KJARTAN Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fríverzlunarsamtaka Evrópu, EFTA, átti á föstudag fundi með Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra og íslenzkum embættismönnum um starf samtakanna næsta hálfa árið, en Ísland tók við formennsku í EFTA um áramót. Morgunblaðið ræddi við Kjartan um starf EFTA, sem er mun fjölbreyttara en fyrir nokkrum árum, þótt fækkað hafi í hópi aðildarríkja.
Kanadasamningurinn stærsta mál EFTA eftir EES

Starfsemi EFTA hefur orðið fjölbreyttari á síðustu árum þrátt fyrir fækkun í samtökunum, meðal annars með gerð fríverzlunarsamninga við fjölda ríkja. Ólafur Þ. Stephensen ræddi við Kjartan Jóhannsson framkvæmdastjóra EFTA.

KJARTAN Jóhannsson, framkvæmda stjóri Fríverzlunarsamtaka Evrópu, EFTA, átti á föstudag fundi með Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra og íslenzkum embættismönnum um starf samtakanna næsta hálfa árið, en Ísland tók við formennsku í EFTA um áramót. Morgunblaðið ræddi við Kjartan um starf EFTA, sem er mun fjölbreyttara en fyrir nokkrum árum, þótt fækkað hafi í hópi aðildarríkja.

EFTA hefur skroppið saman á síðustu árum og áratugum og meirihluti ríkjanna, sem áður áttu aðild að samtökunum, er nú í Evrópusambandinu. Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein eru nú einu EFTA-ríkin. En hvaða máli skiptir EFTA í heimsviðskiptum og hvaða máli skiptir EFTA-aðildin Ísland?

"EFTA hefur talsvert vægi á heimsmælikvarða," segir Kjartan. "Þótt þetta séu aðeins fjögur lönd og þau hvorki stór né mannmörg, er hlutdeild EFTA í heimsviðskiptum 3,1%, sem er anzi drjúgt og stenzt vel samanburð við mörg miklu stærri ríki. EFTA hefur því þónokkra vigt og er að því leyti áhugaverður markaður og eftirsóttur samningsaðili fyrir önnur ríki. EFTA er að mínum dómi ágætt tæki fyrir aðildarlöndin til að sækja hagsmuni sína í viðskiptamálum. Það er sérstaklega styrkur að því fyrir litla þjóð að vera í hópi með öðrum og vera þannig hluti af samtökum, sem hafa þónokkra vigt."

Fríverzlunarsamningar opna framtíðarmöguleika

EFTA hefur á undanförnum árum gert þrettán fríverzlunarsamninga; við tíu væntanleg aðildarríki ESB í Austur-Evrópu, Tyrkland, Kýpur og Ísrael. Kjartan segir að gerð þessara samninga, eins og ýmislegt annað í starfi EFTA, sé miðuð við lengri framtíð. "Mér sýnist að Íslendingar séu að sækja út fyrir landsteinana og ég er sannfærður um að þeir muni gera það í vaxandi mæli. Það er verið að opna möguleika fyrir Íslendinga á ýmsum svæðum og stöðum. Það er mikilvægt fyrir einhæft atvinnulíf eins og á Íslandi að eiga marga möguleika, því að sveiflur geta orðið í aðstæðum í mismunandi heimshlutum og þá þarf að beina viðskiptum þangað, sem hagstæðast er hverju sinni."

Í umræðum um EES-samninginn á sínum tíma héldu ýmsir andstæðingar hans því fram að samningurinn myndi takmarka möguleika Íslands til að gera fríverzlunarsamninga við önnur lönd og svæði. Kjartan segir að þeir spádómar hafi augljóslega reynzt rangir; þvert á móti séu enn fleiri möguleikar að bætast við. "Þegar ég byrjaði í þessum málum 1989 höfðum við engan EES-samning, bara einn fríverzlunarsamning við Evrópubandalagið. Við höfðum enga samninga við önnur lönd en Evrópubandalagslöndin. Nú erum við komin með EES-samning, þrettán fríverzlunarsamninga og samstarfssamninga við sjö lönd og svæði, sem væntanlega leggja grunn að fríverzlunarsamningum síðar meir.

En það, sem er mest spennandi og langstærst, er möguleikinn á samningi við Kanada. Kanadísk stjórnvöld hafa lýst yfir pólitískum vilja til að koma á fríverzlun við EFTA og ráðherrar EFTA-landanna hafa tekið undir það. Nú lendir það á Íslandi sem formennskulandi að koma þessu af stað. Þetta mál er það stærsta, sem komið hefur á borð EFTA ­ sérstaklega ef það lukkast ­ síðan EES samningurinn var gerður."

Kanadasamningurinn leið inn í fríverzlunarsamstarf N-Atlantshafsríkja

Evrópusambandið hefur á dagskrá að efla fríverzlun við Norður-Ameríku og hugmyndir hafa verið settar fram um Fríverzlunarsvæði Norður-Atlantshafsríkja, TAFTA. Aðspurður hvort fríverzlunarsamningur við Kanada geti auðveldað EFTA-ríkjunum aðild að slíku samstarfi, segir Kjartan að slíkur samningur geti orðið til þess að brjóta ísinn. "EFTA- löndin hafa látið í ljós áhuga á að vera með í viðræðum ESB við Bandaríkin og Kanada en það hefur ekki tekizt. Það, sem er að gerast varðandi Kanada, kemur því í staðinn fyrir og til viðbótar við slíkt samflot, því að enn er ekki komin á nein fríverzlun yfir Atlantshafið. Það gæti hent sig að EFTA yrði á undan Evrópusambandinu í þeim efnum. En það er áfram áhugi á því hjá EFTA að gera eitthvað samhliða og samsvarandi þessum samskiptum ESB og NAFTA-ríkjanna."

