FÆREYINGAR hefðu örugglega verið stoltir af Guðjóni í Garðakoti arka í færeysku viðhafnarklæðunum um Dyrhólaey. Hann bar með sér léttleika og fas vindsins og tindrandi augun minntu á sólstafina. Hvítt skegg hans bylgjaðist í vindinum eins og langsprottið gras í fjallshlíð þegar blærinn vaggar því

DANSINN

Dansinn heitir ný, íslensk kvikmynd sem Ísfilm framleiðir og Ágúst Guðmundsson leikstýrir eftir sögu Williams Heinesens, "Her skal danses", en söguþráðurinn fjallar um brúðkaup í Færeyjum þar sem margir undarlegir og válegir atburðir eiga sér stað. Þorri leikaranna í kvikmyndinni er íslenskur en einnig nokkrir færeyskir. Dansinn var kvikmyndaður bæði á Íslandi og í Færeyjum. Árni Johnsen fylgdist með kvikmyndun Dansins og ræddi við Ágúst Guðmundsson um verkefnið.

FÆREYINGAR hefðu örugglega verið stoltir af Guðjóni í Garðakoti arka í færeysku viðhafnarklæðunum um Dyrhólaey. Hann bar með sér léttleika og fas vindsins og tindrandi augun minntu á sólstafina. Hvítt skegg hans bylgjaðist í vindinum eins og langsprottið gras í fjallshlíð þegar blærinn vaggar því svo undurblítt í eilífðardansi veðurguðanna. Tugir leikara voru á ferðinni við bjargbrúnir, þekktir og minna þekktir. Guðjón í Garðakoti er nábúi Dyrhólaeyjar og því var svo skemmtilegt að sjá hann þarna með nýju fasi frænda okkar í austri. Það fór ekkert á milli mála að það var verið að kvikmynda og verkefnið var Dansinn eftir færeyska ritsnillinginn og listmálaranna William Heinesen sem ritaði bók eftir bók um sérstætt, litskrúðugt og fagurt mannlíf Færeyinga. Skammt frá bjargbrún var fiskikar af stærri gerðinni, fullt af vatni, með ótal slöngum og rafmagnsdæla tuðaði án afláts. Það var ekki verið að spúla á hefðbundinn hátt eins og tíðkast í fiskverkun við sjávarsíðuna á Íslandi, nei, það var verið að framleiða rigningu, því Dansinn gerist í slæmu veðri og votu. Alveg er ég viss um að vættir Dyrhólaeyjar hafa hlegið sig máttlausar af því að sjá rafmagnsvirkið vera að framleiða rigningu á einhverjum votviðrasamasta stað landsins. En svona er lífið, það er allt til í því þegar skapa þarf veröld og ramma kvikmyndarinnar. Þá er það handritið sem gildir og ef veðurguðirnir virða það ekki þá fá þeir það svart á hvítu hinum megin frá. Ágúst Guðmundsson, leikstjóri og kvkmyndaframleiðandi, var klæddur í voldugan vélsleðagalla innan um alla "Færeyingana" sína. Það stakk aldeilis í stúf við glæsilegan hátíðarklæðnaðinn færeyska, en það skipti ekki máli. Hann var ekki í mynd.

"Það er mjög sérstakt við fjármögnun þessarar myndar hvað við fáum fjármagnið víða að," sagði Ágúst. "Það er ekki óalgengt að fá fjármagn frá Norðurlöndunum, Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum og Evrópusjóðnum Eurimage, heldur erum við einnig að fá fjármagn frá Hamborgarsjóðnum og breskum sjóði sem heitir Europian Coproduktion Found, en sá síðastnefndi gerði útslagið í framgangi verkefnisins fyrir það hve hann var rausnarlegur. Við fengum 25 milljóna króna styrk úr íslenska Kvikmyndasjóðnum, en við fengum hærri upphæð úr þeim breska. Það tekur langan tíma að gera spilin klár í svona kvikmyndun, það er að gera handritið, lesa, breyta og bæta, leggja alla þætti málsins fyrir nefnd eftir nefnd og auðvitað sérfræðingana líka. Eðlilegur meðgöngutími í undirbúningi kvikmyndar er því um 3 ár, en áætlað er að myndin kosti um 120 milljónir króna."

