SÁ HUGSUNARHÁTTUR sem stundum er merktur með orðinu póstmódernismi einkenndist af efa um möguleikann á að öðlast fullvissu og endanleg svör, en um leið viðleitni til trúnaðar við reglur rökfræðinnar án þess þó að þeim væri tekið sem hinum endanlega dómara um rétt og rangt.
HVAÐ Í ÓSKÖPUNUM VAR PÓSTMÓDERNISMI?EFTIR KRISTJÁN G. ARNGRÍMSSON

Nokkur orð í tilefni greinaflokks Kristjáns Kristjánssonar í Lesbók.

SÁ HUGSUNARHÁTTUR sem stund um er merktur með orðinu póstmódernismi einkenndist af efa um möguleikann á að öðlast fullvissu og endanleg svör, en um leið viðleitni til trúnaðar við reglur rökfræðinnar án þess þó að þeim væri tekið sem hinum endanlega dómara um rétt og rangt. Þess vegna fór það oft svo í póstmódernískri fræðamennsku oft sú að ekki var um annan grundvöll að ræða en textann sem verið var að skoða hverju sinni. Þessu má ekki rugla saman við "trú" á textann. Kannski hefur Joseph Schumpeter öðrum betur orðað það lífsviðhorf sem einkenndi póstmódernismann: "Að gera sér grein fyrir afstæðu gildi sannfæringar sinnar en hvika samt ekki frá henni er það sem greinir siðaðan mann frá skrælingjanum."1

Kristjáni Kristjánssyni var allmjög niðri fyrir í greinum sínum hér í Lesbók um hin skelfilegu afkvæmi póstmódernismans, kjaftastéttirnar, og virtist helst sem hann vildi hverfa aftur til Upplýsingatrúar. Reyndar er vandkvæðum bundið að tala um póstmódernisma; í fyrsta lagi var þetta aldrei úthugsuð stefna í einu eða neinu, nema kannski sem þyrnir í augum módernista, sem þótti hugmyndaforráðum sínum ógnað, og í öðru lagi er þessi hugsunarháttur orðinn næsta viðtekinn (að minnsta kosti meðal yngri kynslóða, þeirra sem stundum eru kenndar við upplýsingaöld hina nýrri ­ með litlu u-i) og því erfitt að tálga hann í óhlutbundið form heimspekilegrar umræðu. Dýpstu sporin sem hægt er að greina eftir póstmódernisman eru líklega svonefnd fjölhyggja, eða að minnsta kosti vonin um að hægt sé að komast hjá algildishyggju.

Einn meginmunur á módernisma og póstmódernisma er sá, að módernisminn leitaðist við að veita forskrift, það er að segja, smíða kenningar frá grunni, leggja forsendur að máttarvirkjum handa fólki að lifa eftir. En póstmódernisminn var í eðli sínu viðbrögð, maður brást við því sem er til og er gefið. Engin máttarvirki voru smíðuð, engin hugmyndafræði var búin til. Því var túlkun eitt meginhugtakið í póstmódernisma og að því leyti átti hann sér sterkar rætur í þýskri hughyggju 18. og 19. aldar. Póstmódernistar tóku alvarlega þá fullyrðingu þýska heimspekingsins G.W.F. Hegels að uglan hennar Mínervu hæfi sig ekki til flugs fyrr en rökkva tæki ­ og átti Hegel þá við að heimspekin (Mínerva var rómverska listar- og viskugyðjan) væri ætíð barn síns tíma og gæti ekki lagt línurnar heldur kæmi til sögunnar seinna og drægi ályktanir af og túlkaði það sem gerst hefði.2 Það væri ekki hlutverk heimspekinnar að móta veruleikann til samræmis við mannlega rökvísi heldur skyldi haft í huga að mennirnir eru hluti af þessum veruleika. Einn helsti spámaður póstmódernismans, kanadíski kúltúrrýnirinn Marshall McLuhan, tók í sama streng er hann lýsti hlutskipti nútímamannsins sem "baksýnisspegilsáhrifum": Við æðum svo hratt áfram að út um framrúðuna sést ekkert nema rugl, og aðeins það sem er í baksýnisspeglinum er skýrt.

Kristján nefndi að módernismi í arkitektúr hafi "dáið" þegar Pruitt-Igoe fjölbýlishúsasamsteypan í St. Louis var brotin niður 1972. Hann lét hins vegar undir höfuð leggjast að spyrja sig og lesanda sinn að því hvers vegna þessi hús voru eyðilögð. Manni dettur í hug að það kunni að hafa verið vegna þess að þau voru hönnuð í módernískum stíl en póstmódernistar hafi komist til valda í bæjarapparatinu í St. Lois og ákveðið að það væri ekki hægt að hafa þessi módernísku monster þarna, byggja yrði nýtt og póstmódernískt.

Málið var þó líklega öllu skiljanlegra og einfaldara og hafði ekkert með rökvísi eða heimspeki að gera. Þessi hús voru bara óíbúðarhæf, glæpatíðni í samsteypunni var hærri en annarstaðar og skemmdarverk tíðari. Var það vegna þess að íbúarnir voru meiri óþjóðalýður en íbúar annarra húsa? Eða hafði það eitthvað með húsin sjálf að gera? Við því er ekki til endanlegt svar, en mönnum datt í hug að ef til vill sköpuðu þessi hús íbúum sínum umhverfi sem væri mannfjandsamlegt.3

Hús er "vél til að búa í" skrifaði Le Corbusier, einn helsti boðberi módernísks arkitektúrs. Fyrst kemur húsið, svo fólkið. Fólkið lagast að húsinu, sem sjálft lýtur engu nema forræði formsins. Gegn þessu tefldu póstmódernískir arkitektar á borð við Aldo Rossi litum og ýmsu skemmtilegu skrauti. Það er að segja, húsið laut fegurðarskyni mannanna sem nota það, vegna þess að hús eru fyrir fólk, bæði að búa í og horfa á. Ennfremur tóku húsin oft mið af þeim húsum sem fyrir voru í grenndinni í stað þess að hreinar hugmyndir arkitektsins fengju að ráða ferðinni "ómengaðar" af hugsun genginna kynslóða.

Að þessu leyti sagði póstmódernisminn skilið við þá hugsjón módernistanna að í listum og hugvísindum skuli reyna að eltast við strangnákvæmni og ópersónuleika raunvísindanna, til þess að komast megi að "vísindalegum" niðurstöðum sem séu óháðar mannlegum þáttum og ytri skilyrðum og hljóti því að vera sannar. Í staðinn var viðurkennt að kenningar ­ og hús ­ eru bara til í mannheimum og að hvergi búa platónskar frummyndir í handanheimi sem öðlast má aðgang að með því að vera fullkomlega rökvís. Hér er komið að inntaki fjölhyggjunnar, sem er það, að svör eru aldrei endanleg, heldur ætíð bundin tíð og tíma og fordómum þess sem veitir þau.

Höfundurinn er blaðamaður á Morgunblaðinu.

1. Skv. tilvitnun Richard Rorty: "The Contingency of Liberal Community," í Contingency, irony, and solidarity. (Cambridge: Cambridge University Press, ártal), bls. 46.

2. Sjá G.W.F. Hegel: Hegel's Philosophy of Right, ensk þýðing eftir T.M. Knox. (Oxford: Oxford University Press, 1967), bls. 13.

3. Sjá t.d. Charles Jencks: The Language of Post-Modern Architecture, sjötta útgáfa. (New York: Rizzoli, 1991), bls. 22 o. áfr.