Hver er allt of uppgefinn eina nótt að kveða og vaka, láta óma einleikinn auðveldasta strenginn sinn, leggja frá sér lúðurinn, langspilið af hillu taka? Ljóð mitt aldrei of gott var öllum þeim, sem heyra vilja! Þeim ég lék til þóknunar, þegar fundum saman bar. Ég gat líka þagað þar þeim til geðs, sem ekkert skilja.


STEPHAN G. STEPHANSSON

HVER ER ALLT OF UPPGEFINN

- Brot -

Hver er allt of uppgefinn

eina nótt að kveða og vaka,

láta óma einleikinn

auðveldasta strenginn sinn,

leggja frá sér lúðurinn,

langspilið af hillu taka?Ljóð mitt aldrei of gott var

öllum þeim, sem heyra vilja!

Þeim ég lék til þóknunar,

þegar fundum saman bar.

Ég gat líka þagað þar

þeim til geðs, sem ekkert skilja.Nú skal strjúka hlýtt og hljótt

hönd við streng sem blær í viðnum,

grípa vorsins þrá og þrótt

­ þungafullt, en milt og rótt ­

úr þeim söng, sem sumarnótt

syngur djúpt í lækjarniðnum.Það er hollt að hafa átt

heiðra drauma vökunætur,

séð með vinum sínum þrátt

sólskins rönd um miðja nátt,

aukið degi í æviþátt,

aðrir þegar stóðu á fætur.

Stephan G. Stephansson, 1853-1927, var Skagfirðingur að uppruna en fluttist ungur til Vesturheims, fyrst til Bandaríkjanna, en síðan til Kanada og varð bóndi í Markerville í Albertafylki, þar sem hús hans er varðveitt. Hann ber höfuð og herðar yfir öll vestur-íslenzk skáld. Ljóð hans í anda raunsæisstefnu leiða í ljós einlæga jafnaðarstefnu, friðarboðskap og jafnframt gagnrýna efahyggju.