"ÞETTA kostaði tólf milljónir, en það hefur líka verið skemmtilegt, ekki satt?" sagði Ebbe Lundgaard menntamálaráðherra hress í bragði, þegar hann tilkynnti á blaðamannafundi í Konunglega leikhúsinu að ekkert yrði úr fyrirhugaðri nýbyggingu þess á Kóngsins nýja torgi.

Hætt við viðbyggingu við

Konunglega leikhúsið Í vikunni varð ljóst að ekkert verður úr áætlunum um viðbyggingu við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Sigrún Davíðsdóttir rekur áralangar deilur um bygginguna, sem gekk undir gælunafninu Fuglinn. "ÞETTA kostaði tólf milljónir, en það hefur líka verið skemmtilegt, ekki satt?" sagði Ebbe Lundgaard menntamálaráðherra hress í bragði, þegar hann tilkynnti á blaðamannafundi í Konunglega leikhúsinu að ekkert yrði úr fyrirhugaðri nýbyggingu þess á Kóngsins nýja torgi. Leikhússtjórinn Michael Christiansen var þó tæplega jafn glaður í bragði og sagðist, ögn þrútinn í framan, ekki leyna því að hann hefði orðið fyrir djúpum og miklum vonbrigðum. Þar með virðist á enda runnin hörð rimma um leikhúsfuglinn svokallaða. Hann var með orðum menntamálaráðherra skotinn niður. Um árabil hafa verið uppi vangaveltur í Konunglega leikhúsinu og menningarráðum Kaupmannahafnar hvernig þróa ætti Konunglega leikhúsið. Eins og er eru listgreinarnar þrjár, leiklist, ballett og ópera, undir sama þaki á tveimur sviðum hússins. Í gömlu og glæsilegu byggingunni sem mest ber á er gamla sviðið, sem oftast er notað undir óperu- og ballettsýningar, meðan leiklistin notast helst við nýja sviðið í heillandi byggingu. Sú bygging lætur ekki mikið yfir sér utan frá, er frá fyrri hluta aldarinnar en er að innan hrífandi dæmi um byggingarlist síns tíma. Gallinn er að leikararnir eru firna óánægðir með aðstöðuna þar og sviðið er orðið gamaldags miðað við þau tækniundur sem er að finna í nýrri leikhúsum. Listgreinarnar saman eða aðskildar? Fyrsta spurningin er hvort listgreinarnar þrjár eigi að vera áfram undir einu þaki. Til eru þeir, sem álíta að réttast væri að skipta búinu að fullu. Upp úr 1990 voru áætlanir í danska þinginu um að reisa nýtt þjóðleikhús við höfnina og þær áttu sér ötula forsvarsmenn í menningarlífinu, en aðilar í tengslum við Konunglega leikhúsið stöðvuðu þá áætlun 1992. Þeir vildu halda greinunum í nágrenni hver við aðra og stefndu að nýrri leikhússbyggingu, sem tók á sig draumkennda mynd 1994 þegar stjórnarformaður leikhússins fékk Poul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra til að fallast á nýja viðbyggingu. Árið eftir samþykktu borgaryfirvöld nýtt skipulag fyrir leikhúshverfið, sem fól í sér möguleika á nýju leikhúsi inni í gamla umhverfinu, svo 1996 var haldin arkitektasamkeppni, sem norski arkitektinn Sverre Fehn vann. Samkvæmt tillögu hans átti að reisa glerbyggingu yfir götuna milli gamla og nýja sviðsins og síðan að byggja nýtt hús, þar sem nýja sviðið er núna og það svo stórt að það teygði sig yfir nærliggjandi byggingar. Þar sem efsti hluti glerbyggingarinnar líktist væng hlaut byggingin gælunafnið "Fuglinn". Fuglinn varð þó ekki gæludýr allra, því fljótlega eftir að hann var kynntur hófust mótmæli og undirskriftasöfnun gegn honum og meirihluti borgarstjórnar var á móti áætluninni, helst á þeim forsendum að bygging Fehns væri alltof stór miðað við skipulag hverfisins. Eina helgi var meira að segja reist módel í fullri stærð við leikhúsið til að borgarbúar gætu gert sér grein fyrir því hvernig húsið tæki sig út. Borgarstjórn skýtur Fuglinn niður Menntamálaráðherrann þæfði svo málið í von um að byrlegar blési fyrir Fuglinn, en allt kom fyrir ekki. Fuglinn varð ekki vinsælli með tímanum. Því var það að menntamálaráðherrann tilkynnti nú í vikunni að Fuglinn hefði verið skotinn niður eftir að Jens Kramer Mikkelsen yfirborgarstjóri hafði tjáð honum að vonlaust væri að fá meirihluta í borgarstjórn fyrir því að Fuglinn færi á loft. Sjálfur var Kramer hallur undir hafnarbyggingu á sínum tíma og hefur því varla tekið því þunglega að sjá Fuglinn skotinn niður. Leikhússtjórinn hafði innilega óskað eftir nýja húsinu og ýmsir höfðu skilið það svo að hann hygðist segja af sér ef sú ósk gengi ekki eftir. Slíkt aftekur hann með öllu, en óskar enn eftir nýju húsi og gjarnan sem næst Kóngsins nýja torgi. Lundgaard menntamálaráðherra ætlar hins vegar að leggjast undir feld og reyna að finna nýja lausn. Í vor ætlar hann að freista þess að fá fjárveitinu upp á hálfan til heilan milljarð íslenskra króna til að endurbæta nýja sviðið. Þær 700 milljónir danskra króna, tæpir átta milljarðar íslenskra króna sem nýja húsið átti að kosta og sem ríkisstjórnin hafði lofað, verða áfram til staðar. Fuglsævintýrið hefur kostað rúmar 120 milljónir íslenskra króna, en þær hafa ekki farið til spillis undirstrikar Lundgaard. Menn hefðu þó altént skemmt sér. En sá hlær best sem síðast hlær og nú á eftir að koma í ljós hvort þeir Konunglegu fá nýtt hús í viðunandi nágrenni, eða hvort upphaflegar áætlanir þingsins um leikhús við höfnina komast aftur á kreik. Þar er reyndar líka verið að gera því skóna að reisa nýtt tónleikahús, sem Kaupmannahöfn sárvantar til að geta kallað sig sanna menningarborg. Helsta tónleikahúsið er reyndar ekki kvikmyndahús, en er í miðju Tívolí, svo tækjadynur og ærsl gestanna blandast við hægu kafla tónverkanna. Það eina sem er víst er að Fuglinn hefur verið skotinn niður.