Björn Roth sýnir í FÍM-salnum Myndlist Einar Hákonarson Í sýningarsal Félags ísl. myndlistarmanna við Garðastræti hefur Björn Roth opnað sýna fyrstu einkasýningu á Íslandi. Þar sýnir hann 20 olíumálverk, 11 vatnslitamyndir og 8 steinprentsmyndir.

Björn Roth sýnir í FÍM-salnum Myndlist Einar Hákonarson Í sýningarsal Félags ísl. myndlistarmanna við Garðastræti hefur Björn Roth opnað sýna fyrstu einkasýningu á Íslandi. Þar sýnir hann 20 olíumálverk, 11 vatnslitamyndir og 8 steinprentsmyndir. Málarinn ungi hefur hrifist af landslagi og málar dökkar landslags-stemmningar. Hann segir sjálfur að ekki sé um beinar fyrirmyndir að ræða heldur samansöfnuð áhrif sem hann vinnur úr.

Uppbygging myndanna er hefðbundin og skiptist oftast í forgrunn þar sem ýmsum smáhlutum er raðað til, fjalli eða hæð að baki, með himinn fyrir ofan. Litum er mjög stillt í hóf og oftast málar Björn eintóna myndir í brúnu eða gráu.

Á mig virkuðu málverkin ekki sérlega íslensk vegna litarins, en oft hefur verið sagt um íslenska myndlist að það sem gefi henni séreinkenni séu hinir björtu litir, sem landið býr yfir. Það er ánægjulegt að sjá að ungur málari, sem er að hefja sinn feril, skuli velja sér að mála landslag og reyna að bæta við þá hefð sem fyrirfinnst í landslags málverki hér á landi.

Að mínu mati var teikningin veikasti þáttur verkanna og hvorki spraututækni né þokukennt yfirborð náði að dylja það.

Að öðru leyti er þetta nokkuð áferðarfalleg sýning sem vert er að vekja athygli á.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Björn Roth við eitt af verkum sínum.