mikil opinber afskipti stefna frumkvæði og nýsköpunarkrafti í báðum þessum greinum í voða. Að því leyti er um afturför að ræða miðað við það sem var í sjávarútvegi fyrir u.þ.b. 40-60 árum, þegar menn voru af hugsjón og eldmóði að búa til stór og myndarleg fyrirtæki. Það eru nefnilega stór og sterk fyrirtæki sem skila hagnaði sem skipta mestu máli um þróun velmegunar á Íslandi."

Sameinum allar rannsóknarstofnanirnar

- Svo við víkjum að öðru. Eigin tekjur Iðntæknistofnunar hafa vaxið hlutfallslega mjög hratt á síðustu árum. Stefnið þið að einhverju ákveðnu marki hvað sértekjur áhrærir?

"Mér finnst eðlilegt að ríkisstofnanir eins og Iðntæknistofnun sem eiga að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu fjármagni að mestu leyti sína starfsemi með tekjum af verkefnum. Við á Iðntæknistofnun höfum í vaxandi mæli þróast úr því að lifa á beinum ríkisframlögum yfir í að selja fyrirtækjum á markaðnum þjónustu okkar. Mér finnst þetta mjög eðlileg þróun og tel æskilegt að sem mest af þeim verkefnum sem unnin eru af opinberum rannsókna- og þróunarstofnunum séu unnin á verkefna grundvelli. Auðvitað er misjafnt hversu mikið þessar stofnanir geta sótt út til fyrirtækjanna á markaðnum, en ég álít að flestar þeirra geti gert miklu meira af því en nú tíðkast. Ef þessar stofnanir geta boðið góða þjónustu á sanngjörnu verði selst hún, að því tilskyldu að stofnanirnar þekki þörfina. Af þessum sökum er bráðnauðsynlegt að breyta rekstri þessara stofnana í grundvallaratriðum. Mestu máli skiptir að þær gerist markaðssinnaðar, sem merkir einfaldlega að þær stefni sífellt að þvíað þjóna hagsmunum viðskiptavina sinna. Ef opinberar rannsókna- og þjónustustofnanir atvinnulífsins eru ekki með vöru sem viðskiptavinir þeirra hafa þörf fyrir og áhuga á eiga þær í raun engan tilverurétt.

Stofnanir atvinnulífsins eiga einsog önnur fyrirtæki að setja sér markmið sem taka mið af þörfum markaðarins, og breyta markmiðum sínum ef þarfir markaðarins breytast. Það er því miður allt of algengt að á þessum stofnunum sé unnið árum saman að verkefnum, sem hafa í raun hvorki skilgreint upphaf eða endi. Víst kannað taka mörg ár að vinna að einhverju flóknu verkefni, en það verður samt sem áður að skilgreina nákvæmlega hvert takmarkið sé og hvenær verkinu skuli lokið. Að öðrum kosti sjá þeir starfsmenn sem verkið vinna í raun engan tilgang með vinnu sinni, en því fylgir mikil hætta á stöðnun og áhugaleysi.

- Er Iðntæknistofnun nægjanlega öflug til að geta raunverulega uppfyllt markmið sín um að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja?

"Það er auðvitað óraunhæft að Iðntæknistofnun geti bætt samkeppnishæfni allra íslenskra iðnfyrirtækja, enda stefnum við eingöngu að því að gera eins vel og við getum. Við þyrftum að gera mikið meira, en það getum við eingöngu með því að gerbreyta fyrirkomulaginu á rannsóknastofnunum atvinnuveganna. Þarna er rekin kolröng stefna, sem hreinlega hamlar því að þessar stofnanir geti sinnt hlutverki sínu. Það er mín skoðun, að eina vitið sé að sameina Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Þróunarfélag Íslands og Útflutningsráð Íslands í eitt öflugt fyrirtæki (ekki stofnun) sem gæti af alvöru tekið þátt í öllu nýsköpunarferlinu frá upphafi til enda. Sú þátttaka fælist m.a. í aðstoð við rannsóknir, vöruþróun, fjármögnun, útflutning og markaðssetningu erlendis."

- Ertu hér að tala um fyrirtæki sem yrði undir einu þaki, eða áttu við aukið samstarf þessara aðila?

