VILLA Minimo er sýningarsalur sem myndlistarmaðurinn Hlynur Hallsson rekur á vinnustofu sinni í Hannover í Þýskalandi. Í dag, laugardaginn 17. janúar, opnar þar samsýning 65 listamanna, þar af 29 Íslendinga og eiga verkin það sameiginlegt að vera unnin á blað af stærðinni A4.


Samsýning 65 lista-

manna í Hannover

VILLA Minimo er sýningarsalur sem myndlistarmaðurinn Hlynur Hallsson rekur á vinnustofu sinni í Hannover í Þýskalandi. Í dag, laugardaginn 17. janúar, opnar þar samsýning 65 listamanna, þar af 29 Íslendinga og eiga verkin það sameiginlegt að vera unnin á blað af stærðinni A4. Hlynur lauk á síðasta ári meistaranámi frá listaskólanum í Hannover og hlaut skömmu síðar starfslaun og vinnustofu til tveggja ára frá Hannover Kunstverein. Hann kaus að nýta húsnæðið undir sýningarsal og stefnir að því að bjóða upp á alþjóðlegar listsýningar í mánuði hverjum í þann tíma sem hann hefur húsnæðið til umráða.

Hlynur segir vinnu sína með því móti að hann hafi ekki þörf fyrir vinnustofu. "Öll mín vinna fer fram á einu skrifborði og sú ákvörðun að nota ekki vinnustofuna sem vinnustofu heldur sem sýningarsal lít ég á sem hluta af mínu verki sem myndlistarmanns en ég lít ekki á mig sem hinn mikla sýningarstjóra eða galleríista. Hingað til hafa nokkrir Íslendingar tekið þátt í sýningum í Villa Minimo og stefnan er að hafa nýja alþjóðlega myndlist á staðnum í þau tvö ár sem ég er með húsnæðið og starfslaunin."

Íslensku þátttakendurnir eru Guðmundur Oddur, Anna Líndal, Tumi Magnússon, Ólafur Gíslason, Hannes Lárusson, Ragnar Gestsson, Birgir Andrésson, Hildur Jónsdóttir, Haraldur Jónsson, Gunnar Kristinsson, Margrét H. Blöndal, Anna Guðjónsdóttir, Hulda Ágústsdóttir, Ingólfur Arnarsson, Hildur Bjarnadóttir, Alda Sigurðardóttir, Ráðhildur Ingadóttir, Ragna Róbertsdóttir, Bjarni H. Þórarinsson, Guðný Guðmundsdóttir, Inga Svala Þórsdóttir, Ómar Smári Kristinsson, Jón Laxdal Halldórsson, Þorvaldur Þorsteinsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Helgi Þorgils Friðjónsson, Aðalheiður Eysteinsdóttir, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og Steinunn Helga Sigurðardóttir. Meðal erlendra þátttakenda má nefna Rolf Bier, Roni Horn, David Allen, Jürgen Witte, Thomas Wolsing, Douglas Gordon og Joris Rademaker. Verkin á sýningunni A4 eru afar ólík; ljósmyndir, textar, teikningar, ljósrit og skissur. Sum verkin eru gerð sérstaklega fyrir sýninguna en önnur eru sótt í skúffur og möppur. Listamennirnir eru einnig ólíkir, sumir ungir og óþekktir en aðrir vel þekktir listamenn, flestir hverjir íslenskir og þýskir en einnig enskir, bandarískir, hollenskir, danskir og norskir.

Hlynur setti fyrst upp A4 sýningu í galleríi í Noregi í febrúar á síðasta ári. "Mér fannst þetta form henta afar vel því A4 blöð vinna allir með daglega. Þá er auðvelt og ódýrt að senda verk af þessari stærð og gerð á milli landa." Hann bendir á að býsna algengt sé að listamenn starfræki gallerí á heimili sínu og sjálfur hafi hann staðið fyrir sýningum í stofunni á heimili sínu og konu sinnar í þau fjögur ár sem þau hafi verið búsett í Þýskalandi. Sýningarrýmið nefnir hann Kunstraum Wohnraum og þar eru nýjar sýningar opnaðar fyrsta sunnudag hvers mánaðar klukkan ellefu fyrir hádegi. Auk þessa hefur Hlynur starfrækt Gallerí Hallsson og segir hann að þar geti listamenn fengið að sýna hvenær sem er og hvar sem er. "Ef einhver vill sýna í Madrid hefur viðkomandi bara haft samband við mig og í sameiningu ákveðum við sýningartíma og stað auk þess sem listamaðurinn gerir grein fyrir hugmyndinni að baki sýningunni og titli og gerir boðskort og sýningarskrá ef hann vill. Ég læt svo fjölmiðla vita um sýninguna," segir Hlynur. "Hvort sýningin á sér nokkurn tímann stað er algert aukaatriði hjá Galleríi Hallssyni því þegar allar þessar tilkynningar hafa komist til skila er sýningin þegar orðin til í huga fólks og jafnvel einnig í huga listamannsins sjálfs."

MYNDLISTARMAÐURINN Hlynur Hallsson starfrækir sýningarsalinn Villa Minimo í Hannover í Þýskalandi. Þar var opnuð í gær samsýningin A4 með verkum 65 alþjóðlegra myndlistarmanna, þar af 29 Íslendinga.