WILLIAM Hague, leiðtogi Íhaldsflokksins breska, hyggst bjóða Tony Blair forsætisráðherra að mynda bandalag gegn vinstrisinnum í flokki hans, Verkamannaflokknum, til að koma fyrirhuguðum umbótum á breska velferðarkerfinu í gegn, að því er segir í The Times.
Breytingar á breska velferðarkerfinu

Hague býður

Blair aðstoð

WILLIAM Hague, leiðtogi Íhaldsflokksins breska, hyggst bjóða Tony Blair forsætisráðherra að mynda bandalag gegn vinstrisinnum í flokki hans, Verkamannaflokknum, til að koma fyrirhuguðum umbótum á breska velferðarkerfinu í gegn, að því er segir í The Times . Með þessu vonast Hague til að slá tvær flugur í einu höggi, koma á umbótum sem flokkur hans er að mörgu leyti samþykkur þrátt fyrir að breytingarnar muni ekki síst koma niður á betur stæðum kjósendum hans og reka fleyg í samstöðu Verkamannaflokksins.

Fyrir jól voru greidd atkvæði um lækkun greiðslna til einstæðra foreldra og greiddu íhaldsmenn atkvæði með stjórnarfrumvarpinu. Fjölmargir þingmenn Verkamannaflokksins voru hins vegar andvígir frumvarpinu og greiddu 46 stjórnarþingmenn atkvæði gegn því. Nú vonast Íhaldsflokkurinn til þess að leikurinn endurtaki sig og að deilurnar innan Verkamannaflokksins verði til að kljúfa hann.

Bætur skattlagðar

Blair kynnir breytingar á velferðarkerfinu í fundaherferð sem hófst í gær og er ljóst að hann mun mæta mikilli andstöðu í eigin flokki. Hafa margir flokksmenn hans heitið því að berjast með kjafti og klóm gegn sparnaði í velferðarkerfinu og fullyrða að breytingarnar muni koma illa niður á þeim sem minna mega sín, þvert á það sem Blair hefur fullyrt.

Meðal þess sem mætir mestri andstöðu eru áætlanir stjórnarinnar um að skattleggja barnabætur og örorkubætur, svo og áætlanir um að tekjutengja bæturnar.