Vaxtalækkun á spariskírteinum ríkissjóðs FJÁRMÁLARÁÐUNEYTIÐ kynnti í gær lækkun á vöxtum á spariskírteinum ríkissjóðs.

Vaxtalækkun á spariskírteinum ríkissjóðs

FJÁRMÁLARÁÐUNEYTIÐ kynnti í gær lækkun á vöxtum á spariskírteinum ríkissjóðs. Vextir á spariskírteinum til 8 ára lækka úr 6,8% í 6%, vextir á spariskírteinum til 5 ára lækka úr 7% í 6% og vextir á skírteinum til 2 árs verða 5%. Þessi breyting á að taka gildi þann 1. júlí næstkomandi. Fram til þess tíma gefst fólki kostur á að gerast áskrifendur að spariskírteinum með 6,8 eða 7% vöxtum, sem gilda fram til næstu áramóta.

Að sögn Ólafs Ragnars Grímssonar fjámálaráðherra er það yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að vaxtastig spariskírteina ríkissjóðs verði ásamt vöxtum í samningum við lífeyrissjóðina leiðandi fyrir vaxtaþróunina í landinu. "Við höfum á undanförnum mánuðum lækkað vexti spariskírteinanna og á eftir hefur fylgt raunvaxtalækkun annarsstaðar í peningakerfinu," segir Ólafur. "Við ákváðum hins vegar fyrir nokkru síðan að framkvæma þessar lækkanir í færri og stærri stökkum en áður og þess vegna höfum við beðið með þessa lækkun í nokkurntíma. Hún hefur í för með sér, að raunvaxtastig spariskírteina ríkissjóðs er orðið sambærilegt við raunvaxtastig í ýmsum helstu viðskiptalöndum okkar."

Fjármálaráðherra segir, að vel hafi gengið að afla ríkissjóði lánsfjár innanlands það sem af er árinu. Frá áramótum til maíloka hafi verið seldir ríkisvíxlar fyrir 2 milljarða umfram innlausn. Á sama tíma hafi selst spariskírteini fyrir um einn milljarð króna, en innlausn þeirra hafi hinsvegar verið 1.280 milljónir króna. Sala ríkisvíxla og spariskírteina sé því nú 1,8 milljarður umfram innlausn en búast megi við að sú tala lækki þegar líður á árið vegna aukinnar innlausnar. Stefnt hafi verið að því, að innlend lánsfjáröflun yrði um 1,2 milljarðar króna og enn bendi ekkert til að sú áætlun standist ekki.