"Eitt fyrirtæki alveg skilyrðislaust. Vissulega yrði slíkt fyrirtæki fremur stórt á íslenskan mælikvarða, en samt ekkert bákn því starfsmenn yrðu vart mikið fleiri en 200. Ég held að með þessum starfsmannafjölda, sem er nokkru færri starfsmenn en heildarfjöldi starfsmanna þessara stofnana í dag, væri ekki aðeins hægt að efla þjónustuna við atvinnulífið gífurlega, heldur myndi rekstrarkostnaður í heild minnka verulega frá því sem er í dag. Ég er sannfærður um að svona fyrirtæki myndi gegna lykilhlutverki í þeirri nýsköpun sem verður að fara í gang á næstu misserum ef við eigum ekki að missa af lestinni og verða undir í vaxandi samkeppni."

- Hverjir eru kostir svona fyrirtækis ef litið er burt frá hreinum hagkvæmnissjónarmiðum?

"Fyrst og fremst stærðin. Fyrirtækið gæti tekið fyrir allt ferlið frá því að ákveðin hugmynd að verkefni kemur fram og þar til búið er að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Þar með talið er vinna við að meta hugmyndina, þróa hana og stunda rannsóknir henni tengdar, framkvæma markaðsrannsóknir hér álandi sem erlendis, undirbúa stofnun fyrirtækis og safna hlutafé ef því er að skipta og útvega áhættufjármagn ef um eldra fyrirtæki er að ræða, vinna við að koma upp framleiðslutækjum og húsnæði og þannig mætti lengi telja."

-Er ekki sú hætta fyrir hendi að slíkt fyrirtæki yrði enn eitt býrókr atíska skrímslið meðal hinna ríkisfyrirtækjanna?

"Alveg örugglega, ef þetta yrði ríkisfyrirtæki. Ég er að tala um einhvers konar þjónustumiðstöð atvinnulífsins, sem yrði t.d. sjálfseignarstofnun með aðild þróunarfélagsins, ríkisins, samtaka vinnuveitenda og verkalýðs og fleiri aðila. Mergurinn málsins er sá, að hugmyndina þarf að framkvæma í stað þess að tala hana í hel. Ef okkur tekst að koma hlutunum þannig fyrir að tryggt sé að pólitísk afskipti af fyrirtækinu séu engin, er ég sannfærður um að árangurinn lætur ekki á sér standa."

Skortir pólitískan kjark

- Nú hlýtur framkvæmd slíkrar hugmyndar að vera pólitísk ákvörðun. Hefurðu einhverjar vonir um að þetta verði að raunveruleika á næstunni.

"Því miður tel ég að stjórnmálamenn skorti kjark, áhuga og skilning á nauðsyn þess að sameina stofnanir atvinnulífsins. Hvernig er líka við þvíað búast að flokkar, sem ekki hafa ómakað sig við að móta skýra atvinnustefnu hafi einhvern áhuga áað efla og bæta þjónustuna við atvinnulífið? Ekki er síður mikilvægt að stjórnmálamenn óttast einfaldlega að missa völd og áhrif við sameiningu stofnana, enda gætu þeir ekki ráðskast með slíkt fyrirtæki að eigin vild eins og þeir gera nú. Sjálfseignarstofnun eins og sú sem ég er hér að tala um er í raun ekkert annað en hluti af skýrri atvinnustefnu. Ég er alveg sannfærður um að öflug þjónustustofnun við atvinnulífið myndi í okkar litla samfélagi gera miklu meira gagn en margar litlar og veikar einingar. Við Íslendingar verðum að fara að gera okkur grein fyrirþví, að fyrirtækin eru upp til hópa allt of smá og veik. Stærri einingar eru oftast mun hagkvæmari. Það era.m.k. staðreynd, að stór og sterk fyrirtæki eru alger undirstaða þessað vel rekin smáfyrirtæki fái þrifist, enda er ég alls ekki að mæla með því að smáfyrirtækin verði aflögð. Í Bandaríkjunum er til dæmis mikill uppgangur í smáfyrirtækjum sem leggja stund á nýsköpun, en forsenda þess að svona nokkuð geti gerst er að þar eru stór fyrirtæki sem eru meðal annars kaupendur að þeirri háþróuðu tækni sem smáfyrirtækin eru oft að þróa. Best væri að fyrir hendi væru annarsvegar öflug og tiltölulega fá stór fyrirtæki og hinsvegar mörg lítil fyrirtæki sem hefðu hag af tilveru hvers annars. Það er löngu sannað, að öflug og frjó nýsköpun byggir á góðu og virku samstarfi smárra og stórra fyrirtækja. Alveg það sama á við um rannsóknarstofnanir. Stór og öflug rannsóknarstofnun myndi eflaust nýta sér ýmsa þjónustu sem litlar rannsóknarstofur jafnvel innan fyrirtækjanna hefðu upp áað bjóða og öfugt. Opinberar rannsóknastofnanir eru í dag margar og litlar smákóngastofnanir, sem eru alls ekki nægjanlega góður farvegur fyrir nýsköpun í landinu. Stór stofnun myndi hinsvegar sjá sér hag í að hafa sem best samstarf við fyrirtæki og einstaklinga sem væru að fást við athyglisverða hluti á sviði nýsköpunar.

