21. janúar Eins kvölds Sviss- sveitakeppni. Komið og kynnist þessu skemmtilega keppnisformi sem er mjög vinsælt erlendis. Aðstoðað er við myndun sveita á staðnum ef þess er óskað. Bókaverðlaun af bókahlaðborði BR. Sex kvölda aðalsveitakeppni 8. janúar ­ 4. marz Fyrstu fjögur kvöldin verða með monrad-sniði, 10 spila leikir.
BRIDS Umsjón Arnór G. Ragnarsson Dagskrá Bridgefélags Reykjavíkur fram á vor

21. janúar Eins kvölds Sviss- sveitakeppni. Komið og kynnist þessu skemmtilega keppnisformi sem er mjög vinsælt erlendis. Aðstoðað er við myndun sveita á staðnum ef þess er óskað. Bókaverðlaun af bókahlaðborði BR.

Sex kvölda aðalsveitakeppni 8. janúar ­ 4. marz

Fyrstu fjögur kvöldin verða með monrad-sniði, 10 spila leikir. Lögð er áhersla á að þetta gangi liðugt fyrir sig og því er raðað fyrirfram eftir þörfum. Fjórar efstu sveitirnar keppa síðan til úrslita tvö síðustu kvöldin. Efsta sveitin velur andstæðing úr 3. eða 4. sæti. Undanúrslit fyrra kvöldið og úrslit síðara kvöldið, 32 spila leikir. Aðrir spila áfram með monrad-sniði síðustu tvö kvöldin og eru veitt sérstök verðlaun til efstu sveitarinnar þar.

Hér hafa menn sína traustu sveitarfélaga á hinu borðinu og eru því ekki ofurseldir vitleysunum sem salurinn er að gera.

Sjö kvölda aðaltvímenningur 11. mars, 18. mars, 15. apríl, 22. apríl, 29. apríl, 6. maí, 13. maí.

Þessi tvímenningur verður spilaður með svipuðu sniði og Frakklandstvímenningurinn. Eftir tvö kvöld er hópnum skipt í tvennt, 24 pör í efri hópinn. Þeir sem lenda í neðri hópnum geta þó enn komist inn í A-úrslit eftir fjögur kvöld. Sex neðstu pörin úr efri hópnum færast niður og 6 efstu pörin úr neðri hópnum vinna sig upp. Eftir fjögur kvöld spila svo 24 pör A-úrslit, en öll hin pörin B-úrslit. Hér þurfa menn ekki að treysta á misjafna sveitarfélaga heldur geta reitt sig á sinn trausta makker.

Teggja kvölda innskotstvímenningur 25. mars og 1. apríl.

Vegna Evrópumóts í blönduðum flokki og Íslandsmóts er gert hlé á aðaltvímenningi. Hægt er að spila annað eða bæði kvöldin. Þeir sem spila bæði kvöldin geta unnið til verðlauna.

Alla þriðjudaga verða spilaðar eins kvölds tvímenningskeppnir. Spilað er með Monrad- og Mitchell-fyrirkomulagi til skiptis. Spilarar geta lagt fé í verðlaunapott sem fer til efstu para. Ókeypis er fyrir tuttugu ára og yngri.

Á föstudögum verða spilaðar eins kvölds tvímenningskeppnir. Spilað er með Monrad- og Mitchell-fyrirkomulagi til skiptis. Ókeypis er fyrir tuttugu ára og yngri. Um kl. 22:45 á föstudögum er Hundavaðssveitakeppni og er þátttökugjald 100 kr. á mann fyrir hverja umferð sem menn lifa af. Tvo föstudaga verða haldin silfurstigamót og verður það þá auglýst sérstaklega.

Aðalfundur BR miðvikudaginn 10. júní kl. 20:00 í húsnæði BSÍ. Að venju verða veglegar veitingar.

Öll spilamennska BR er í húsnæði BSÍ að Þönglabakka 1 og eru keppendur beðnir um að skrá sig í keppnir á miðvikudögum með að minnsta kosti dags fyrirvara hjá BSÍ í síma 587-9360 eða hjá Sveini Rúnari Eiríkssyni keppnisstjóra. Þátttökugjald er það sama og verið hefur undanfarin ár, 500 kr. á spilara á kvöldi.

Stjórn BR vill vekja athygli félaga sinna á áhugaverðum mótum erlendis á árinu.

28. mars ­ 3. apríl 1998 verður Evrópumót í blönduðum flokki í Aachen í Þýskalandi. Keppt er bæði í tvímenningi og sveitakeppni.

21. ágúst ­ 4. september 1998 verður heimsmeistaramót í Lille í Frakklandi. Keppt er bæði í tvímenningi og sveitakeppni.

Athugið að bæði þessi mót eru opin og þátttaka öllum heimil að fengnu samþykki BSÍ.

Nánari upplýsingar er að fá á skrifstofu BSÍ.