Geirsgata í jarðgöng og glerskálar í Austurstræti NÝJAR hugmyndir sem eiga að lífga upp gömlu vesturhöfnina íReykjavík og miðbæinn hafa verið kynntar í skipulagsnefnd, hafnarstjórn og á sérstökum kynningarfundi skipulagsnefndar með embættismönnum...

Geirsgata í jarðgöng og glerskálar í Austurstræti

NÝJAR hugmyndir sem eiga að lífga upp gömlu vesturhöfnina íReykjavík og miðbæinn hafa verið kynntar í skipulagsnefnd, hafnarstjórn og á sérstökum kynningarfundi skipulagsnefndar með embættismönnum borgarinnar, borgarfulltrúum og ýmsum nefndarfull trúum. Í tillögunum er meðal annars gert ráð fyrir uppfyllingu framan við miðbakkann í austurhluta gömlu hafnarinnar og að þar verði Geirsgatan lögð í jarðgöng allt frá Kalkofnsvegi að núverandi aðstöðu Akraborgar. Í Austurstræti eru uppi hugmyndir umað reisa glerskála eftir norðurhlið götunnar allt frá Lækjargötu að Aðalstræti.

Að sögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns skipulagsnefndar, hafa hugmyndir svipaðar þessum nýju tilögum verið til umfjöllunar í nefndinni áður en menn ekki verið á eitt sáttir um hvernig tengja ætti hafnarsvæðið við miðbæinn. Eftir kynnisferð skipulagsnefndar til Bandaríkjanna urðu nefndarmenn sammála um að Geirsgatan yrði að liggja í jarðgöngum ef tengja ætti miðbærinn hafnarsvæðinu.

"Ég sé það sem stórkostlegt tækifæri í náinni framtíð þegar hlutverk austurhluta gömlu hafnarinnar breytist enn frekar að miðbærinn tengist höfninni. Það eru ekki allar borgir sem hafa sama möguleika og við og þessvegna eigum við að nýta okkur þessa einstöku aðstöðu," sagði Vilhjálmur.

"Það er ekki þar með sagt að hafnsækin starfsemi verði ekki áfram í austurhöfninni því gert er ráð fyrir að Faxamarkaðurinn verði áfram á sínum stað og einnig fiskihöfnin í vesturhluta hafnarinnar enda sækir fólk á hafnarsvæðið til að fylgjast með því sem þar er að gerast.

Ef vel tekst til þá er ég sannfærður um að tengingin á eftir að virka, sem vítamínsprauta á miðbæinn."

Við Tryggvagötu 13 verður reist bifreiðageymsla á sex hæðum, sem rúma mun um 270 bíla með tengingu við Tryggvagötu 15. Gert er ráð fyrir að byggingarframkvæmdir hefjist á næsta ári. Ráðgert er að flytja aðstöðu Akraborgar yfir á Ingólfsgarð og afgreiðsla Skipaútgerðar ríkisins mun væntanlega flytja í Sundahöfn eða í Klettsvík. Hefur sú hugmynd verið sett fram að í núverandi húsnæði skipaútgerðarinnar mætti til dæmis koma upp sædýrasafni.

"Ég sé fyrir mér að í framtíðinni verði í austurhluta hafnarinnar veitingahús, smáverslanir og skrifstofur, til dæmis í Hafnarhúsinu en þar eru uppi hugmyndir um að setja hvolfþak úr gleri yfir portið sem er í miðju húsinu og gera þar skemmtilegan garð.

Þar sem mætti jafnvel hugsa sér að koma upp vísi að innimark aði," sagði Viljálmur. "Þá má nefna að jarðhæðin í Tollstöðvarhúsinu er nýtt sem vörugeymsla en því mætti auðveldlega breyta og opna hliðina sem snýr að miðbakkanum."

Gert er ráð fyrir nýrri endastöð Strætisvagna Reykjavíkur, þarsem nú er ekið upp á Tollstöðvarhúsið, og mun nýja byggingin ná að húsunum sem standa við Hafnarstræti. Í því húsnæði verður bifreiðageymsla fyrir um 400 bíla.

"Við höfum miklar áhyggjur af Austurstræti sem okkur finnst hálf dautt, sérstaklega að norðanverðu þar sem allir bankarnir eru," sagði Vilhjálmur. "Þar mætti koma upp glerskála framan við byggingarnar sem að einhverju leyti yrðu tengdir þeirri starfsemi sem fram fer innandyra, þar sem því verður við komið.

Þetta verður auðvitað ekki nema með fullum vilja þeirra aðila sem hlut eiga að máli og vilja taka þátt í þessari tilraun og þá í samstarfi við borgaryfirvöld. Í þessum glerbyggingum mætti koma upp söluskálum, kaffiaðstöðu eða skyndibitastöðum svo að eitthvað sé nefnt. Þá mætti hugsa sér að opna inn í kjallara Pósthússins og nýta hann betur en nú er gert.

Ég hef trú á að þannig mætti gjörbreyta götumyndinni í Austurstræti allt frá Lækjartorgi að Aðalstræti og skapa þar aðstöðu fyrir skemmtilegt mannlíf.

Ég vil undirstrika að þetta eru enn sem komið er hugmyndir sem eiga eftir að fá frekari umfjöllun hjá borgaryfirvöldum en ef þær fá stuðning þar, þá er næsta skref að koma á samvinnu og samstarfi við húseigendur um framgang mála strax í upphafi en það tel ég að sé mjög mikilvægt. Ef tryggja á raunhæfa uppbyggingu verðum við að vinna í nánu samráði við þá sem eiga að byggja og reka einhverja starfsemi í miðbænum."