Lykillinn að gerð slíkrar íslenskrar kvikmyndar er Kvikmyndasjóðurinn, því án framlags og stuðnings heiman að fengist ekkert fjármagn frá hinum löndunum og sjóðum erlendis. Án Kvikmyndasjóðs væri þetta ekki hægt og Dansinn er ef til vill gott dæmi um mikilvægi þess að íslenski Kvikmyndasjóðurinn hafi úr nokkru að spila, því fjórir fimmtu hlutar kostnaðar eða um 100 milljónir króna fást erlendis frá út á 25 milljónir króna frá Kvikmyndasjóði. Kvikmyndasjóður er því einhver arðsamasti íslenski bankinn þótt hann sé ekki stór í sniðum með 120 milljónir alls til úthlutunar á árinu, en gróði Íslands er auðreiknanlegur með vinnulaunum, sköttum, reynslu og landkynningu svo eitthvað sé nefnt.

"Her skal danses," hélt Ágúst áfram, "heitir saga Williams Heinesens, Það á að dansa, í þýðingu Þorgeirs Þorgeirsonar, en við köllum myndina Dansinn. Það er oft skrýtið hvernig verkefnaval þróast. Ég var mikið að spá í William Heinesen og Kristín kona mín benti mér á þessa smásögu. Þetta er dálítið sérstök ástarsaga, sem átti hljómgrunn hjá okkur báðum, en sagan er jafnframt lýsing á byggðarlaginu, sögusviðinu sjálfu. Þegar William Heinesen fer af stað, jafnvel með litla smásögu, finnst honum eins og hann þurfi að lýsa öllum í þorpinu. Mjög margar persónurnar verða lifandi, sterkar og eftirminnilegar. Allt gerist þetta á lítilli eyju úti í Atlantshafi. Hún liggur svolítið sér á parti og ég held að hann hafi haft Mykines í huga, vestustu eyju Færeyja, þá sem liggur næst Vestmannaeyjum.

Þarna segir frá brúðkaupi sem stendur í 3 daga og kvikmyndin lýsir þessum þremur örlagaríku dögum. Í fyrstu virðist allt ætla að ganga sinn eðlilega gang, en fyrsta kvöldið gerir ofsaveður og breskur togari strandar við eyna. Brúðkaupsgestir sameinast um að koma þeim á land. Þetta er aðeins einn þáttur af mörgum undarlegum og jafnvel válegum atburðum í sögunni. Þegar líða tekur á veisluna halda menn jafnvel að sjálfur djöfullinn hafi gerst boðflenna í brúðkaupinu.

Mér fannst athyglivert þegar við unnum einn sunnudag við myndatökuna í Færeyjum að fulltrúi okkar þar bað okkur að leggja niður vinnu meðan messað væri í virðingarskyni við þá sem sóttu kirkju. Við urðum við þessu og það sama mun hafa átt sér stað við kvikmyndun Barböru síðastliðið ár.

Tökustaðir okkar voru aðallega í Saksun, á eynni Koltur og í Tjörnuvík nyrst á Straumey. Við vorum í hálfan mánuð í Færeyjum, en það sem aðallega dró okkur þangað var húsakostur Færeyinga, húsin með svörtu tjörguðu göflunum og torfþökunum, en reyndar er talsvert af færeysku landslagi í myndinni, einkum eftir að við komum út á sjó. Við filmuðum einnig í gamalli skútu. Færeyingar hafa haldið nokkrum slíkum vel við, öndvert við okkur.

