13. apríl 1997 | Sunnudagsblað | 3267 orð

"ÉG HEFÐI VILJAÐ LÆRA MEIRI SÖNG"

"ÉG HEFÐI VILJAÐ LÆRA MEIRI SÖNG" Edda Heiðrún Backman hefur það sem af er þessu leikári leikið tvö veigamikil hlutverk á stóra sviði Þjóðleikhússins, Helgu í leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar, Þrek og tár, og Gínu í leikriti Henriks Ibsen, Villiöndinni.

"ÉG HEFÐI VILJAÐ

LÆRA MEIRI SÖNG"

Edda Heiðrún Backman hefur það sem af er þessu leikári leikið tvö veigamikil hlutverk á stóra sviði Þjóðleikhússins, Helgu í leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar, Þrek og tár, og Gínu í leikriti Henriks Ibsen, Villiöndinni. Þá leikur hún aðalkvenhlutverkið í Fiðlaranum á þakinu sem verður frumsýndur á stóra sviði Þjóðleikhússins um miðjan aprílmánuð. Ólafur Ormsson ræddi við Eddu Heiðrúnu um leikhúsið, tónlistina, sönginn og leitaði álits leikstjóra, leikara og gagnrýnanda á ferli hennar sem leikkonu og söngkonu.

EDDA Heiðrún Backman hefur leikið stór hlutverk í athyglisverðum sýningum í Þjóðleikhúsinu síð astliðin ár eða frá því að hún kom frá Borgarleikhúsinu eftir að hafa leikið með Frú Emilíuog Leikfélagi Reykjavíkur um tíma. Þá hefur hún einnig leikið í kvikmyndum og sjónvarpi og er nú tvímælalaust ein þekktasta leikkona okkar. Hún æfir nú af kappi fyrir næsta stórverkefni, aðalkvenhlutverkið í Fiðlaranum á þakinu. Edda Heiðrún býr ásamt manni sínum Jóni Axel Björnssyni, myndlistarmanni og syni sínum Arnmundi E. Björnssyni, sjö ára, og dóttur Jóns Axels og Sóleyjar heitinnar Eiríksdóttur, Brynju, vestarlega við Framnesveginn, í fallegu húsi sem byggt var á Bráðræðisholtinu fyrir um það bil fjórtán árum eða um svipað leyti og ýmsir starfsfélagar Eddu Heiðrúnar byggðu þar hús og til varð eins konar leikaranýlenda. Guðrún Ásmundsdóttir hefur búið í næsta nágrenni og Karl Ágúst Úlfsson, María Sigurðardóttir og Sigmundur Örn Arngrímsson áttu lengi heima í húsum á holtinu og í næsta húsi við heimili Eddu Heiðrúnar býr systir hennar Inga Jónína sópransöngkona og ofar í næsta húsi við Framnesveginn búa þau hjón Jón Ársæll, fréttamaður á Stöð 2 og kona hans, Steinunn Þórarinsdóttir, myndlistamaður.

Það var einmuna veðurblíða mánudag í marsmánuði þegar ég heimsótti leikkonuna , sólskin og hlýtt í veðri eftir frosthörkur og umhleypinga í allt að hálfan mánuð og einungis þrír dagar til vorjafndægurs. Það vantaði ekkert nema þvottinn á snúrurnar og söng fuglanna til að minna enn frekar á þann fögnuð sem framundan er í náttúrunni þegar klakaböndin bresta og fyrstu vorboðarnir minna okkur á bjarta tíð með blóm í haga.

Leikkonan skimaði út um eldhúsgluggann þegar ég gekk um hlaðið við húsið og var að vörmu spori komin að útidyrahurð og bauð mig velkominn, brosmild. Hún var stolt þegar hún sýndi mér húsið sem faðir hennar, Halldór heitinn Backman, átti heiðurinn af að byggja fyrir fjórtán árum og gera að jafn vistlegum húsakynnum og raun ber vitni.

Edda Heiðrún var í ljósbláum gallabuxum, í ljósbrúnu vesti utan yfir grænni skyrtu, hún er ljósskolhærð og hafði bundið hárið í hnút aftur á hnakkann. Hún gerði í stuttu máli grein fyrir sögu hússins eftir að við höfðum sest við borð í stofu.

"Pabbi byggði þetta hús fyrir fjórtán árum. Húsið var upphaflega kofi sem stóð sem úthýsi við byggingu sem hét Vorboðinn og var sumarbústaður fyrir börn róttækra foreldra. Pabbi vildi endilega að ég notaði tækifærið og hefði þetta sem fyrstu einingu í hús. Húsið var upphaflega við Rauðhóla."

