MIKAEL, útlægur konungur Rúmeníu, sneri aftur til heimalandsins í gær eftir að stjórn landsins ákvað að veita honum ríkisborgararétt að nýju og notfæra sér virðingu hans erlendis í baráttunni fyrir því að Rúmenía yrði á meðal fyrstu ríkjanna sem fengju aðild að Atlantshafsbandalaginu eftir lok kalda stríðsins.
Notfæra sér virðingu Mikaels

konungs til að fá NATO-aðild

Búkarest. Reuter.

MIKAEL, útlægur konungur Rúmeníu, sneri aftur til heimalandsins í gær eftir að stjórn landsins ákvað að veita honum ríkisborgararétt að nýju og notfæra sér virðingu hans erlendis í baráttunni fyrir því að Rúmenía yrði á meðal fyrstu ríkjanna sem fengju aðild að Atlantshafsbandalaginu eftir lok kalda stríðsins.

Þetta er önnur heimsókn konungsins til Rúmeníu frá því kommúnistar neyddu hann til að afsala sér konungdómi fyrir tæpri hálfri öld. Þótt rúmensk stjórnvöld hafi sagt að ekki sé um opinbera heimsókn að ræða var honum boðið í viðhafnarveislu í gömlu konungshöllinni. Hann verður þar gestur Emils Constantinescus, sem fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum í nóvember og batt enda á sjö ára valdatíma fyrrverandi kommúnista, en þeir höfðu lagst gegn því að konungurinn sneri aftur til landsins.

"Ég bauð Mikael í höllina á þriðjudag í næstu viku. Ég hlakka til að ræða við manninn sem gegndi mikilvægu hlutverki í sögu Rúmeníu og Evrópu," sagði Constantinescu. Einnig er búist að Victor Ciorbea forsætisráðherra og ráðherrar í stjórn hans bjóði konungnum fyrrverandi til veislu í dag.

Mikael táraðist við komuna til flugvallarins í Búkarest, þar sem honum var afhent nýtt rúmenskt vegabréf. Hundruð manna tóku á móti honum, þeirra á meðal nokkrir ráðherrar og frammámenn í menningarlífinu.

Hótelið sem Mikael gistir á var áður sveitasetur og vopnaðir hermenn neyddu hann þar til að undirrita skjal þar sem hann afsalaði sér konungdómi árið 1947. Heimsóknin stendur í fimm daga og m.a. er ráðgert að hann leggi blómsveig á Háskólatorgið í Búkarest, þar sem mótmælendur voru drepnir árið 1989 í uppreisninni sem varð kommúnistastjórn Nicolae Ceausescu að falli.

Lofar að beita sér

í þágu Rúmena

Mikael lofaði að beita sér af alefli í þágu Rúmeníu, virða stjórnarskrá rúmenska lýðveldisins frá 1991, þar sem ekkert er minnst á hlutverk konungsins, og gera ekki kröfu til eigna sem kommúnistar þjóðnýttu.

"Sem borgari og fyrrverandi konungur gæti hann í krafti virðingar sinnar og tengsla við evrópskar konungsfjölskyldur gegnt hlutverki nokkurs konar sendiherra, til að mynda aflað peninga," sagði Neagu Djuvara, sagnfræðingur og konungssinni, sem sneri aftur til Rúmeníu árið 1990.

Constantinescu hefur lagt til að Mikael beiti áhrifum sínum til að tryggja að Rúmenía verði á meðal fyrstu ríkjanna sem fái aðild að Atlantshafsbandalaginu þegar það verði stækkað í austur.

Virtur meðal Rúmena

Margir Rúmenar bera mikla virðingu fyrir Mikael, sem þótti sýna mikið hugrekki þegar hann lét handtaka fasistaleiðtogann Ion Antonescu marskálk árið 1944. Eftir það gengu Rúmenar til liðs við bandamenn í síðari heimsstyrjöldinni.

Mikael fæddist 25. október 1921 og var gerður að konungi aðeins sex ára gamall. Faðir hans, Carol II. konungur, steypti honum af stóli árið 1930 og Mikael tók aftur við krúnunni þegar faðir hans afsalaði sér konungdómi árið 1940.

Eftir að kommúnistar hröktu Mikael úr landi rak hann kjúklingabú um tíma í Bretlandi og hélt til Sviss árið 1956 og starfaði þar í fyrstu sem reynsluflugmaður. Hann hefur einnig stofnað raftækjafyrirtæki og starfað sem verðbréfasali.

Umdeild heimsókn

Mikael sneri aftur til Rúmeníu árið 1992 og hundruð þúsunda Rúmena fögnuðu þá komu hans á götunum. Fyrrverandi kommúnistar lögðust gegn því að hann færi aftur til landsins og settu það sem skilyrði fyrir vegabréfsáritun að hann lýsti því yfir opinberlega að hann myndi virða stjórnarskrána.

Fyrrverandi kommúnistar hafa gagnrýnt heimsókn Mikaels nú sem tilraun af hálfu stjórnarinnar til að draga athygli Rúmena frá hækkunum á opinberum gjöldum og verði nauðsynjavara síðustu vikur. Flokkar þjóðernissinna hafa einnig gagnrýnt heimsóknina á þeirri forsendu að ekki hafi verið tekið á stjórnlagaóvissunni um hlutverk konungsins fyrrverandi.

Reuter MIKAEL, útlægur konungur Rúmeníu, og kona hans, Anna, við komuna til Búkarest í gær. Á milli þeirra er dóttir þeirra, Margareta prinsessa.