Útgerðin í þessu verkefni okkar byggðist að staðaldri á um 25 manna hópi og svo vorum við með 10­20 íslenska leikara og urmul af færeyskum aukaleikurum sem voru alltaf að kenna okkur dans, færeyskan dans. Eitt föstudagskvöld hélt Dansifélag Austureyjar ball fyrir okkur í Runavik þar sem þeir tóku öll kvæðin sem koma fyrir í myndinni og er getið um í sögunni. Það var farið í gegnum þetta allt og það var þriggja tíma prógramm. Það er merkilegt hvað margt ungt fólk er í þessu og greinilega af einskærum áhuga. Mér er sagt að þátttaka ungs fólks í þessum þjóðarþætti Færeyinga sé mikið að aukast. Hérlendis tókum við mest við Dyrhólaey og þar var umrætt strand að mestu filmað, en svo vorum við einnig í Grindavík og Keflavík. Vinna við kvikmyndunina tók 7 vikur og var samkvæmt áætlun, sem var feikilega stíf og bjartsýn og í skipulaginu var ekki gert ráð fyrir góðu veðri neinn dag. Það átti að vera vont veður allan tímann því það sér ekki til sólar í allri myndinni. Þetta gekk eftir í Færeyjum en Dyrhólaey strækaði einn dag. Annars gekk allt vel eftir. Það var ungverskur kvikmyndatökumaður sem ég fékk sendan frá London, sem filmaði Dansinn. Ég kynntist honum þegar ég var við nám í Bretlandi. Þá var hann að kvikmynda sína fyrstu mynd. Ég vissi því að hverju ég gekk. Hann er sérstakur listamaður, sem mikill fengur var að fá, en galdur hans liggur í lýsingu. Þegar hann kom inn í stúdíóið sýndi hann hvað í honum bjó.

Þetta er búið að vera skemmtilegt verkefni, allt aðalgengið byggðist á Íslendingum og nær allir leikararnir eru Íslendingar auk nokkurra Færeyinga. Myndin er núna í vinnslu í Kaupmannahöfn þar sem samsetning og hljóðsetning fer fram og ég á von á því að hún verði tilbúin í maí næstkomandi, en frumsýning er áætluð undir haust. Dansinn mun verða 90­100 mínútur að lengd."

Morgunblaðið/Ágúst Guðmundsson í hópi aðstoðarmanna á tökustað við Dyrhólaey .Morgunblaðið/RaxVIÐ kvikmyndun í Færeyjum.Morgunblaðið/ÞAÐ eru mörg tilþrifin í Dansinum.Magnús Ólafsson í hlutverki Jakobs sýslumanns flengir dóttur sína Sisu.Morgunblaðið/Í brúðkaupsveislunni,brúðurin Sisa(Pálína Jónsdóttir) og brúðguminn Haraldur(Dofri Hermannsson) .Morgunblaðið/TAKTUR færeyska dansins magnast og magnast, en kvæðin geta numið mörgum hundruðum og reyndar eru kvæði Færeyinga um 80 þúsund talsins. Þarna er Gísli Halldórsson í hlkutverki Nikulásar kvæðamanns að kveða í dansinum en við hlið hans er Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir í hlutverki Andreu móður brúðarinnar.Morgunblaðið/ FRÁ kvikmyndun á bjargsigi við björgunarstörf á Strandstað við Dyrhólaey.Dofri Hermannsson gerir klárt fyrir sig.Morgunblaðið/Grímur Bjarnason Sigið í björgin austan Dyrhólaeyjar við tökur í Dansinum.Hlöðver Guðnason Bjarnareyingur sígur

Morgunblaðið/ RAX Leikarar í Dansinum á bjargbrún við Dyrhólaey.Frá vinstri:Pálína Jónsdóttir,Baldvin Árnason,Jóhann G.Jóhannsson,Gunnar Helgason,Þorleifur Arnarson og Magnús Ólafsson ásamt aðstoðarleikurum.

Leikarar úr sveitinni við Dyrhólaey,Guðjón Þorsteinsson í Garðakoti og Jón Sveinsson frá ReyniÁgúst Guðmundsson leikstjóri og kvikmyndatökulið Dansins á brúnum Dyrhólaeyjarbjarga.Í fjarska sjást Reynisdrangar