Ráðherrar funduðu með forsvarsmönnum Vestfjarðarfrystihúsa: Ríkisstjórnin sætti mikilli gagnrýni frá frystihúsamönnum VANDI þeirra 13 frystihúsa á Vestfjörðum sem í mestum rekstrarörðugleikum eiga var til umræðu á löngum fundi eigenda frystihúsanna og...

Ráðherrar funduðu með forsvarsmönnum Vestfjarðarfrystihúsa: Ríkisstjórnin sætti mikilli gagnrýni frá frystihúsamönnum

VANDI þeirra 13 frystihúsa á Vestfjörðum sem í mestum rekstrarörðugleikum eiga var til umræðu á löngum fundi eigenda frystihúsanna og forsvarsmanna viðkomandi bæjarfélaga á Vestfjörðum með Steingrími Hermannssyni, forsætisráðherra, og Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, í fyrradag. Auk þeirra voru sjóðsstjórar viðkomandi sjóða á fundinum. Að sögn forsætisráðherra liggur nú fyrir að Sambands frystihúsanna á Patreksfirði og Súgandafirði bíður nú vart nokkuð annað en gjaldþrot, nema til stórfelldra björgunaraðgerða verði gripið. Heimildir Morgunblaðsins herma að á þessum fundi hafi komið fram afar hörð gagnrýni á stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum, og munu forsvarsmenn Sambandsfrystihúsanna á Patreksfirði og Súgandafirði hafa gengið hvað harðast fram í gagnrýni sinni á forsætisráðherra, en þetta vildi hann ekki staðfesta í samtali við Morgunblaðið í gær.

Steingrímur sagði: "Staða þessara frystihúsa á Patreksfirði og Súgandafirði er voðalega erfið. Þessi tvö eru í langerfiðustu málunum, en ég hugsa að mál hinna leysist mjög fljótlega."

Steingrímur sagðist telja að bráð asti vandi frystihúsanna á Þingeyri og Bíldudal yrði leystur á næstunni með framlagi úr Hlutafjársjóðnum, og einnig vandi ýmissa annarra frystihúsa.

"Vitanlega var mikill óhugur í mönnum á fundinum, vegna þeirrar þróunar sem almennt er, og Vestfirðirnir eru þar í mjög slæmri stöðu," sagði Steingrímur. Hann sagði að samdrátturinn í þorskveiðunum kæmi afar hart niður á Vestfjörðun um, því þeir nytu ekki humarveiða, síldar eða loðnu. "Ég er satt að segja orðinn mjög áhyggjufullur út af almennri þróun þessara veiða, sem ég held að sé að verða afar hættuleg," sagði forsætisráðherra.

Steingrímur sagði að nú væri í raun og veru beðið eftir tillögum forsvarsmanna þeirra fjögurra eða fimm frystihúsa, sem í mestum vanda ættu á Vestfjörðunum. Þeir hefðu kosið að fara í greiðslustöðvun og á meðan svo væri, væru málin ekki í hendi Atvinnutryggingasjóðs eða Hlutafjársjóðs. "Það kom framá fundinum að þessir eigendur vilja ekki fara í gjaldþrot og þá verða þeir að koma með einhverja lausn sem gengur upp."

Þeir fundarmanna sem Morgunblaðið ræddi við í gær sögðu að reiði, sársauki og örvænting hefði einkennt fundinn, þar sem þeir sem talað hefðu máli þeirra fyrirtækja og bæjarfélaga sem verst stæðu, sæju ekki fram á neitt annað en gjaldþrot. Mun Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra, hafa sætt miklum ásökunum fyrir það sem gagnrýnendur hans sögðu vera vanefndir stjórnvalda á loforðum.

Verst er ástandið á Patreksfirði og á Suðureyri við Súgandafjörð. Þar blasir ekkert annað en gjaldþrot við og voru heimildarmenn Morgunblaðsins efins um að fyrirtækjunum yrði bjargað. Með sérstökum björgunaraðgerðum verður hægt að viðhalda starfsemi frystihúsanna á Bíldudal og Þingeyri um sinn, þótt óvíst sé hve lengi. Á Bolungarvík er þungt fyrir fæti og óvíst um framhaldið, skárra er ástandið á Súðavík þar sem staðan er þokkaleg sem stendur, en miklar fjárfestingar í gangi þar sem væntanlegur er nýr stór togari. Haldið er í horfinu á Flateyri og Tálknafirði. Ísafjarðar fyrirtækin standa einna best, en þar eru aftur á móti þjónustufyrirtæki eins og vélsmiðjur og fleiri í erfiðleikum. Einn viðmælandi blaðsins sagði um þetta ástand allt: "Þetta veldur örvæntingu fólks þar sem fyrirtækin eru verst stödd og kvíða alls staðar annars staðar, þar sem menn sjá sömu þróunina hvert sem litið er."