Uppruni og bernska á Akranesi og í Reykjavík

Innan dyra eru veggir hússins að mestu klæddir ljósbrúnum furupanil. Úr stofu er gott útsýni yfir til næstu húsa og frá stofunni er yfirbyggð sólstofa þar sem Jón Axel hefur aðstöðu til að fást við teiknun. Út frá stofunni er eldhúskrókur og á vegg við eldhúsið er portettmynd í ramma sem vakti athygli mína og þegar ég forvitnaðist frekar um myndina kom í ljós að hún er eftir Ágúst Petersen myndlistarmann og er af leikkonunni og svipurinn er fremur alvörugefinn, ólíkur því brosi og því fjöri sem einkennir Eddu Heiðrúnu við fyrstu kynni. Ég spurði hana um fyrstu minningar hennar tengdar benskuárunum:

"Ég er fædd á Akranesi árið 1957 en flutti þaðan með foreldrum mínum og systkinum til Reykjavíkur þegar ég var rétt rúmlega þriggja ára. Foreldrar mínir eru Halldór Sigurður Backman, fyrrverandi byggingarmeistari, og Jóhanna Dagfríður Arnmundsdóttir. Mamma er ættuð af Skaganum en pabbi var fæddur hér í Reykjavík. Við erum fjögur systkinin. Hin eru Arnmundur Sævar, hæstaréttarlögmaður, Inga Jónína, söngkona og Ernst Jóhannes, auglýsingateiknari.

Ég var oft uppi á Skaga hjá afa og ömmu á sumrin og fór kannski í svona mánuð í það sem ég kalla fitunarbúðir. Amma lagði mikið upp úr því að ég færi bústin heim. Ég var voðaleg písl sem lítið barn. Það var mjög notalegt að dvelja hjá afa og ömmu og andlega næringu fékk maður ómælda og ekki amalegt að fá að príla um í rabbabaragörðum og að stela einni og einni rófu. Foreldrar mínir voru vinstri sinnuð. Pabbi átti stóran þátt í uppbyggingu á félagsheimilinu Rein. Það var mikil félagsskapur í kringum pólitíska starfið í gamla daga og heimili okkar var oft eins og hótel fyrir sósíalista af Vesturlandi. Það var mikil félagsandi ríkjandi og oft ýmsar heimspekilegar vangaveltur lengi fram eftir."

Manstu hvenær þú fórst fyrst í leikhús?

"Ég var átta eða níu ára. Þá höfðum við búið í Reykjavík í nokkur ár. Fyrstu leikritin sem ég sá voru Dýrin í Hálsaskógi og Ferðin til tunglsins í Þjóðleikhúsinu. Svo fór ég að fara reglulega í leikhús þegar ég var orðin nemandi í Gagnfræðaskóla Réttarholts. Fyrsta skiptið sem ég fór í Þjóðleikhúsið eftir að ég var komin í skólann var í fyrsta bekk og þá lét ég sauma á mig gulan kjól til hátíðabrigða, því það var svo fínt að fara í leikhús."

Höfðu foreldrar þínir áhuga á leiklist?

"Já, og pabbi var alltaf með annan fótinn í áhugaleikhúsinu uppi á Skaga. Við bjuggum á Skagabraut 5 og þar bjuggu einnig Ásgerður Gísladóttir og Sigurður Guðmundsson, lögga, og Ása var framarlega í leikfélaginu og ég sótti ýmsar hugmyndir til fólks í kringum mig og varð fyrir áhrifum frá þessu fólki mjög snemma. Ásu fannst alltaf að ég ætti mjög auðvelt með að setja mig inn í aðstæður annarra og hefur stundum minnt mig á það síðar.

Ég held ég hafi fyrst áttað mig á því að leikarastarfið var möguleiki þegar ég skoðaði myndir frá áhugaleikfélaginu á Skaganum, mjög skemmtilegar myndir. Þá grunaði mig að ég ætti eftir að leggja þetta fyrir mig síðar. Í Gagnfræðaskólanum byrjaði ég svolítið að fást við leiklist. Við vorum saman í bekk ég og Bergþór Pálsson og ákváðum að fara á námskeið í leiklist. Þetta voru aðallega raddæfingar og upplestur. Okkur fannst æfingarnar sprenghlægilegar og gátum illa einbeitt okkur en hlógum þeim mun meira. Mér fannst nú erfitt að koma fram og var svolítið taugaóstyrk og ætlaði að læra þetta betur."

