SAMKVÆMT könnun Manneldisráðs, sem gerð var fyrir nokkrum árum, borða margir aldraðir fremur einhæfa fæðu, auk þess sem ýmis bætiefni skortir oft í fæðunni. Með aldrinum minnkar orkuþörfin, en þar að auki á tilfinningin fyrir hungri það til að sljóvgast og í einstaka tilvikum tilfinningin fyrir mettu.
Vökvaskortur veldur sljóleika

SAMKVÆMT könnun Manneldisráðs, sem gerð var fyrir nokkrum árum, borða margir aldraðir fremur einhæfa fæðu, auk þess sem ýmis bætiefni skortir oft í fæðunni.

Með aldrinum minnkar orkuþörfin, en þar að auki á tilfinningin fyrir hungri það til að sljóvgast og í einstaka tilvikum tilfinningin fyrir mettu. Hjúkrunarfræðingar sem rætt var við voru sammála um, að einstæðir aldraðir karlar sem þarfnast lítillar sem engrar utanaðkomandi hjálpar, væru líklega í mestum áhættuhóp að verða fyrir næringarskorti. Konur í sömu aðstöðu virtust fremur bjarga sér og sömuleiðis hjón.

Í bókinni Árin eftir sextugt segir dr. Inga Þórsdóttir næringarfræðingur, að breytt bragðskyn geti einnig dregið úr matarlyst, svo og inntaka lyfja, sem sum hver geti haft slæm áhrif á næringarástand viðkomandi. Þar að auki breyti sum lyf nýtingu næringarefna, en þær upplýsingar eigi að vera hægt að fá hjá læknum eða í apótekum.

Út að ganga

Eitt af því sem getur valdið minnkandi matarlyst er minni hreyfing og útivera. Guðfinna Thorlacius, hjúkrunarfræðingur og starfsmaður þjónustuhóps aldraðra á Akureyri, bendir á að fólk hugsi ekki alltaf út í að það geti notað heimsókn til að fara í gönguferð með hinum aldraða. "Ef tími er til má að henni lokinni setjast niður yfir kaffibolla. Hreyfingin eykur bæði matarlyst viðkomandi og meltingarstarfsemi og þar með ristilsins, en hægðatregða er eitt af mestu vandamálum eldra fólks," segir hún og bætir við að hægðartregða geti leitt til algjörrar hægðarstíflunar og í versta falli innlagnar á spítala.

Í samtölum blaðamanns við hjúkrunarfræðinga kom í ljós, að þó nokkuð algengt er að aldraðir drekki ekki nægan vökva, sem getur leitt til þess að þeir verða ruglaðir og sljóir. Það eykur aftur hættuna á því að þeir detti en einnig eykst sýkingarhætta og meira álag verður á hjartað ef vökva vantar. Hjúkrunarfræðingar sem rætt var við og höfðu starfað við dagvist aldraðra kváðust ótrúlega fljótt hafa séð breytingar til hins betra á andlegri og líkamlegri heilsu fólks, sem kom inn á dagvistina, þegar það fór að fá nægan vökva og borða reglulega heitar máltíðir.

Bætiefni í hófi

Úr bókinni Árin eftir sextugt , segir Inga Þórsdóttir að veruleg ástæða sé til þess að taka inn fjölvítamín með steinefnum ef matarlyst sé lítil eða neysla af skornum skammti af öðrum ástæðum. Hún bendir þó á að ekki megi líta svo á að vítamínpillan komi í staðinn fyrir góðan mat og ástæðulaust sé að taka inn sterkar vítamín- eða steinefnapillur. Ráð við lystarleysi er að matreiða og bera fram á snyrtilegn máta það sem þykir best og neyta fremur margra lítill máltíða en fárra stórra. Að sjá disk fullan af mat eykur á lystarleysið.