- Nú má gera því skóna að starfsmannafjöldi og tækjabúnaður Iðntæknistofnunar sé vart meiri en sem svarar þróunardeild í litlu fyrirtæki á alþjóðamælikvarða. Er nokkur von til að svo lítil stofnun geti uppfyllt það markmið sitt að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja?

"Já, ef markmiðin eru nægjanlega þröngt skilgreind. Við höfum nú sett okkur það markmið að skilgreina okkur mjög þröngt. Við ætlum okkur til dæmis í líftækni bara að vera i hitakærum örverum. Við ætlum okkur í efnistækni bara að vera í áli og keramik. Við ætlum okkur í fataiðnaði bara að vera í starfsþjálfun og tölvutækni við hönnun og sniðagerð. Við ætlum okkur í rekstrartækni bara að fást við notkun nýrrar tækni við framleiðslu, stefnumótun fyrirtækja og markaðsmál. Þessar áherslur grundvallast á því hvar þörfin er mest á marðanum. Ef þarfirnar breytast breytum við um leið okkar áherslum, án þess að hætta að skilgreina okkur eins þröngt og hægt er. Með þessu móti teljum við að okkur takist einna helst að vinna gegn því áhrifaleysi sem vissulega einkennir litlar stofnanir eins og Iðntæknistofnun sem aðeins hefur um 70 starfsmenn á sínum snærum. Þessi stefna hefur að mörgu leyti komið okkur skemmtilega á óvart, t.d. kemur það sífellt betur í ljós að starfsfólkið verður bæði ánægðara og áhugasamara ef þessari stefnu er fylgt, því fólkið skynjar miklu betur þörfina á því sem það er að fást við auk þess sem árangurinn verður áþreifanlegri."

- Eru fyrirtækin nægjanlega dugleg að nýta sér þjónustu Iðntæknistofnunar?

"Nei, en ég held að það standi til bóta, sérstaklega ef okkur tekst að markaðssetja okkar þjónustu ennbetur en nú er. Staðreyndin er sú, að við megum alls ekki sitja með hendur í skauti og bíða þess að fyrirtækin komi til okkar. Við bjóðum uppá ákveðna þjónustu sem við teljum að markaðurinn hafi þörf fyrir, og við verðum að gjöra svo vel og selja þessa þjónustu! Þetta er sú aðferð sem systurstofnanir Iðntæknistofnunar í nágrannalöndunum beita og þetta er sú aðferð sem við verðum að beita ef við viljum ekki daga uppi sem einhvers konar nátttröll í íslensku atvinnulífi."

-Hvernig er í örstuttu máli hægt að lýsa ástandi iðnaðarins í dag?

"Staða atvinnulífsins í heild er mun verri en menn gera sér grein fyrir. Ástæðan er sú, að raunverulegt eigiðfé fyrirtækjanna er nánast uppurið, og það liggja almennt ekki fyrir duldar eignir í formi þekkingar, hugvits og þróunar á nýjum vörum sem gætu orðið til að bæta rekstrarstöðuna á næstu árum. Mér sýnist sem vel flest fyrirtæki séu komin með hlutfall í eiginfjárstöðu sem er öfugt við það sem eðlilegt verður að teljast. Það er því miður orðið allt of algengt að fyrirtækin séu með 20% eigin fé á móti 80% skuldum og það er augljóst að við þessar aðstæður er ekki við því að búast að fyrirtækin geti ráðist í að fjárfesta í nýrri þekkingu og nýrri tækni. Það mætti ætla að á síðustu 15-20 árum hafi beinlínis verið stefnt markvisst að því að draga allan mátt úr íslenskum fyrirtækjum, sérstaklega er þessi öfugþróun áberandi á síðustu 3-5 árum."

