MENN grennast ekki á því að borða fitu- og sykurskertar matvörur, að sögn næringarfræðinga, sem vara við því að þeir sem neyta slíks matar séu þvert á móti líklegri til að þyngjast en þeir sem borða venjulegan mat, að sögn danska dagblaðsins Jyllands-Posten.

Fólk getur

þyngst af

léttum

matvörum

MENN grennast ekki á því að borða fitu- og sykurskertar matvörur, að sögn næringarfræðinga, sem vara við því að þeir sem neyta slíks matar séu þvert á móti líklegri til að þyngjast en þeir sem borða venjulegan mat, að sögn danska dagblaðsins Jyllands-Posten .

Blaðið hefur eftir næringarfræðingunum að vörur eins og sykurskertir svaladrykkir og léttar salatsósur séu óþarfar fyrir þá sem vilja grennast.

"Það hefur aldrei tekist að sanna að léttar matvörur hjálpi fólki að grennast til lengri tíma litið," hefur blaðið eftir Lars Ovesen, yfirmanni næringardeildar danskrar matvælastofnunar. "Þvert á móti sýnir umfangsmikil rannsókn meðal bandarískra kvenna að konur sem neyta matvæla með gervisykur séu líklegri til að þyngjast en þær sem borða ekki léttan mat."

Ovesen segir eina af ástæðunum þá að fólk telji að það geti borðað meira af fitu- og sykurskertum matvörum og freistist því m.a. til að gæða sér á þykkara lagi af léttu majónesi.

Rannsóknir benda þó til þess að meginskýringin sé sú að líkaminn reyni sjálfkrafa að bæta upp hitaeiningaskerðinguna með því að auka matarlystina. Fólk sem borði fitu- og sykurskertan mat verði einfaldlega fyrr svangt aftur og borði meira síðar.

"Dýrt vatn"

Að sögn danska næringarfræðingsins Søren Toubro er einnig mikilvægt að hafa í huga að því fer fjarri að allar léttar vörur séu fitulitlar. Könnun Jyllands-Posten bendir til þess að oft sé ekki verulegur munur á fituprósentu léttra matvara og venjulegra. Auk þess sé fituinnihaldið í léttum vörum stundum minnkað með því einfaldlega að bæta við vatni.

"Neysla léttra vara hefur engin áhrif," segir danski matvælafræðingurinn Orla Zinck. Hann ráðleggur því fólki að "borða svolítið minna af venjulegum mat frekar en að kaupa dýrt vatn".