Hlutverk í leikhúsum, kvikmyndum og sjónvarpi

Er það þá í framhaldi af þessum fyrstu kynnum þínum af leiklistinni að þú ákveður að gerast leikkona?

"Nei, það var síðar. Ég gerði það upp við mig þegar ég fór til Ólafsvíkur og var þar við kennslu einn vetur eftir stúdentspróf úr menntaskóla. Þá fann ég að þetta togaði í mig og ég ákvað að fara í inntökupróf, með gott veganesti þaðan að vestan og innritaðist í Leiklistarskóla Íslands árið 1978 og útskrifast síðan árið 1982. Helstu kennarar við skólann á þessum árum voru Helga Hjörvar, Hilde Helgason, Guðmunda Elíasdóttir, sem kenndi mér söng, Fjóla Ólafsdóttir, Arnar Jónsson, Sigmundur Örn Arngrímsson, Hallmar Sigurðsson, Eyvindur Erlendsson og Ritvu Siikala, finnsk leikstýra.

Í Leiklistarskólanum var kennd leiklistarsaga og svo undirstöðuatriðin og tæknileg fög, leiktúlkun, spuni, raddbeiting, upplestur og svo voru einkatímar í leikfimi og gífurlega mikil áhersla lögð á líkamlega færni. Námið reyndist mér ákaflega vel. Það tók mig næstu árin að vinna síðan úr þessu öllu. Leiklistarskólinn er alltaf að verða betri og betri. Skólinn er að mínu mati mjög góður skóli. Hann hefur sannað það og sýnt. Úr honum hafa útskrifast mjög góðir leikarar en auðvitað er það undir hverjum og einum komið hvernig hann vinnur úr sínu."

Og fljótlega eftir að þú útskrifaðist frá Leiklistarskólanum ertu komin í hlutverk hjá leikhúsunum?

"Já. Ég byrjaði strax að leika, byrjaði nú rólega. Debúteraði í Árdísi, í Hart í bak eftir Jökul Jakobsson, í Iðnó. Þaðan fór ég síðan upp í Þjóðleikhús í Gæjar og píur, Benedikt Árnason leikstýrði því. Svo byrjaði ballið."

Og þá ertu orðin fastráðin leikkona?

"Nei, nei. Ég hef aldrei verið fastráðin utan tvisvar sinnum, eitt ár í senn. Það var ekki í tísku þá að vera fastráðin, ég var bara lausráðin. Jú, jú, ég hafði verkefni yfir veturinn, síðan liðu kannski nokkrar vikur að minna var við að vera. Ég vann mikið á Galleríi Borg á sumrin til að eiga peninga yfir sumartímann".

Er það ekki um eða eftir miðjan níunda áratuginn að þú ert í tveim íslenskum kvikmyndum og í stórum hlutverkum í þeim báðum?

"Jú. Ég var með í tveim kvikmyndum sumarið 1985, Svart og sykurlaust og Eins og skepnan deyr. Leikhópurinn Svart og sykurlaust stóð að gerð myndarinnar ásamt Lutz Konermann, þýskum leikstjóra. Við ferðuðumst um Ítalíu vítt og breitt við tökur á myndinni og þetta var frábær reynsla og skemmtilegur tími í alla staði. Eins og skepnan deyr var að mestu tekin fyrir austan, á Loðmundarfirði. Aðstæður við tökur voru alveg hörmulegar. Við vorum að kúldrast þarna tuttugu manns í alltof litlum húsakynnum. Það voru mjög erfiðar aðstæður, slæmt veður og mjög erfitt um vik. En, þegar maður lítur til baka, góð reynsla.