- Eru skilin á milli einstakra atvinnugreina e.t.v. að riðlast?

"Á fyrirtækjamarkaðnum eru þessi skil greinilega að riðlast. Hinsvegar eru skilin á milli atvinnugreina alltaf jafn skörp í pólitíska kerfinu, vegna þess að það er svo gífurlega mikill munur á fyrirgreiðslunni sem þessar greinar fá. Landbúnaður fær t.d. langsamlega mestu fyrirgreiðsluna á meðan iðnaðinum er illa og lítið sinnt. Þetta er þekkt mál og margþvælt, en menn dunda sér nú samt við að rífast um þetta sem er svona álíka bjánalegt og að rífast um það hvort verði sól eða rigning á morgun.

Skuldum verði breytt í hlutafé

- Nú virðist vera að þróast eitthvað á Íslandi sem hægt væri að kalla eðlilegan fjármagnsmarkað, þarsem samkeppni er um fjármagn, og menn geta ekki lengur gert út á verðbólguna. Er þetta ekki æskileg þróun?

"Hún getur verið það ef rétt er haldið á spöðunum. Ég held að menn verði að taka á þessu vandamáli með eiginfjárstöðu fyrirtækjanna. Þetta er hlutverk sem ég held að fjármagnsmarkaðurinn neyðist til að taka að sér fyrst og fremst. Annað meginverkefnið verður síðan að draga úr verðbólgu og jafna samkeppnisstöðu milli atvinnugreina og gagnvart innflutningi, og það tel ég að sé hlutverk sem stjórnvöld verða að taka að sér. Að síðustu verður að auka framleiðni í fyrirtækjunum, og þetta er hlutverk sem stjórnendur fyrirtækja og launþegahreyfingin verða að sinna sameiginlega. Fyrir mér er tiltölulega auðvelt að sjá og skilja nauðsyn þessara forgangsverkefna. Hinsvegar virðast þessir aðilar sem ég minntist á eiga mjög erfitt meðað viðurkenna opinberlega að þetta sé þeirra hlutverk ef takast eigi að rífa íslenskt atvinnulíf upp úr þeim fúla pytti sem það er nú að sökkva í.

- Hvernig getur fjármagnsmarkaðurinn orðið til að bæta eiginfjárstöðu fyrirtækjanna?

"Fjármagnsmarkaðurinn, og þá á ég bæði við banka og sjóði, verður að mínu mati einfaldlega að breyta skuldum fyrirtækja eftir því sem kostur er í hlutafé. Það þýðir ekkert að segja mér að þetta gangi ekki þarsem slíkt sé í andstöðu við lög, því lögum má breyta ef vilji er fyrir hendi. Það er engin önnur leið fær út úr þessum vanda. Tímabundin þáttaka banka og sjóða í rekstri og endurskipulagningu fyrirtækja hlýtur að vera öllum til góðs, ekki síst skattborgurum sem hingað til hafa mátt taka á sig taprekstur í formi ýmissa misvel dulbúinna ríkisframlaga til fyrirtækja. Hvað ætli þessi hlutabréfasjóður sé svo sem annað en pólitísk aðgerð til að bjarga bönkunum undan fallöxinni? Íslenskir bankar lána rándýra peninga og þurfa svo ekki einu sinni að taka verulega áhættu: það er bara hrópað á ríkið ef illa gengur og ríkið fer í vasa skattborgaranna til að bjarga fyrirtækjum sem ekki geta greitt bönkunum skuldir sínar. Svona þjóðnýtingar stefna grefur undan atvinnulífinu og hefur því til lengri tíma litið þveröfug áhrif við það sem til var ætlast. Eina vitið er að þeir menn sem bera ábyrgð á því að lána illa reknum fyrirtækjum axli ábyrgð sína á þessum lánum. Ef í ljós kemur að bankastjóri gerir mistök varðandi lánveitingar verður hann bara að víkja fyrir öðrum hæfari manni líkt og tíðkast á frjálsum markaði. Nú segja auðvitað sumir, að bankarnir hafi einfaldlega ekki bolmagn til að fást við vandamál einsog þau sem komin eru upp í sjávarútvegi. Ég er hinsvegar þeirrar skoðunar, að það sé miklu betra að láta stóru bankana tapa stórum fúlgum af peningum sem síðan mætti að hluta til mæta með hlutafjáraukningu bankanna og að hluta til með því að bankarnir taki inn erlenda eignaraðila. Ég vil taka skýrt fram að ég er alls ekki að tala um að bankarnir eignist fyrirtækin til frambúðar, heldur hjálpi til við að koma undir þau fótunum. Að því loknu selja þeir hlut sinn væntanlega á þokkalegu verði."

