ÍSLENSK hugbúnaðarfyrirtæki selja framleiðslu sína á ólíklegustu stöðum auk hefðbundinna markaðssvæða. Tölvufyrirtækið Hugbúnaður hf. í Kópavogi hefur náð fótfestu fyrir afgreiðslukassakerfi sín í arabalöndum og víðar auk Evrópulanda.
Yfir 90% af framleiðslu Hugbúnaður hf. flutt út Afgreiðslukassakerfi seld til nær 15 ríkja

ÍSLENSK hugbúnaðarfyrirtæki selja framleiðslu sína á ólíklegustu stöðum auk hefðbundinna markaðssvæða. Tölvufyrirtækið Hugbúnaður hf. í Kópavogi hefur náð fótfestu fyrir afgreiðslukassakerfi sín í arabalöndum og víðar auk Evrópulanda.

Að sögn Páls Hjaltasonar, framkvæmdastjóra Hugbúnaðar, hefur sænska verslanakeðjan ICA, sem er með um 2.300 verslanir og 35% af matvörumarkaðnum í Svíþjóð, nú ákveðið að taka í notkun samræmt afgreiðslukerfi á búðarkössum í verslununum og jafnframt að aðeins fjögur kerfi í heiminum komi til greina. Eitt þeirra er afgreiðslukerfi Hugbúnaðar og hyggjast Svíarnir fyrst ræða við Pál og félaga hans.

"Við getum verið mjög stolt af þessu því að þeir eru búnir að eyða 10 eða 20 milljónum íslenskra króna í að kanna hvað sé í boði og meta kerfin. Það er svo annað mál hvort samningar takast en þetta er mikill áfangi og sýnir að við stöndum vel að vígi í samkeppninni sem er hörð," segir Páll.

Afgreiðslukerfi Hugbúnaðar er mikilvægasta afurð fyrirtækisins og er um að ræða stýribúnað fyrir búðarkassa og tækjabúnað sem þeim fylgir. Kerfið útvegar öðrum kerfum, bókhaldi og þá jafnvel birðgðabókhaldi, stöðugar upplýsingar um það sem er að gerast í samskiptunum við viðskiptavinina. Það gerir kleift að reikna á svipstundu út fjárhæðir í ólíkum gjaldeyri, ýmiss konar ferðatékkum og þess háttar.

Ef kort er notað greinir kerfið þegar hvaða tegund er um að ræða, hvort það sé debetkort, kreditkort, viðskiptavildarkort eða annað og hvernig meðhöndla beri kortið. Taka verður inn í dæmið hvort notaður er söluskattur eða virðisaukaskattur, hvort ólík verðtilboð eru í gangi, hvort veittur er magnafsláttur og hvers kyns sérþjónusta sem fer mjög í vöxt.

Þannig sjá menn fyrir sér að verslanir bjóði föstum viðskiptavinum að kaupa fyrir þá áskrift að ákveðnum fjölmiðlum á tilteknum dögum, lestarferðum á ákveðnum tímum og svo frv. Auk þægindanna gæti verðið á þjónustunni orðið lægra en í lausasölu og minna orðið um álagstíma og biðraðir.

Reynt að taka alla þætti inn

Hugbúnaðurinn sem fyrirtækið hefur selt annast það sem snýr beint að viðskiptavininum. Reynt er að taka á öllum hugsanlegum atriðum sem skipt geta máli, ólíkum reglum, lögum og venjum, og hafa sveigjanleikann svo mikinn að hægt sé að nota sama grundvallarkerfið í öllum löndum og laga það að mismunandi aðstæðum.

"Við höfum fyrst og fremst selt útfærslu sem er ætluð fyrir almennan rekstur og hefur verið notuð m.a. í flughöfnum, þar sem verslanir eru oft fjölmargar og vörutegundir margvíslegar. Landsteinar hf. selur bókhaldskerfið á bak við okkar kerfi og fyrirtæki þeirra í Bretlandi hafa í samvinnu við okkur sett afgreiðslukerfið upp í flughöfninni í Bahrain og tengt við það Navis-bókhaldskerfi með birgðahaldi og öllu tilheyrandi. Einnig er það notað í Dubai, í Damaskus og víðar og verið að ræða samninga við flughöfnina í Kaíró í Egyptalandi og aðila á Sri Lanka. Alls höfum selt þessi kassakerfi til nær 15 landa.

Við seljum oftast nær framleiðsluna í gegnum umboðsfyrirtæki, kassafjöldinn þarf að vera minnst 500 til að við teljum henta að ræða beint við kaupandann. Hér starfa um 25 manns og þeir hafa nóg annað að gera.

Við erum núna að koma með Windows-útgáfu sem verið er að prófa í Perlunni og víðar. Vélbúnaðurinn er m.a. frá Epson og þeir eru með frásögn af kerfinu í blaði sínu núna og hafa mynd af Perlunni á forsíðu. Auðvitað eru þeir að kynna framleiðslu sína um leið og þeir segja frá kerfinu en þetta er ágæt kynning á Íslandi og okkar fyrirtæki og erfitt að meta hana til fjár. Ritið kemur út í 40.000 eintökum og er dreift innan tækniheimsins."

Innanlandsmarkaðurinn skiptir æ minna máli í afkomunni. Páll sagðist halda að um 600 afgreiðslukerfi væru í notkun hér á landi og þar af væru um 550 frá Hugbúnaði. "Annars seljum við megnið af því sem við erum að gera til útlanda, við gerum ráð fyrir að langt yfir 90% af framleiðslunni á þessu ári verði útflutningur," sagði Páll Hjaltason.