Kjartan bendir á að EFTA hafi nú komið á sambandi við svæðisbundin viðskiptasamtök í fleiri heimshlutum; MERCOSUR í Suður-Ameríku, ASEAN í Suðaustur-Asíu og samtök Persaflóaríkja. "Þetta þýðir útvíkkun á hlutverki EFTA og hvernig samtökin haga starfsemi sinni," segir hann.

Áhyggjur af smæð EFTA í EES-samstarfinu óþarfar

Tíma- og mannfrekasta verkefni EFTA er rekstur EES-samningsins. Kjartan segir að svo virðist sem þær áhyggjur, að EFTA væri orðið svo lítið að Evrópusambandið gæti stigið ofan á það, hafi verið ástæðulausar. "Við höfum yfirleitt getað ráðið fram úr þeim málum, sem verið hafa erfið viðfangs. Þau hafa kannski verið lengi á dagskrá, en á endanum hafa menn getað fundið viðunandi niðurstöðu. Ég er t.d. sannfærður um að bæði í laxamálinu og gasmálinu hefur það verið mikill styrkur fyrir Noreg að hafa EES sem vettvang og tæki til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við ESB. Enn hefur ekki reynt á EES-samninginn í eins stórum málum, sem varða íslenzka hagsmuni."

Kjartan segist þeirrar skoðunar að EFTA- ríkjunum hafi tekizt að nýta þá möguleika, sem EES-samningurinn gefi, til að hafa áhrif á mótun ákvarðana Evrópusambandsins um nýjar reglur, sem taka gildi á öllu efnahagssvæðinu. "Við erum komin inn í 300 nefndir á vegum Evrópusambandsins, þar sem við getum komið sjónarmiðum okkar á framfæri. Við höfum í auknum mæli snúið okkur að því að semja álit um lög og ákvarðanir, sem eru á leiðinni, og eins stefnumótandi pappíra Evrópusambandsins. Við höfum lært að nýta okkur samninginn og erum að þróa hann. Samstarfið virðist geta gengið nokkuð vel."

Aðspurður um þau áhrif, sem breytingar á Evrópusambandinu og ákvarðanatöku þess vegna Maastricht- og Amsterdam-samninganna hafi haft á samstarfið við EFTA, segir Kjartan að enn hafi ekki komið upp nein vandkvæði af þeim sökum. "Í Amsterdam- samningnum eru ákvæði um aukin áhrif Evrópuþingsins á ákvarðanatöku. Við eigum eftir að átta okkur á hvernig það kemur út. Sumir halda því fram að þetta muni jafnvel gera okkur auðveldara fyrir, því að þingið sé nær sjónarmiðum EFTA-landanna en framkvæmdastjórnin. Við eigum þó eftir að ráða fram úr því hvernig við komum sjónarmiðum okkar þar á framfæri þegar við þurfum á að halda, með áhrifaríkari hætti en við gerum núna."

Nóg verkefni á formennskutímabili Íslands

Spurður um mikilvægustu verkefni EFTA á nýhöfnu formennskutímabili Íslands segir Kjartan samningaviðræðurnar við Kanada efstar á blaði. "Svo eru fleiri fríverzlunarsamningar, sem lítur út fyrir að komist vel áleiðis, við Túnis, Kýpur og heimastjórn Palestínumanna. Einnig lítur út fyrir að unnið verði að því að koma á samstarfi við litlu ríkin við Persaflóa. Þau hafa sýnt áhuga á því og að minnsta kosti eitt EFTA-landanna, Sviss, á þar mikilla hagsmuna að gæta. Það er því nóg af verkefnum, sem þarf að stýra og koma áleiðis. Á EES-sviðinu er þetta allt að komast í fastari farveg. Þar þurfum við þó að leggja vinnu í að greina betur áhrifin af Amsterdam-samningnum og af stækkun Evrópusambandsins til austurs. Jafnframt þarf að leggja grunn að því hvernig þurfi að standa að samtölum við Evrópusambandið um stækkunina í framtíðinni.

EFTA-ríkin hafa sótt nokkuð stíft að fá aðild að svokallaðri Evrópuráðstefnu ESB, sem á að fjalla um stækkunina, og því verður áreiðanlega áfram haldið að ESB, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að við séum aðilar að henni. En það er svolítil tilhneiging hjá sumum Evrópusambandsríkjum að vera með lokaðan hóp. Mín skoðun er hins vegar sú að ESB eigi einmitt að laða að sér ýmsa, sem standa utan þess, til dæmis EFTA-ríkin, til að taka þátt í ráðstefnum og stefnumótun af þessu tagi."

Hæg afgreiðsla á EES-málum

Kjartan segir að óhætt sé að segja að Ísland hafi staðið sig vel í starfsemi EFTA á seinni árum, en hlutfallslega stærri hluti starfseminnar hefur hvílt á herðum Íslendinga vegna fækkunar aðildarríkja. "Það eru alltaf einhverjir hnökrar. Ég hef til dæmis gert það að umræðuefni í þessari heimsókn minni að afgreiðsla EES-mála, sem þurfa að fara í gegnum þingið, sé ekki alltaf eins greið og fljót og hægt væri að óska sér, hvernig sem á því stendur. Ég skal ekki segja hvort ábyrgðin á því liggur hjá ráðuneytunum eða þinginu. En á heildina litið stendur Ísland sig vel og hefur teflt fram góðu fólki í EFTA," segir Kjartan Jóhannsson.

Morgunblaðið/Kristinn KJARTAN Jóhannsson: Með fríverzlunarsamningum EFTA er verið að opna möguleika fyrir Íslendinga víða um heim.