- Þú hefur bent á nauðsyn þessað við Íslendingar tökum þátt í alþjóðavæðingu atvinnulífsins. Hvað áttu við með þessu hugtaki?

"Hér er átt við að fyrirtækin séu aðstoðuð við að komast út fyrir landsteinana, ekki bara með vörur sínar, heldur starfsemina í heild. Þetta er þróun sem er augljóslega að verða úti um allan heim, og því er mikilvægt að við tökum þátt í þessari þróun eins og kostur er. Ríkisstjórnir leggja í vaxandi mæli áherslu á að fyrirtækin fjárfesti erlendis til að öðlast betri aðgang að tækni, þekkingu, hráefnum og mörkuðum svo eitthvað sé nefnt. Við skulum átta okkur á því að heimurinn er að verða eitt markaðssvæði, og við slíkar aðstæður verða menn að vera mjög hreifanlegir og sveigjanlegir til að eiga sem mesta möguleika. Það er ekki lítils virði fyrir okkur Íslendinga að eiga fyrirtæki sem starfa á hinum geysimikilvæga markaði sem er að verða til Evrópu. Ég held að það sé mjög æskileg þróun að íslensk fyrirtæki kaupi hluti í erlendum fyrirtækjum og öfugt. Erlend fyrirtæki eru raunar nú þegar farin að fjárfesta á Íslandi, og við verðum að gæta þess vandlega að þróunin verði ekki einungis í aðra áttina með því að aðstoða íslensk fyrirtæki við að fóta sig á erlendri grund. Svo að ég komi enn einu sinni inn á eiginfjárstöðuna: Það er borin von að fyrirtæki með jafn slæma eiginfjárstöðu og þau íslensku almennt, geti tekið þátt í þessari alþjóðavæðingu þannig að allt ber að sama brunni: Það verður að bæta eiginfjárstöðuna."

- Telur þú hættu á að atvinnuleysi í líkingu við það sem gerist víða í Evrópu ríði yfir hérlendis jafnvel á þessu ári?

"Fyrir aðeins ári síðan var talað um að það vantaði nokkur þúsund manns á vinnumarkaðinn. Nú eru líklega um 3.000 manns án atvinnu, þannig að þarna hefur orðið breyting upp á u.þ.b. 6.000 störf. Ég óttast því miður mjög að þessi þróun á vinnumarkaðnum muni halda áfram, enda fátt sem bendir til þess að breytinga sé að vænta. Það eru ekki aðeins gjaldþrotin sem leiða af sér atvinnuleysi. Ég heyri það greinilega á viðræðum við stjórnendur fyrirtækja, að flestir hyggjast draga saman seglin á þessu ári, og það hlýtur auðvitað að hafa í för með sér einhverjar þrengingar á vinnumarkaðnum."

- Telur þú stjórnun ábótavant í íslenskum fyrirtækjum?