Eftir að ég hafði verið með í Gæjar og píur fékk ég svo stórt hlutverk í leikriti Ólafs Hauks Símonarssonar, Milli skinns og hörunds, haustið 1985. Þá fór ég að starfa með Hinu leikhúsinu í Hryllingsbúðinni, en það var frjálst leikhús og rekið af Sigurjóni Sighvatssyni og Páli Baldvini Baldvinssyni. Það var dálítið af öðrum toga. Þarna kom leikhús sem bjó utan um sig verksmiðju. Þetta varð feikilega vinsæl sýning, sýningar urðu yfir eitt hundrað og það var sýnt í Gamla Bíói. Þarna byrjaði ég að syngja. Þegar sýningum lauk á Hryllingsbúðinni hófust sýningar á Rauðhóla Ransí, bresku leikriti og þar lék ég Rauðhóla Ransí og þurfti að læra wrestling-tækni. Það var svo árið l987 að ég var með í sjónvarpskvikmynd hjá ríkissjónvarpinu og það sama ár er ég svo í stóru hlutverki í Djöflaeyjunni sem sýnd var í skemmu Leikfélagsins, þar sem Bæjarútgerðin hafði áður verið til húsa, og fyrir fullu húsi eina tvo vetur. Þá tók við hlutverk í Vesalingunum, jólaleikriti Þjóðleikhússins um jólin 1987. Árið eftir lék ég Columbínu í Lygaranum, ítölsku verki sem fékk hræðilega útreið og litla aðsókn. Þetta var mjög krefjandi hlutverk sem gaman var að fást við. Sumarið 1988 var tekið upp sjónvarpsleikrit eftir Svövu Jakobsdóttur, Næturganga, og þar var ég í stóru hlutverki. Það var síðan á dagskrá hjá ríkissjónvarpinu þá um haustið og það sama haust er ég með hlutverk í Sveitasinfóníunni, eftir Ragnar Arnalds, í Iðnó. Og síðar um veturinn í Sjang og Eng sem fjallar um síamstvíbura sem voru skemmtikraftar og það var undir lokin í Iðnó, rétt áður en Leikfélagið flutti yfir í Borgarleikhúsið."

Var það ekki lærdómsríkt fyrir þig, unga leikkonu að fá að starfa í Iðnó og kynnast þessu rótgróna leikhúsi?

"Jú, það var mjög ánægjulegt og lærdómsríkt. Það þurfti ekki alltaf mikla peninga og stóra sali til að gera þar skemmtileg verk. Ég sá þar ýmsar ákaflega skemmtilegar sýningar eins og t.d. Saumastofuna, Kirsuberjagarðinn, Dag vonar og Sölku Völku. Guðmundur Pálsson og Sigríður Hagalín voru góðir vinir mínir. Við störfuðum mikið saman í Skemmunni t.d. í Djöflaeyjunni. Það var ómetanlegt. Svo var flutt í Borgarleikhúsið haustið 1989. Ég lék þá Vegmeyju í Höll sumarlandsins, í opnunarsýningunni á stóra sviðinu. Mér finnst stóra sviðið í Borgarleikhúsinu alveg stórkostlegt og það er gaman að standa á því sviði. Það er erfitt, sviðið er breitt og það er djúpt, en að sama skapi er það ögrandi og það er þannig sem mér finnst að leiksvið eigi að vera. Þetta var spennandi tími og að stíga þar fyrstu skrefin á nýju sviði, í nýju leikhúsi var stórkostlegt."

Hélstu síðan áfram að leika í Borgarleikhúsinu?

"Jú, síðar, en árið 1990 fer ég á fastan samning í eitt ár hjá Þjóðleikhúsinu og var með í Rómeó og Júlía og lék þar söngkonu. Það hefur verið sérstakt ánægjuefni að fá að taka þátt í íslenskum söngleikjum sbr. Evu Lúnu en Egill Ólafsson samdi tónlistina, hún var frábær. Mér fannst Egill stórlega vanmetinn fyrir sinn þátt í verkinu.

