BÓKAFORLAGIÐ Vaka-Helgafell hefur ákveðið að minnast 95 ára afmælis Halldórs Laxness með ýmsum hætti fram á næsta vor. Í tilkynningu segir, að afmælisár Halldórs Laxness muni því standa yfir frá 23. apríl 1997 til jafnlengdar næsta árs. Um verði að ræða nýjar útgáfur á verkum hans og viðburði af margvíslegum toga, ýmist sem forlagið stendur að eitt og sér eða í samvinnu við aðra.

Laxness

- ár

BÓKAFORLAGIÐ Vaka-Helgafell hefur ákveðið að minnast 95 ára afmælis Halldórs Laxness með ýmsum hætti fram á næsta vor. Í tilkynningu segir, að afmælisár Halldórs Laxness muni því standa yfir frá 23. apríl 1997 til jafnlengdar næsta árs. Um verði að ræða nýjar útgáfur á verkum hans og viðburði af margvíslegum toga, ýmist sem forlagið stendur að eitt og sér eða í samvinnu við aðra. Af útgáfum má nefna tilvitnanabók í skáldverk Laxness, bók með úrvali af ljóðum hans og málverkum við þau en jafnframt er verið að undirbúa rafræna útgáfu á skáldverkum Halldórs Laxness, auk þess sem heimasíða um skáldið og verkin er í vinnslu. Fyrirlestrar um ævi Halldórs og verk verða fluttir mánaðarlega í Norræna húsinu á vegum Vöku-Helgafells og Laxnesskúbbsins og sömuleiðis má nefna maraþonupplestur úr verkum skáldsins og ljóðadagskrá.

Tilvitnanir, ljóð, smásögur og kiljur.

Á árinu mun Vaka-Helgafell standa fyrir blómlegri útgáfu á verkum Halldórs Laxness. Gefin verður út bók með tilvitnunum í skáldverk hans sem flokkaðar verða í alfræðistíl. Þannig verður hægt að fletta upp á fjölmörgum tilvitnunum um ást, fegurð og börn svo nokkuð sé nefnt.

Forlagið mun fá ýmsa valinkunna listamenn til að mála myndir við ljóð skáldsins og birta í sérstakri bók með úrvali af kvæðum hans. Þar verður í fyrsta skipti prentað í bók eftir hann Maríukvæði hans frá þriðja áratugnum sem nýlega kom í leitirnar.

Í tilefni afmælisins verða smásögur Halldórs Laxness gefnar út í nýjum búningi og verður þá loksins hægt að fá allar smásögur skáldsins aðgengilegar á einum stað.

Í tilefni af því að í haust verða liðin 70 ár frá því að skáldsagan Vefarinn mikli frá Kasmír kom út hefur forlagið gefið hana út í kiljuútgáfu og er það fjórða skáldaga Halldórs sem kemur út í því nýja formi. Þá mun forlagið endurútgefa tíu af verkum hans í hefðbundnum búningi ritsafns skáldsins.

Fyrirlestaröð

Í maí hefst fyrirlestraröð í Norræna húsinu þar sem innlendir og erlendir fræðimenn og skáld fjalla í hverjum mánuði um feril Halldórs Laxness. Matthías Johannessen skáld og ritstjóri ríður á vaðið 22. maí. Hann mun þar greina frá samtölum sínum við skáldið sem birtust í bókinni Skeggræður gegnum tíðina og víðar.

Þann 19. júní mun Skúli Björn Gunnarsson fjalla um handrit Halldórs Laxness sem afhent verða Landsbókasafninu til varðveislu, en þar er margt forvitnilegt að finna. Skúli Björn stundar framhaldsnám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en hefur jafnframt unnið við að flokka og koma reiðu á handrit skáldsins í safninu. Svo skemmtilega vill til að hann hlaut fyrstur manna Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness árið 1996 fyrir smásagnasafnið Lífsklukkan tifar.

Ljóðadagskrá.

