Afvopnunartillögur NATO: Svara tæpast að vænta í Þýskalandsheimsókn Gorbatsjovs Bonn, Brussel. Reuter. GENNADÍJ Gerasímov, talsmaður sovéska utanríkisráðuneytisins, sagði á fundi með blaðamönnum í Bonn í gærdag að þess væri tæpast að vænta að Míkhaíl S.

Afvopnunartillögur NATO: Svara tæpast að vænta í Þýskalandsheimsókn Gorbatsjovs Bonn, Brussel. Reuter.

GENNADÍJ Gerasímov, talsmaður sovéska utanríkisráðuneytisins, sagði á fundi með blaðamönnum í Bonn í gærdag að þess væri tæpast að vænta að Míkhaíl S. Gorbatsjov, leiðtogi sovéskra kommúnista, kynnti nýjar tillögur í afvopnunarmálum er hann kemur í opinbera heimsókn til Vestur-Þýskalands á mánudag. Talsmaðurinn kvaðst og ekki eiga von á því að Gorbatsjov svaraði formlega tillögum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) um stórfelldan niðurskurð á sviði hins hefðbunda herafla í Evrópu á meðan hann dveldist í Vestur-Þýskalandi.

"Það er með öllu ástæðulaust að krefjast þess af Sovétmönnum að þeir svari tillögunum á meðan Gorbatsjov dvelst í Vestur-Þýskalandi," sagði Gennadíj Gerasímov en hann er staddur í Bonn til að undirbúa komu Sovétleiðtogans. Hann sagði að NATO-ríkin ættu enn eftir að útfæra tillögurnar nánar og minnti á að næsta lota Vínarviðræðnanna um niðurskurð á sviði hins hefðbunda herafla hæfist í septembermánuði. Tillögur Atlantshafsbandalagsins gera m.a. ráð fyrir stórfelldri fækkun hermanna, vígtóla og flugvéla í Evrópu. George Bush Bandaríkjaforseti kynnti tillögurnar á leiðtogafundi NATO í Brussel í síðasta mánuði og kvaðst telja aðunnt yrði að ganga frá sáttmála í þessa veru eftir sex til tólf mánuði. Talsmenn Sovétstjórnarinnar hafa látið í ljós efasemdir um að tímamörk þessi séu raunhæf.

Tveggja daga fundi varnarmálaráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins lauk í Brussel í gær. Í lokaályktun fundarins segir að bandalagið muni áfram reiða sig á traustar varnir og að leitast verði við að auka fjárframlög til þessa málaflokks.

Þorstein Ingólfsson, skrifstofustjóri Varnarmálskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sat ráðherrafundinn fyrir Íslands hönd. Í lokaályktuninni er ítrekað það markmið bandalagsríkjanna að framlög til varnarmála verði aukin um þrjú prósent á ári hverju umfram verðbólgu. Segir í yfirlýsingu fundarmanna að nauðsynlegt sé að auka framlög til þessa málaflokks og fullyrt að aðildarríkin hafi auðveldlega efni á því. NATOríkin settu sér þetta markmið fyrst árið 1977 en fjölmörg ríki hafa fram til þessa látið yfirlýsinguna nægja. Fyrir fundinn höfðu þær raddir heyrst að óraunhæft væri að auka framlög til þessa málaflokks í ljósi þeirrar þíðu sem ríkti í samskiptum austurs og vesturs nú um stundir.

Reuter