Skagaströnd: Adolf J. Berndsen segir af sér oddvitastörfum Skagaströnd. ADOLF J. Berndsen, oddviti Höfðahrepps undanfarin ár, sagði af sér embættinu á fundi hreppsnefndar 5. júní síðastliðinn.

Skagaströnd: Adolf J. Berndsen segir af sér oddvitastörfum Skagaströnd.

ADOLF J. Berndsen, oddviti Höfðahrepps undanfarin ár, sagði af sér embættinu á fundi hreppsnefndar 5. júní síðastliðinn. Á fundinum gerði Adolf grein fyrir ákvörðun sinni og samdægurs sendi hann greinargerð sína til allra íbúa Skagastrandar.

Í greinargerðinni kemur fram að undanfarin kjörtímabil hafa Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur gert með sér samkomulag við upphaf hvers kjörtímabils um oddvita kjör og fleira. Á síðasta ári sleit fulltrúi Alþýðuflokksins samstarfinu og myndaði nýjan meirihluta með fulltrúum Framsóknarflokks og Alþýðubandalags. Lagði nýi meirihlutinn áherslu á að Adolf segði af sér oddvitastarfinu, en hann neitaði og fékk úrskurð félagsmálaráðuneytis um að hann gæti gegnt embættinu til loka kjörtímabilsins.

Í greinargerð Adolfs kemur einnig fram að núverandi meirihluti hafi gert eðlileg starfsskilyrði oddvita að engu með ýmsum samþykktum og bókunum. Því segi hann af sér oddvitastörfum.

Nýr oddviti var kjörinn Magnús B. Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokks í hreppsnefnd.

ÓB