Í VIKUBYRJUN undirrituðu Íþróttabandalag Reykjavíkur og Ístak hf. samning um byggingu skautahallar í Laugardal og er gert ráð fyrir að mannvirkið verði afhent 25. febrúar á næsta ári. Þá er áætlað að verkinu verði lokið nema þeim þáttum sem hagkvæmara þykir að vinna að sumarlagi. Heildarstærð hallarinnar verður 3.277 fermetrar, þar af verður skautasvellið um 1.800 fermetrar.
MANNVIRKI Skautahöll í Laugardal Í VIKUBYRJUN undirrituðu Íþróttabandalag Reykjavíkur og Ístak hf. samning um byggingu skautahallar í Laugardal og er gert ráð fyrir að mannvirkið verði afhent 25. febrúar á næsta ári. Þá er áætlað að verkinu verði lokið nema þeim þáttum sem hagkvæmara þykir að vinna að sumarlagi.

Heildarstærð hallarinnar verður 3.277 fermetrar, þar af verður skautasvellið um 1.800 fermetrar. Húsið á að gegna jafnt þörfum til almennrar skautaiðkunar og æfinga og keppni skautafélaganna. Stefnt er að því að framkvæmdir trufli sem minnst æfingar og gert ráð fyrir að almenningur komist inn um áramót. Í húsinu, sem verður fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og tengist núverandi byggingu, er m.a. gert ráð fyrir veitingasal, skógeymslu og búningsklefum fyrir íþróttafélögin.

Rými verður fyrir 600 áhorfendur í sæti eða 1.000 í stæði. Samningsfjárhæðin er 180 millj. kr. og heildarbyggingarkostnaður er áætlaður 190 millj. króna.

Myndin er frá undirritun samningsins. F.v.: Kristján Örn Ingibergsson, gjaldkeri ÍBR, Reynir Ragnarsson, formaður ÍBR, Páll Sigurjónsson, forstjóri Ístaks, og Jónas Frímannsson frá Ístaki.

Morgunblaðið/Ásdís