Vaka-Helgafell mun í haust standa fyrir dagskrá þar sem leikarar og söngvarar flytja ljóð Halldórs Laxness. Ljóðin hafa staðið í skugga hinna miklu skáldsagna Halldórs sem færðu honum Nóbelsverðlaunin á sínum tíma en ljóðagerðin er engu að síður merkur þáttur í höfundarverki hans. Nægir þar að nefna Únglínginn í skóginum frá þriðja áratugnum þar sem súrrealisma gætir í fyrsta sinn í íslenskum kveðskap. Þá hafa mörg lög við kvæði hans orðið fleyg með þjóðinni, t.d. Maístjarnan, Hjá lygnri móðu og Íslenskt vögguljóð á hörpu.

Verðlaun og heimasíða

Árið 1996 voru Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness afhent í fyrsta sinn. Þau verða afhent öðru sinni á hausti komandi en frestur til að skila handritum rennur út 15. maí nk. Vaka-Helgafell stendur að verðlaununum og leggur fram verðlaunaféð sem nemur hálfri milljón króna.

Vaka-Helgafell vinnur nú að gerð heimasíðu Halldórs Laxness á alnetinu. Þar verður að finna margvíslegar upplýsingar um skáldið á íslensku og ensku. Stefnt er að því að síðan verði fullbúin síðar á árinu.

Rafræn útgáfa

Undanfarin sjö ár hefur Vaka- Helgafell undirbúið rafræna útgáfu á verkum skáldsins en forlagið hefur á þeim tíma unnið markvisst að því að koma skáldsögum hans og kvæðum á tölvutækt form. Slík útgáfa myndi opna fjölmargar nýjar leiðir í rannsóknum á verkum Halldórs. Samningaviðræður við Orðabók Háskóla Íslands og Eirík Rögnvaldsson prófessor um þessa útgáfu eru nú á lokastigi. Eiríkur var í hópi þeirra sem unnu hliðstætt verkefni, Orðstöðulykil Íslendingasagna, nema hvað textinn sem verður í orðstöðulykli Halldórs Laxness er meiri að vöxtum. Íslendingasögurnar eru rúmlega fimm milljón tölvubæti en skáldverk Halldórs ein eru á níundu milljón bæta. Fjárhagsáætlun verksins hljóðar upp á nærri tíu milljónir króna.

Lestur í bókabúðum.

Á afmælisdaginn munu leikarar á vegum Vöku-Helgafells lesa úr verkum Halldórs Laxness í þremur bókabúðum í Reykjavík. Lesið verður í Eymundsson í Kringlunni og Austurstræti og í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi.

Síðar á árinu segir í tilkynningu Vöku-Helgafells verður efnt til maraþonsupplestrar úr verkum skáldsins þar sem lærðir og leikir lesa brot úr þeim verkum Halldórs Laxness sem þeir hafa dálæti á. Þátttakendur munu koma hvaðanæva að úr þjóðfélaginu og stendur lesturinn yfir í heilan dag.

Kvikmyndasýningar

Í haust munu Vaka-Helgafell og kvikmyndahúsið Regnboginn efna til kvikmyndahátíðar þar sem sýndar verða bíómyndir sem gerðar hafa verið eftir verkum Halldórs Laxness.

Leikrit og ritgerðasamkeppni.

Þann 11. apríl sl. frumsýndi Leikfélag Akureyrar leikgerð Halldórs E. Laxness og Trausta Ólafssonar á skáldsögu Nóbelsskáldsins, Vefaranum mikla frá Kasmír. Af því tilefni efndu leikfélagið og Vaka- Helgafell til ritgerðasamkeppni þar sem öllum framhaldsskólanemum landsins var heimil þátttaka. Úrslit voru kunngerð eftir frumsýningu leikritsins og voru þrjár ritgerðir verðlaunaðar. Vaka-Helgafell gaf verðlaunin og hlutu sigurvegararnir þrír hver um sig helstu verk Halldórs Laxness.