Sumarið 1990 fór ég til Rússlands og var þar í fimm vikur að kynna mér leiklist. Ég fékk þá Stefaníustyrkinn, úr minningarsjóði Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu, og ég fór og skoðaði leikhús í Moskvu og Leningrad. Það var mjög lærdómsrík för. Í Þjóðleikhúsinu lék ég eftir áramótin 90-91 í leikriti Þórunnar Sigurðardóttur, Elín, Helga og Guðríður. Þá um vorið 91 byrjuðum við að æfa leikrit eftir Jim Cartwright, Stræti. Um sumarið rifti ég samningi af þeirri einföldu ástæðu að ég var ósammála Þjóðleikhússtjóra og svo pakkaði ég saman og fór mínar eigin leiðir. Fór ég þá aftur til Borgarleikhúsins og lék þar Elmíru í Tartuffe eftir Moliére. Síðan var ég áfram í Borgarleikhúsinu næsta vetur 92-93 og með hlutverk í Spanskflugunni og í Evu Lúnu og þaðan fór ég svo til frjálsa leikhússins Frú Emilíu og réð mig þangað í tvö ár og átti þar ákaflega gott samstarf við Guðjón Petersen, Guðjón Reynisson, Hafliða Arngrímsson, Helgu Stefánsdóttur og Elín Eddu Árnadóttur. Þar lék ég Lady Macbeth og Vörju í Kirsuberjagarðinum í leikstjórn Guðjóns Petersen og síðast en ekki síst í óperu eftir Hjálmar Ragnarsson, Rhodemenía palmata, sem einnig var stórlega vanmetin og við texta eftir Halldór Laxness, þar lék ég aðalkvenhlutverkið. Í mínum huga er það menningarslys að Frú Emilíu skyldi ekki vera gert kleift að halda áfram með sína metnaðarfullu starfsemi í Héðinshúsinu. Og þaðan lá leiðin aftur í Borgarleikhúsið þar sem allur leikhópurinn ásamt leikstjóra setti upp söngleikinn Kabarett og ég lék Sallý Bowles. Eftir að þeirri sýningu lauk eða um haustið 95 er ég aftur komin til Þjóðleikhússins og þá í hlutverki Helgu í Þrek og tár, leikriti Ólafs Hauks, og þá um veturinn er ég einnig í tveim öðrum leikritum í Þjóðleikhúsinu, lék Elvíru í Don Juan og Seliu í Sem yður þóknast í leikstjórn Guðjóns Petersen. Þá hef ég leiklesið heilmikið í teiknimyndum fyrir myndbönd og stærri myndir eins og Aladdín, Lion King og Hringjarann, Stöð 2 og Sjónvarpið og nýlega er búið að taka upp nýjan framhaldsþátt á Stöð 2, Fornbókabúðin, og þar er ég með hlutverk. Guðmundur Ólafsson og Jóhann Sigurðsson sömdu handritið og Jóhann leikstýrir. Fyrsti þátturinn er sýndur núna um páskana. Sumarið 1996 lék ég í finnsk- fransk-íslenskri sjónvarpsþáttaröð. Þetta eru þættir fyrir unglinga og fjalla um fólk á hestaferð yfir hálendi Íslands."

Söngkona

Auðvitað verður ferill Eddu Heiðrúnar í leikhúsinu ekki rakinn án þess að minnst sé sönginn, eins ríkur þáttur og hann hefur verið í gegnum árin í ýmsum verkum sem hún hefur tekið þátt í og þegar hann barst í tal brosti Edda Heiðrún og rifjaði upp margar ánægjulegar stundir:

"Það er skemmst frá því að segja að söngurinn fór að stjórna mínu lífi að nokkru leyti þegar ég byrjaði í Hryllingsbúðinni. Svo stofnaði ég vorið 1990 sönghóp sem hét Blái hatturinn, ásamt Ásu Hlín Svavarsdóttur, Jóhanni G. Jóhannssyni, Agli Ólafssyni og Jóhanni Sigurðarsyni og við störfuðum mjög ötullega í þrjú ár og gerðum t.d. sjónvarpsþátt sem fluttur var um jólin 1994. Við ferðuðumst víða um landið og fórum nokkrum sinnum í söngferðalög til útlanda. Hópurinn varð til þegar minnst var 50 ára hersetu á Íslandi. Við bjuggum til prógram sem var flutt í Norræna húsinu af því tilefni og dagskrá sem við nefndum Lög og ljóð í stríði og var nokkurs konar samanburður á því hvað menn voru að yrkja og svo dægurlagamúsík sem flæddi yfir heiminn frá Ameríku á stríðsárunum. Við gerðum fleiri dagskrár. Við sungum íslenskt efni frumsamið, t.d í sjónvarpsþáttum. Þetta var góður hópur hæfileikafólks og samstarfið einstaklega gott. Þá hef ég sungið inn á nokkrar plötur t.d á barnaplötu og plötur hafa verið gefnar út í tengslum við söngleikina sem ég hef tekið þátt í, Hryllingsbúðina, Kabarett og Evu Lúnu. Það er svo sem ágætt að hafa þetta í bakhöndinni, gott að hafa sönginn með, hann er stór þáttur í leiklistinni. Ég hefði viljað læra meiri söng. Ég var einn vetur í Söngskólanum og í píanónámi".