"Ég held að stjórnun fyrirtækja hér á landi sé smátt og smátt að breytast. Maður verður var við ný sjónarmið í sambandi við stjórnun fyrirtækja, þar sem vaxandi áhersla er lögð á samhengið milli þekkingarog verðmætasköpunar. Menn skilja orðið betur nauðsyn þess að nýta tækni fyrirtækisins og hæfni og þekkingu starfsfólksins til að geta á sem hagkvæmastan hátt framleitt vöru fyrir markaðinn og þróað nýjar vörur til að standa sig í samkeppninni. Það eru e.t.v. stór orð, en mér sýnist víða í fyrirtækjum, að menn séu farnir að segja við sjálfa sig: Íslensk stjórnvöld hafa einfaldlega ekki þá framtíðarsýn sem er nauðsynleg til að hægt sé að móta einhverja vitræna atvinnustefnu. Við verðum þvíað móta stefnuna sjálfir og best að drífa í því."

- Ef þú ættir í einni málsgrein að draga saman helstu ástæðurnar fyrir rekstrarvanda íslenskra fyrirtækja?

"Ég held að mönnum hafi ekki tekist nægjanlega vel að skilja sambandið á milli fjármagns, þekkingarog stjórnunar annarsvegar og verðmætasköpunar hins vegar. Þekking, fjármagn og stjórnun verða að vera samtengd og stöðugt í endurnýjun til þess að fyrirtækin geti vaxið og dafnað. Annað gífurlegt vandamál sem atvinnulífið stendur frammi fyrir er sú staðreynd, að íslensk stjórnvöld hafa alls ekki sinnt því sem skyldi að móta raunverulega stefnu fyrir framtíðarþróun íslensks atvinnulífs, einkum og sér í lagi varðandi nýsköpun. Enn eitt sem ég gæti nefnt, er vandamál sem er lítið rætt, en sennilega stærra en margan grunar. Það eru kunningjatengslin í okkar litla þjóðfélagi. Víst kunna þau að hafa góðar hliðar, en ég held nú samt að á síðustu 15-20 árum hafi safnast saman ansi mikið af bölvanlegum kunningjatengslum hér á landi. Ég hef hinsvegar á tilfinningunni að þetta samtryggingakerfi sé á undanhaldi og er það vel."

- Hver er þín óskaþróun í íslensku atvinnulífi?

"Ég myndi vilja sjá banka og aðrar fjármálastofnanir koma inn í atvinnulífið eins og við ræddum hér á undan. Þetta er orðið svo aðkallandi, að málið þolir í raun ekki lengri bið. Ég held að það yrði margt öðruvísi hér á landi eftir fimm ár ef þessu yrði hrint í framkvæmd. Ég held að þessi þróun myndi virka sem hvati áað almenningur fjárfesti í hlutabréfum ef það væri jafn hagkvæmt og annar sparnaður. Þar með væri líka bönkunum gert auðveldara að selja hlutabréfin eftir að þeir hafa tekið til í efnahagsreikningum fyrirtækjanna. Að síðustu vildi ég gjarnan sjá á næstu árum mikinn sparnað og hagræðingu í ríkisgeiranum, ekki síst fyrir tilstilli stærri, öflugri og hagkvæmari rekstrareininga, meiri ábyrgðar stjórnenda og minni pólitískra afskipta."

- Svona í lokin Páll, hvernig heldur þú að iðnaðurinn muni spjara sig á næstu áratugum?

"Prýðilega, ef honum verða sköpuð þolanleg starfsskilyrði. Ástandið einsog það er nú er að verða óþolandi, og þetta er að mínu viti fyrst og fremst heimatilbúið. Að vísu spila ytri skilyrði sína rullu, en ég held að aðalvandinn felist í rangri stjórnun. Fyrsta og mikilvægasta aðgerðin til bjargar atvinnulífinu er auðvitað að ná niður verðbólgunni og skrá gengið rétt. Öðruvísi getur a.m.k. iðnaðurinn ekki með nokkru móti staðið sig í samkeppninni. Í öðru lagi þarf að búa svo um hnútana að menn sjái sér hag í því að ráðast út í nýsköpun. Fyrirtæki sem eru árum saman rekin samkvæmt einhverri pólitískri núll púnktsstefnu, geta ekki með nokkru móti lagt fjármagn í nýsköpun og þróunarstarf. Þetta á raunar ekki bara við um iðnaðinn, heldur atvinnulífið eins og það leggur sig."

KJARKLEYSI - "Því miður tel ég að stjórnmálamenn skorti kjark, áhuga og skilning á nauðsyn þess að sameina stofnanir atvinnulífsins", segir Páll Kr. Pálsson meðal annars í opnuviðtalinu.