Indiana K. Bjarnadóttir ­ Minning Mig langar til að minnast ömmu minnar Indiönu Katrínar Bjarnadóttur með nokkrum fátæklegum orðum. Amma var ákaflega falleg og kvennskörungur mikill. Hún var mjög áberandi persóna og gustaði af henni hvar sem hún var, endaþótt lífsferill hennar hafi ekki alltaf verið dans á rósum. Amma var mjög ákveðin, hafði sínar skoðanir á hlutunum en var ávallt mjög góð við okkur börnin. Hún var mjög félagslynd og leið best að hafa fullt af fólki í kringum sig. Enda þótt hún segði ekki mikið síðustu árin var hún mjög glöð ef hún fékk heimsókn og þá sérstaklega þegar litlu börnin sáust, þá gaf hún okkur fallegt bros. Starfsfólk Hvítabandsins á hrós skilið fyrir hvað það hugsar vel um gamla fólkið og gefur því mikla hjartahlýju. Þar leið henni vel, og henni líður örugglega vel núna í sínum nýju heimkynnum laus við fjötrana sem háðu henni á síðustu árum. Ástarþakkir fyrir allt.

Katrín Magnea