"Hún er einn af okkar bestu og eftirsóttustu leikurum"

Hvert nýtt hlutverk sem Edda Heiðrún túlkar vekur jafnan athygli leikhúsáhugafólks. Í leikdómi um hina vönduðu og áhrifamiklu uppfærslu Þjóðleikhússins á leikriti Henriks Ibsen, Villiöndinni, segir Soffía Auður Birgisdóttir í Morgunblaðinu 28. desember síðastliðin: "Edda Heiðrún Backman leikur Gínu eiginkonu Hjálmars Eklands af reisn og fagmennsku. Gína er í túlkun hennar hlý, umhyggjusöm og raunsæ eiginkona og móðir sem vill sínum allt það besta og slær striki yfir augljósa veikleika eiginmannsins. Edda Heiðrún er mjög trúverðug í hlutverkinu." Og Auður Eydal segir í leikdómi í DV: "Edda Heiðrún og Steinunn Ólína veita körlunum sterkan mótleik. Konurnar hans Ibsens eru sem endranær aflvaki og kvika verksins og hér eru hlutverkin sannarlega í góðum höndum". Jón Viðar Jónsson, leiklistargagnrýnandi Dagljóss í ríkissjónvarpinu segir aðspurður um leikkonuna Eddu Heiðrúnu Backman : "Edda Heiðrún hefur í raun og veru alla kosti sem prýða einn leikara. Hún hefur feikilega örugga tækni sem hún kann að beita af smekkvísi, tilfinningalegt næmi og innsæi eru í góðu lagi, svo er hún greind. Hún veit að hvert hlutverk verður að vinna á þess eigin forsendum og að leiklistin snýst ekki um að halda sýningu á persónu leikarans, hversu töfrandi eða áhugaverð sem hún kann að vera. Hún er auðmjúk gagnvart verkefninu sem því miður er meira en hægt er að segja um alla kollega hennar. Hún á sjálfsagt eftir að ná meiri tilfinningadýpt en hún hefur gert hingað til, það er nokkuð sem kemur með þroska og aldri. Ég er reyndar ekki viss um að leikhúsið hafi alltaf búið nógu vel að henni, kannski er það eitthvað að breytast núna. Ef svo er efast ég ekki um að við eigum eftir að sjá hana gera mjög góða hluti í nánustu framtíð."

Ása Hlín Svavarsdóttir, leikstjóri og samstarfskona Eddu Heiðrúnar til margra ára, segir um kynni sín af leikkonunni: "Edda Heiðrún vinkona mín hefur óvenjumarga hæfileika og það er þjálfunarefni fyrir meðaljónu eins og mig að fyllast ekki minnimáttakend nálægt henni. Það er eitt í hennar fari sem ég hef sérstakt dálæti á og það er kímnigáfa hennar. Nú, Edda syngur eins og engill, það vita nú allir. Hún er mjög góður dansari. Edda er held ég einn besti kokkur sem ég hef komist í tæri við. Edda prjónar betur en ég og prjóna ég þó vel. Sem leikari hefur Edda náð langt og verðskuldar það svo sannarlega. Hún hefur það sem sönnum listamanni sæmir, er tilbúin að leggja allt í sölurnar, kastar sér fram af bjargbrúninni, hvenær sem þörf krefur og hún uppsker svo sannarlega sem hún sáir. Hún er einn af okkar bestu og eftirsóttustu leikurum."

Egill Ólafsson, leikari og söngvari hefur mikið starfað með Eddu Heiðrúnu á liðnum árum. Hann segir aðspurður um samstarf þeirra: "Edda Heiðrún er frábær listamaður. Hún hefur lag á að gera ávallt betur en ver. Hún hefur fallega afstöðu til vinnunnar og er stöðugt að. Mér er minnisstætt hvernig hún hefur komplimenterað fáeina söngva sem ég hef samið fyrir leikhús og hún hefur sungið. Hún er fágætur leikari sem hefur flest á valdi sínu, hefur brimandi skaphöfn, en er engu að síður hlý og aðlaðandi."

Þegar ég kvaddi Eddu Heiðrúnu sá ég ekki betur en að hún væri þegar farin að lifa sig inn í hlutverk Goldu í Fiðlaranum á þakinu sem er frumsýnd í Þjóðleikhúsinu um miðjan aprílmánuð. Hún er listamaður sem sannarlega er að gera góða hluti . . .

Morgunblaðið/Þorkell EDDA Heiðrún verður aðalhlutverkinu Goldu í Fiðlaranum á þakinu sem Þjóðleikhúsið er að frumsýna um þessar mundir.Í Þreki og tárum eftir Ólaf Hauk Símonarson með Erni Árnasyni og Eddu Arnljótsdóttur.Í Villiöndinni með Pálma Gestssyni og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur en að baki þeim standa Gunnar Eyjólfsson, Sigurður Sigurjónsson, Sigurður Skúlason og Magnús Ragnarsson.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.