Hallborg Sigurjónsdóttir ­ Minning Fædd 7. desember 1921 Dáin 6. maí 1989 Yndi það sem ást þín skóp er minn stærsti hagur. Vanti þig í vinahóp verður langur dagur. (Höf. Guðlaug Bjartmarsdóttir) Hún sefur svefninum langa. Kyrrð og ró hefur færst yfir sál hennar.

Þetta er svo óraunverulegt, amma dáin. Ég velti því fyrir mér hvenær ég sá ömmu seinast, jú nokkrum dögum fyrir fyrirhugaða ferð afa og ömmu til Mallorka. Hún og afi komu og sýndu okkur ferða pappírana. Þau voru að grínast meðað þau væru að flýja veturinn, því vorið yrði komið þegar þau kæmu aftur. Vorið kom og einnig amma og afi. En á leiðinni heim veiktist amma og það alvarlega. Þrír dagar liðu og amma virtist á batavegi, en fjórði dagurinn leið og amma lokaði augunum.

Amma hugsaði alltaf fyrst um börnin. Er við komum í heimsókn fengum við alltaf eitthvað gott að borða. Reyndin varð sú að þegar bræður mínir fengu bílpróf og fiskur var hafður í matinn heima, þá skruppum við "aðeins" til ömmu. Við vissum að hjá ömmu var alltaf herramannsmatur á boðstólum handa hverjum sem kom.

Það er erfitt að lýsa ömmu á þann veg sem hún á skilið. Ég hef aldrei þekkt neina manneskju sem hafði eins mikinn góðvilja í sínu fari. Hún var næm, fórnlunduð, samviskusöm og dugleg. Hún var stórkostleg persóna, persóna sem erfitt er að skilja við.

Við vitum að lífið verður að hafa sinn vanagang, þó sárt sé að þurfaað viðurkenna að amma sé farin. Við öll, er þekktum ömmu, höfum misst mikið, þó sérstaklega afi og börn þeirra. Við getum huggað okkur við að vita að hún hvílir í friði. Blessuð sé minning hennar.

Þú hefur oft, það segi ég satt,

sungið ljóð í haga

og margan dapran getað glatt

gleðisnauða daga.

(Höf. Rakel á Þverá)

Guðlaug Edda Siggeirsdóttir